14.12.1934
Efri deild: 61. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1268 í B-deild Alþingistíðinda. (1865)

5. mál, útflutningsgjald

Ingvar Pálmason [óyfirl.]:

Eftir seinni útskýringu hv. 1. þm. Reykv. virðist mér brtt. hans í flestum tilfellum meiningarleysa. Þau hafnargjöld, sem ég þekki, eru ekki lögð á sem útflutningskjöld, heldur eru þau tekin af öllum vörum, sem skipað er fram eða upp á höfninni, hvort sem þær eru fluttar til útlanda eða til næstu hafnar. En svo vil ég benda á, að brtt. sjálf felur það í sér, að ekki er meiningin, að hún nái aðeins til gjalda, sem lögð eru á sem útflutningsgjald. Þar stendur: „þó þannig, að ef þessar afurðir eru skattlagðar til bæjarsjóðs eða hafnarsjóðs“ o. s. frv. Þarna er ekki talað um útflutningsgjald, heldur skatta, sem lagðir eru á vöruna, og það er gert með hafnarreglugerðunum, þar sem tekin eru útskipunargjöld. Ég sé því ekki betur, en að ef hv. þm. vill halda fast við, að till. hans verði samþ., þá verði hann að breyta henni, því hún segir allt annað heldur en hann segist meina með henni. Hann segist aðeins eiga við gjöld, sem reiknuð eru af vörunni sem útflutningsgjald, en gjöld, sem einnig greiðist af þeim hluta vörunnar, sem seldur er innanlands, dragist ekki frá. Ég held því, að annaðhvort sé till. þýðingarlaus, eða að túlka verður hana á annan veg heldur en hv. flm. gerir ráð fyrir. Ég skal játa, að mér er ekki fyllileg, kunnugt, hvort gjaldið af þessari vöru í Vestmannaeyjum er reiknað sem útflutningsgjald. Ég hygg þó, að það sé ekki tilfellið, heldur sé gjaldið eins tekið af beinunum, þó þau séu flutt til annara hafna innanlands.

Hinsvegar myndi ég ekki leggja á móti till., ef brtt. mín við hans yrði samþ. Það væri þá eins og þegar vara er skattlögð til bæjarsjóðs, og tel ég það eðlilegan skatt.