16.10.1934
Neðri deild: 11. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1285 í B-deild Alþingistíðinda. (1899)

33. mál, skipulagsnefnd atvinnumála

Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson) [óyfirl.]:

Ég held, að hv. síðasta ræðumanni hafi ekki verið fyllilega ljóst, með hvað hann var að fara. Hann talaði um þetta ægilega vald, sem n. væri falið. Ég get ekki skilið, við hvað hv. þm. á. N. á að afla sér skýrslna, gera rannsóknir og till., en hún hefir ekki vald til nokkurra framkvæmda. Hann sagði, að meiri hluti þjóðarinnar yrði að beygja sig undir boð n. og bann, og að tugthús lægi við, ef út af væri brotið. Ég skal ekki fortaka, að eitthvað svolítið sé til í þessu, en það er svo lítið, að samlíkingin á ekki við, þó að sagt sé, að verið sé að gera úlfalda úr mýflugu. N. getur heimtað skýrslur, og liggja við dagsektir, ef þær eru ekki gefnar, en ef logið er, fer um það eins og önnur afbrot af því tægi. Þetta verða menn t. d. að þola niðurjöfnunarnefnd.

Til að fyrirbyggja, að verið sé að ræða um atriði, sem ekkert koma n.skipuninni við, ætla ég, með leyfi hæstv. forseta, að lesa upp skipunarbréf n. Það hljóðar svo:

„Ríkisstjórnin hefir ákveðið að skipa nefnd til þess:

Að hafa með höndum rannsókn á fjármálum ríkis og þjóðar og á hverskonar atvinnurekstri í landinu, framkvæmdum og framleiðslu, svo og á sölu og dreifingu afurða innanlands og utan og verzlun með aðfluttar vörur. Rannsókn þessi skal jafnt ná til framkvæmda og atvinnurekstrar ríkis og bæja sem einstakra manna og félagsfyrirtækja. Nefndin láti ríkisstjórninni jafnóðum í té skýrslur yfir niðurstöður þessara rannsókna.

Að koma fram með, að rannsókn þessari lokinni, rökstuddar tillögur og sem nákvæmastar áætlanir um aukinn atvinnurekstur, framkvæmdir og framleiðslu í landinu, þar á meðal um stofnun nýrra atvinnugreina, svo og um það, hvernig komið verði á föstu skipulagi á allan þjóðarbúskapinn, jafnt opinberar framkvæmdir og fyrirtæki sem atvinnurekstur einstaklinga, þannig, að þau verði sem hagkvæmast rekin og aukin með hagsmuni almennings fyrir augum (Planökonomi). Í tillögum þessum og áætlunum sé lögð áherzla á það, að efldur verði sá atvinnurekstur, sem fyrir er og rekinn er á heilbrigðum grundvelli, enda athugað, að hve miklu leyti þörf er á opinberu eftirliti með hverskonur stórrekstri til tryggingar því, að hann verði rekinn í samræmi við hagsmuni almennings, og á hvern hátt slíkt eftirlit yrði framkvæmt. Að svo miklu leyti sem fyrirsjáanlegt yrði, að einkarekstur ekki nægir til að fullnægja þörfum þjóðarinnar eða kann að öðru leyti að vera varhugaverður fyrir almennings heill, geri nefndin tillögur um opinberan rekstur og jafnframt um fyrirkomulag á hverskonar opinberum fyrirtækjum. Í öllum tillögum sínum hafi nefndin það markmið fyrir augum að útrýma atvinnuleysinu og afleiðingum kreppunnar svo að nýtt fjör megi færast í alla atvinnuvegi þjóðarinnar og kaupgeta hinna vinnandi stétta aukast.

Til þess að framkvæma rannsóknir þessar og gera tillögur og áætlanir, mun ráðuneytið láta nefndinni í té nauðsynlega aðstoð, svo og hlutast til um, að embættismenn ríkisins og ríkisstofnanir gefi nefndinni allar þær upplýsingar, er hún telur sér þörf á að fá. Einnig mun ráðuneytið leita samþykkis næsta Alþingis á því, að nefndin fái rétt til þess að heimta skýrslur, munnlegar og skriflegar, af einstökum mönnum og félögum.

Ríkisstjórnin óskar þess, að nefndin hraði störfum sínum svo sem unnt er.

Laun nefndarmanna, svo og allur annar kostnaður við nefndina og störf hennar, greiðist úr ríkissjóði eftir reikningi, sem ríkisstjórn úrskurðar.

Ríkisstjórnin hefir ákveðið að skipa nefnd þessa fimm mönnum, og eruð þér, herra alþingismaður, hér með skipaður í nefndina, og eru ásamt yður skipaðir í hana:

Emil Jónsson bæjarstjóri, Hafnarfirði,

Jónas Jónsson alþingismaður, Reykjavík,

Ásgeir Stefánsson framkv.stj., Hafnarfirði,

Héðinn Valdimarsson framkvæmdarstj., Rvík, sem jafnframt er skipaður formaður nefndarinnar og kallar hana saman til funda“,

Fyrri kaflinn er um hlutverk n., en síðari kaflinn, sem mér skilst, að mest hafi farið í taugarnar á hv. þm., er um það, á hverju stj. óskar, að n. byggi till. sínar. Annað kemur hér ekki til greina. Allt skraf um hið ægilega vald n. er tómur hugarburður manna, sem af einhverjum ástæðum halda, að rannsóknir n. geti komið sér illa fyrir þá sjálfa eða einhverja, sem þeir bera fyrir brjósti. Er þó varla ástæða til að óttast frekar þessa n. en t. d. skattan. eða milliþingan. í sjútv.málum, sem hefir síðustu 3 árin fengið upplýsingar um efnahag og atvinnurekstur svo að segja allra útgerðarmanna á landinu.

Hv. þm. Vestm. var samþ. því, að full ástæða væri til að skipa n. til að leysa af hendi þau verkefni, sem þessari n. eru fengin. Mér hefir líka skilizt á samflokksmanni hans, að hann teldi nokkra ástæðu til þessa. En þeir eru báðir sammála um, að n. skipunin hafi tekizt svo illa, að núv. stj. hafi eyðilagt það, að n. geti orðið til gagns. Ýmsir samflokksmenn þeirra fóru mun lengra hér áður fyrr og töldu slíka n.skipun sem þessa tómt „humbug“. Þarf ekki að leita langt aftur í blöðum Sjálfstæðisflokksins til að finna þetta.

Hv. þm. Vestm. taldi skipun milliþn. í sjútv.málum eins og vera bæri, en þar voru 2 sjálfstæðismenn, 1 Framsóknarmaður, en enginn Alþýðuflokksmaður. Þetta var réttlætt með því, að í nefnd, sem skipuð var til að rannsaka hag verkamanna og sjómanna, fékk Alþýðuflokkurinn eitt sæti af þremur. Ég fæ nú ekki séð, hvernig skipun einnar n. getur réttlætt skipun annarar. Ef atvmrh. skipaði nú aðra n. með öðrum verkefnum og Sjálfstæðismenn fengju þar einn eða tvo menn af fimm, væri þá ráðin bót á göllum þessarar n.skipunar? Úr því að tveim mönnum í skipulagsn. er fundið það svo mjög til foráttu, að þeir séu svo ákafir pólitískir baráttumenn, þá vil ég leyfa mér að skjóta því til hv. þm., hvort hann telur sjálfan sig, hv. þm. N.-Ísf. og hv. 6. landsk. svo lina baráttumenn fyrir sinn flokk, að þeir væru af þeim ástæðum vel til fallnir að sitja í þessari n. Ef þeir koma í aðra röð sem pólitískir baráttumenn, þá er það áreiðanlega ekki af viljaskorti. Þeir hafa vafalaust fullan vilja á að berjast heiðarlegri baráttu fyrir sinn flokk.

Að því er snertir störf vinnumiðlunarskrifstofu Rvíkur og skipulagsn., þá er það ekki sambærilegt. Skipulagsn. framkvæmir alhlið, rannsókn og undirbýr till. til þings og stj. Skrifstofan úthlutar vinnu þeim, sem eftir leita. Annað er framkvæmd, hitt er rannsókn (JJós: Og löggjöf). Það er misskilningur. Hér er ekki um neina löggjöf að ræðu, þó að n. geti lagt fram frv. Það getur hv. þm. líka gert, enda þótt hann hafi ekkert löggjafarvald í sinni hendi.

Eitt atriði í ræðu hv. þm. þótti mér torskilið. Hann sagði, að ef stj. hefði borið þetta mál undir menn án tillits til flokka, þá myndi hún hafa fengið góðar undirtektir. Hefði því verið eðlilegt af stj. að leita til sjálfstæðismanna með málið. Nú er það svo, að þau mál, sem n. tekur til meðferðar, eru flest þannig vaxin, að hætt er við, að menn greini þar á eftir sömu línum og þeim, sem flokkum skipta. Þetta, í sambandi við þá afstöðu, sem Sjálfstæðisflokkurinn hefir tekið til allra opinberra afskipta af atvinnurekstri manna, olli því, að ég taldi ekki leitandi til sjálfstæðismanna. (JJós: Stefnir þá hæstv. ráðh. að ríkisrekstri?).

Hv. þm. sagði, að hér þættist hver busi góður, sem gæti sparkað í einstaklingsframtakið. Sjálfur hefir þessi hv. þm. gengið bezt fram í því að sparka í síldareinkasöluna, bæði í tíma og ótíma. Hann hefir varla haldið svo 10 mín. ræðu hér á þ., að hann notaði ekki tækifærið til að úthúða henni. Mun því enginn vera æfðari að sparka en hv. þm. En mér er það ekkert launungarmál, að svo illa sem tókst til um síldareinkasöluna, þá er ég ekki í vafa um það, að við munum neyðast til að fara inn á svipaðar brautir og 1928—31. Þykist ég viss um, að hv. þm. muni heldur ekki vera í vafa um það, þó að við gætum auðvitað deilt um einstök fyrirkomulagsatriði. Og svo ill sem niðurstaðan varð af starfi síldareinkasölunnar, þá verður hagur hennar ekki svo ákaflega slæmur, ef hún er borin saman við ýmsan einstaklingsatvinnurekstur. Töp síldareinkasölunnar eru ekki nema smámunir hjá því, sem orðið hefir í atvinnurekstri einstaklinga. Er ég reiðubúinn að gera þennan samanburð hvenær sem er, þar sem það er vitað, að bankarnir hafa á síðustu árum tapað 30—40 milljónum á atvinnurekstri einstaklinga, en tjón það, sem síldareinkasalan olli, er þó ekki meira en það, að það liggur öðru hvoru megin við eina milljón.

Í sambandi við þessar almennu hugleiðingar og fyrirspurn hv. þm. um það, hvort n. ætti að vinna á þjóðnýtingargrundvelli, get ég lýst yfir því sem minni skoðun, að n. eigi ekki ýkja mikinn kost þess að gera verulegar breyt. til bóta, án þess að ganga lengra eða skemmra inn á þær leiðir, sem samflokksmenn hv. þm. kalla venjulega þjóðnýtingu. Mér er engin launung á þessu. Hygg ég, að flestir hljóti að játa, að þetta sé óhjákvæmilegt vegna viðskipta okkar við önnur lönd. Hvað sem hv. þm. vill nú kalla það, þó er víst, að í milliríkjaviðskiptum stefnir allt meira og meira í þessa átt. Þessi viðskipti eru nú orðið víðast háð svo margskonar böndum og fyrirmælum, að tæpast er hægt að nefna þau einstaklingsviðskipti. Eitt ríki segir við annað: Ég skal kaupa af þér svo og svo mikið af vörum, ef þú kaupir af mér svo og svo mikið. Síðan eru settar á gjaldeyrishömlur og innflutningshöft, sem neyða kaupendur til að taka vörun sínar í einu landi, en ekki í öðru, og verða menn að sætta sig við þetta, jafnvel þótt verðlag og annað kunni að ýmsu leyti að vera óhagkvæmara þar en annarsstaðar. Hygg ég, að fæstir sjálfstæðismenn geti neitað því, að allt hnígur nú meira og meira í þá átt, að ríkið verði að taka í taumana til að tryggja hag almennings, þó að það verði með því að takmarka nokkuð athafnafrelsi einstaklinga.

Ég lít svo á, að eitt af fyrstu verkefnum skipulagsn. verði það að flokka allan innflutning til landsins. Verður hún að athuga hvað af því, sem við flytjum inn, má telja nauðsynjavöru. Þá verður hún að athuga, hvað af slíkum vörum við getum framleitt sjálfir hér heima og eins það, hvort við getum ekki framleitt einhverjar aðrar vörur, sem komið gætu í staðinn fyrir þær. Ennfremur þarf n. að athuga það, hvernig hægt sé að auka atvinnu í landinu með því að vinna betur úr ýmsu því, sem við framleiðum sjálfir. Ef n. sýnist eitthvað vera hægt að gera í þessu efni, liggur fyrir henni að athuga, hvernig komið verði upp tilsvarandi atvinnurekstri. Mun það í flestum tilfellum ekki hægt nema með stuðningi hins opinbera. Á þessum sviðum eru ýmsir möguleikar órannsakaðir.

Hv. þm. lauk máli sínu með því að lýsa yfir því áliti sínu, að eftir n.skipuninni að dæma myndi það frekar vaka fyrir stj. að tryggja hagsmuni þeirra flokka, er að henni standa, en að gera almenningi gagn. Þessi röksemdaleiðsla er auðvitað fjarri lagi. Því að eins verður þessum flokkum gagn að n.skipuninni, að almenningur telji sér gagn að störfum n.

Ég vænti þess, að n. hafi atorku til þess að bæta úr vandræðum þeim, sem nú eru í atvinnumálum þjóðarinnar. Því aðeins mun stjórnarflokkunum vegsauki að þessari n., að till. hennar nái hylli þorra þjóðarinnar. En því er nú svo varið, að oftast nær munu hagsmunir almennings og hagsmunir þessara flokka fara saman. Og hagsmunir þessara flokka eru algerlega undir því komnir, að þeir flytji góð mál, sem almenningur fellst á.