07.12.1934
Efri deild: 55. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1261 í B-deild Alþingistíðinda. (1852)

5. mál, útflutningsgjald

Frsm. (Jón Baldvinsson) [óyfirl.]:

Fjhn. hefir haft þetta mál alllengi til athugunar, og stafar það af því, að n. var ekki alveg viss um, að frv. væri nægilega rækilega undirbúið, því eins og hv. dm. sjá, er því ætlað að falla inn í eldri 1., nr. 70 1921, og síðan gefa þau út í heild. En til þess að fella slíkan lagabálk saman, sem oft hefir verið breytt á síðastl. 13 árum, þarf vandvirkni, til þess að ekkert falli undan, sem með á að vera, og ekkert fljóti með af því, sem burt á að falla. N. hefir leitað umsagnar ýmsra manna um frv., auk þess sem hún hefir athugað það sjálf allgaumgæfilega og komizt að þeirri niðurstöðu, að óhjákvæmilegt sé að fella úr gildi l. nr. 60 14. júní 1921, um útflutningsgjald af síld o. fl., eins og 3. brtt. n. fjallar um. Þessi l. hafði láðst að taka upp í niðurfelling l. í 5. gr. frv., og hefir n. gert um það brtt. Þá er enn lítilsháttar orðabreyt. í þá átt að taka fram í l., að brot úr tolleiningu, sem nemur ½ eða meira, skuli talin heil tolleining en minna broti sleppt. Svona hefir þetta verið framkvæmt, en réttara þykir samt að taka þetta fram í 1., til þess að fyrirbyggja allan ágreining. Þá er veruleg breyt. gerð með 2. brtt. við 3. gr. frv., sem ég er ekki alveg viss um, að n. sé öll sammála um; a. m. k. hefir hv. 1. þm. Eyf. skrifað undir nál. með fyrirvara, og kemur mér ekki á óvart, þótt hann ætti við þessa till. og e. t. v. fleira í till. Í stjfrv. er gert ráð fyrir því, að l. nr. 52 8. sept. 1931 væru felld úr gildi, þ. e. a. s. 1. gr. þeirra, en 2. gr. sömu l. fjallar um endurgreiðslu á tolli af sykri, sem notaður er við kryddun síldarinnar. Samkv. stjfrv. átti þessi 2. gr. að standa í gildi, en n. leggur til, að hún sé felld niður. Nú hafa ýmsir komið til mín og talið, að þetta væri ekki rétt, og vilja ekki, að þetta ákvæði sé fellt burt, heldur látið standa eins og í stjfrv., þannig, að aðeins 1. gr. l. frá 1931 sé úr gildi numin. Um þetta fjallar b-liður 3. brtt.

Þá er 2. brtt., sem er einungis í þá átt að gera orðalagið fyllra, að láta þær afurðir, sem ræðir um í 1. og 2. gr., fulla undir ákvæði 3. gr. Það þýðir það, að ef skip, sem t. d. hafa fiskimjölsvélar í gangi um borð í skipinu úti í sjó og koma ekki í land með afla, falli einnig undir þetta. Þá held ég, að ég hafi gert grein fyrir þeim breyt., sem við viljum gera á frv., en vil þá aðeins geta þess, að fyrir n. lágu beiðnir með og móti því að hækka útflutningsgjaldið af þurrkuðum hausum. N. hefir í raun og veru ekki skorið úr þessu, en hefir hinsvegar frjálsar hendur um, hvernig greidd verða atkv. um þetta, eða hvort bornar kunna að verða fram brtt., en n. í heild hefir ekki gert það. Úr þessu er vandi að skera, þar sem hækkaður tollur á beinum og hausum lækkar verðið á þessum vörum útfluttum. Menn segja, að þeir verði fyrir einhverjum skaða í þessu efni, en á það er hinsvegar að líta, að í landinu er mikill iðnaður, þar sem fiskimjölsverksmiðjurnar eru starfandi og þær eiga í harðvítugri samkeppni við Norðmenn, sem helzt kaupa hér þurrkaða hausa og bein til útflutnings, og þessar verksmiðjur hafa ekki getað keppt við þá á því verði, sem þeir hafa boðið. Það tekur út yfir, ef fiskimjölsverksmiðjurnar geta ekki starfað af þessum orsökum, þar sem þær bæði skapa atvinnu innanlands og veita gjaldeyri inn í landið. N. var þarna milli steins og sleggju um, hvað gera skyldi, og árangurinn varð sá, að engin till. var um þetta gerð.

Þá er rétt að geta þess, að í 4. gr. er tekið upp ákvæði um framlag til ræktunarsjóðs, sem er í eldri l. N. hefir ekki amazt við þessu, síður en svo, en vill benda á það, að í sérstökum l. frá 1930, um Fiskiveiðasjóð Íslands, er gert ráð fyrir því, að 1/8% af útflutningsgjaldi á fiski renni í Fiskiveiðasjóð, og þrátt fyrir, að það hefir ekki verið tekið hér upp, eins og n. var að hugsa um, þá er gengið út frá því, að það haldist eftir þeim sérstöku l., enda þau ekki numin úr gildi eða hnekkt, og þótt þetta sé ekki tekið hér upp eins og með ræktunarsjóðinn, þá var það sameiginlegt álit n., að þetta ætti að haldast þangað til því yrði breytt með nánari löggjöf, sem raunar er á döfinni.

Þá kemur stærsta atriðið í frv., sem sjálfsagt getur valdið nokkrum erfiðleikum, en það er 3. gr. Ég ætla ekki að fara langt út í að ræða hana hér. Það er tekin þar upp ný framkvæmd, sem álitamál getur verið um, hve heppileg sé, sem sé að heimta af erlendum skipum, sem hafa rétt til að veiða í landhelgi, sem eru eingöngu Færeyingar í raun og veru, að þeir setji tryggingu fyrir greiðslu tolls af því, sem þeir kunna að eiga óveitt, svo framarlega sem þeir fyrirhittast með afla innan landhelgi, og skuli þeir þá þegar í stað dregnir til hafnar. Þetta mun að vísu vera tekið upp með hliðsjón af 10. gr. fiskveiðil. frá 1922, en þetta er það strangt orðað, að það getur orkað tvímælis samkv. þeim l., hvort svona hart eigi að ganga að, að heimta tryggingu fyrir greiðslu tolls af þeim skipum, sem rétt hafa til að veiða í landhelgi, ef svo er ástatt sem segir í 3. gr. 1., því að þar er ekki talað um útflutningsgjald, heldur afgjald, sem gæti þýtt hafnar- eða vitagjald. Það er verið að athuga þetta mál, sem e. t. v. gæti komið okkur í deilu við sambandsþjóðina, hvort rétt sé að fara svona að. En ég segi fyrir mitt leyti, að ég er mjög í vafa um þetta atriði. Þessar ströngu kröfur til skipanna myndu eingöngu bitna á Færeyingum. Þetta tala ég ekki fyrir n. hönd. En þetta er til athugunar hjá stj. ásamt fleiri atriðum, hvort ekki megi á þessu gera breyt. En n. hefir enga slíka borið fram.

Ég mun svo láta máli mínu lokið og mæla með þeim till., sem meiri hl. fjhn. hefir borið fram.