14.12.1934
Efri deild: 61. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1270 í B-deild Alþingistíðinda. (1872)

5. mál, útflutningsgjald

Magnús Guðmundsson:

Ég efast um, að mikill ágreiningur sé milli mín og hæstv. atvmrh. í þessu máli. Ég bendi aðeins á erfiðleikana við að framkvæma innheimtuna, og leiði jafnframt athygli að því, að ekki muni vera mikið upp úr því að hafa. 10. gr. l. um rétt til fiskiveiða í landhelgi kemur þessu máli ekkert við. Þar er án efa gengið út frá því, að skipið hafi mök við land.

Þá vil ég spyrja hv. n., við hvað er átt með orðinu landbúnaðarafurðir í 1. gr. frv. Yfirleitt er ekki ágreiningur um skilning á því orði, en það gæti þó orðið undir vissum kringumstæðum. T. d. mætti deila um það, hvort dúnn og lax teldist til landbúnaðarafurða. Hefir áður orðið deila um þetta á þingi, og var þá talið, að þessar afurðir teldust til landbúnaðarafurða.