16.11.1934
Neðri deild: 38. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1328 í B-deild Alþingistíðinda. (1918)

33. mál, skipulagsnefnd atvinnumála

Bjarni Ásgeirsson:

Herra forseti! Aðalmótbára hv. þm. Snæf., sem hér var frummælandi í kvöld, og hv. 8. landsk., sem hér talaði síðast, gegn þessari n. og starfi hennar var það, að henni væri fyrirfram ákveðin niðurstaða; að það væri þannig í garðinn búið, að hún gæti ekki komizt að annari niðurstöðu en þjóðnýtingu á öllum sviðum. Og með hverju haldið þið, að þeir hafi viljað sanna þetta? Jú, til allrar hamingju er til lítið kver, sem heitir fjögra ára áætlun Alþýðuflokksins og gefið var út fyrir síðustu kosningar. Þetta kver er nú að verða að helgidómi í höndum sjálfstæðismanna. Þeir kunna á fingrum sér fjölda ritningargreina úr því til þess að sanna með þjóðnýtingarsyndir á okkur framsóknarmenn. Þegar svo í þessu kveri er minnzt á nefndarskipun slíka sem hér er um að ræða, þá þarf nú ekki lengur vitnanna við; það er svo sem gefið, að ekkert annað en þjóðnýting getur af þessu leitt. N. er ekkert annað en öxi, reidd að rótum trjánna, fyrirtækjum einstaklinganna í landinu, hvort sem þau bera ávöxt eða ekki. Þetta er ekkert nýtt; það hefir kveðið við sýknt og heilagt hjá stjórnarandstæðingum síðan stjórnarskiptin urðu í sumar, þegar talað er við framsóknarmenn og í þeim málgögnum, sem þeim er ætlað að lesa, að starfsskrá sú, sem þá var samin og birt, eftir að nýja stjórnin var tekin við völdum, væri öll tekin upp úr 4 ára áætlun Alþýðuflokksins, og allt, sem stjórnin gerði, væri samkv. fyrirskipunum jafnaðarmanna, knúið fram með þeirri svipu, sem þeir hefðu yfir höfðum framsóknarmanna í þinginu.

Mig langar til að minnast ofurlítið á þessa 4 ára áætlun. Ég er ekki í neinum vafa um það, að þótt svo hefði farið, að Sjálfstæðisflokkurinn hefði orðið í meiri hl. og myndað stj. upp úr kosningunum, þá hefðu ráðherrar hans ekki algerlega getað siglt fram hjá þessum þjóðnýtingarboðum. Við skulum segja, að Sjálfstæðisflokkurinn hefði myndað stj. og hv. þm. Snæf. orðið atvmrh. Við getum látið okkur detta í hug, að hann hefði viljað taka vísindin í þágu atvinnuveganna til lands og sjávar. Ég held, að eitthvað þess háttar hafi kveðið við hjá frambjóðendum Sjálfstæðisflokksins fyrir kosningarnar. En hvernig hefði honum orðið við, ef einhver hefði bent honum á, að með þessu væri hann farinn að vinna að þjóðnýtingu, þar sem á þetta er minnzt í 4 ára áætlun sósíalista. E. t. v. hefði líka hv. þm. viljað vinna að auknum markaði erlendis fyrir afurðir bænda og sjávarútvegsmanna, með aukinni vöruvöndun og margbreyttari vinnslu afurðanna. En hann hefði sennilega orðið að hætta við allt slíkt, þegar hann hefði tekið eftir, að þetta stendur í 4 ára áætluninni og er því ein grein á þessu fagra — eða hitt þó heldur — þjóðnýtingartré.

Nú skulum við aftur á móti hugsa okkur, að hv. þm. Snæf. hefði orðið fjmrh. og dottið í hug að reyna að gera fjárl. svo úr garði, að þau yrðu sem réttust mynd af fjárhagsástæðum ríkissjóðs, þar sem hvorki væru faldar væntanlegar tekjur né fyrirsjáanleg útgjöld; hann hefði sennilega orðið að biðja fyrirgefningar á slíku framferði, því þetta er upp úr 4 ára áætlun Alþýðuflokksins. Hefði hv. þm. orðið dómsmrh. hefði hann e. t. v. langað til að endurbæta réttarfarslöggjöfina og auka réttaröryggið í landinu; en þá var hann líka farinn að framkvæma þjóðnýtingarstefnu jafnaðarmanna, því það er einnig talað um þetta í 4 ára áætluninni.

Kannske hv. þm. hefði líka dottið í hug að koma á fullkominni landhelgisgæzlu og auka öryggi sjómanna með ráðstöfunum til slysavarna. En honum hefði vafalaust orðið mjög bilt við, þegar hann allt í einu hefði tekið eftir, að hann var farinn að framkvæma 4 ára áætlun sósíalista.

Ég skal segja hv. þm. Snæf. það, að það er nú svo komið, að um margt af því, sem stendur í þessari góðu bók, 4 ára áætluninni, geta allir flokkar verið sammála. Um nefndarskipunina er þar ekkert sagt annað en það, að skipa skuli n. til að gera till. um, „hvernig komið verði fastri stjórn og skipulagi á allan þjóðarbúskapinn, jafnt opinberar framkvæmdir og fyrirtæki sem atvinnurekstur einstaklinga, svo að þau verði sem hagkvæmast rekin og aukin með hagsmuni almennings fyrir augum. (Planökonomi)“.

Annað atriði, sem hv. þm. færði fram til sönnunar því, að hér væri aðeins um undirbúning til þjóðnýtingar að ræða, var það, að hv. atvmrh. hefði sagt það sem sína skoðun, að n. ætti þess ekki ýkja mikinn kost að gera till. til umbóta á sviði atvinnulífsins án þess að fara inn á þær leiðir, sem sjálfstæðismenn venjulega kalla þjóðnýtingu. Ég geri ráð fyrir, að maður, sem trúir svo á þjóðnýtingu sem aðalúrræði í öllum vandamálum þjóðfélagsins eins og hæstv. atvmrh. gerir, innilegar heldur en hann hefir nokkurntíma trúað sínum barnalærdómi, geti ekki komizt að annar í niðurstöðu en að sú n., sem skipuð er til að finna leiðir út úr vandamálunum, hljóti að hitta á þjóðnýtingarleiðina. Alveg eins og hv. þm. Snæf. gerir væntanlega ráð fyrir, að n., sem hann treysti til að komast að réttri niðurstöðu, mundi benda á hið gagnstæða. Eftir því sem hv. sjálfstæðismenn tala, þá trúa þeir, að helztu úrrræðin séu í því fólgin að gera persónulegt frelsi og framtak einstaklinganna sem mest gildandi í atvinnurekstri og þjóðlífi yfirleitt. Og það er fyrirsjáanlegt, að þó menn gangi að starfi í þessari n. með það eitt fyrir augum, að komast að sem réttastri niðurstöðu í öllum atriðum málanna, þá hljóta þeir að álykta, að niðurstöðurnar verði í samræmi við þær persónulegu skoðanir, sem þeir hafa fyrirfram.

Það er þannig síður en svo, að þetta tvennt, sem ég hefi talað um, sé sönnun fyrir því, að niðurstaða nefndarinnar sé fyrirfram ákveðin, enda er vitanlegt, að hún hlýtur að verða samkv. því, sem rannsóknin leiðir í ljós.

Þetta, sem hér er nefnt „Planökonomi“, er nú eitt höfuðviðfangsefni allra þjóða. Hvort sem þjóðirnar eru smáar eða stórar gera þær þetta að sínu aðalmáli í öllum starfsgreinum nú á tímum. E. t. v. blanda sumir því saman, að Rússar, sem reka atvinnuvegina yfirleitt á grundvelli ríkiseignar og þjóðnýtingar, eru komnir einna lengst í þessu, sem kalla mætti skipulagningu á lélegri íslenzku; af því að þetta fer saman þar, halda menn e. t. v., að öll skipulagning sé þjóðnýting. En ég vil benda á það, að ýmsar þjóðir, sem eru langt frá því að vera á bandi rauðu flokkanna, eru engu skemur á veg komnar í þessum efnum heldur en aðrar, sem stjórnað er af sósíalistum. Ég hefi það t. d. fyrir satt, að á Norðurlöndum sé „Planökonomi“ ekki skemmra á veg komin hjá Norðmönnum, sem haft hafa stjórn úr borgarafl. undanfarin ár, heldur en hjá Dönum og Svíum, þar sem jafnaðarmenn hafa farið með völd. Allar þær tilraunir, sem Roosevelt er að gera til þess að byggja nýtt skipulag upp úr þeim óskapnaði, sem hin frjálsa samkeppni hefir steypt atvinnulífi Bandaríkjanna út í, eru einungis tilraunir í sömu átt, sem ætlazt er til, að lagt verði út í með þessari n.arskipun. Og það er langt frá því, að starf hans sé eftir línum jafnaðarmanna í heiminum. Um England er það vitanlegt, að þar hefir setið að völdum íhaldsstjórn að undanförnu og hafa þó óvíða verið gerðar tröllauknari tilraunir til skipulagninga. Hvað var Ottawaráðstefnan annað en tilraun til skipulagningar á verzlun innan brezka heimsveldisins? Og tilraunin til að skipuleggja mjólkursöluna hér er ekki nema örlítill skuggi af þeim ráðstöfunum, sem gerðar hafa verið í sömu átt í Englandi, þar sem öll mjólkursala er komin undir einn hatt. Þær þjóðir, sem postular sjálfstæðismanna sögðu fyrir kosningarnar, að hefðu rekið „rauðu hættuna“ of höndum sér, eins og t. d. Ítalir og Þjóðverjar, reyna engu síður en aðrar þjóðir að koma á hjá sér þeirri planökonomi, sem talað er um í 4 ára áætluninni. Skipulagningarstarfsemin er þannig enganveginn flokksbundin, hvorki við rauða flokka né svarta; hún er sá þráður, rauði þráður getur maður sagt, sem gengur í gegnum sjálfsbjargarviðleitni allra þjóða nú á tímum.

Og nú langar mig til þess að koma ofurlítið að þessari starfsemi hér heima og afstöðu sjálfstæðismanna til hennar. Við getum tekið saltfisksverzlunina, sem nú er búið að koma í fárra manna hendur, búið að einoka, ef maður vill nota það orð, sem hv. sjálfstæðismönnum er svo tamt. Það var gert með aðstoð ríkisvaldsins; ekki löggjafarvaldsins að vísu, en þeirri grein ríkisvaldsins, sem heyrir undir bankana. Og þeir, sem bezt gengu fram í að koma þessu skipulagi á, voru menn úr Sjálfstæðisflokknum, sem annars krossa sig í bak og fyrir, ef þeir heyra þjóðnýtingu eða skipulagningu nefnda. Hv. þm. G.-K. lét það verða sitt fyrsta verk sem ráðh. að gefa út bráðabirðalög til stuðnings þessu skipulagningarstarfi. Á seinasta sumri gaf núv. hæstv. atvmrh. út bráðabirgðalög, sem komu einkasölu á vissa tegund af útflutningssíldinni, og það fyrir beiðni ýmissa sjálfstæðismanna, sem telja sig fylgjandi hinni frjálsu samkeppni. Það var svo fjarri því, að þetta mætti mótspyrnu, að jafnvel Morgunblaðið klappaði á vangann á ráðh. og gerði gælur við hann sem góða barnið í þessu máli.

Ég get einnig minnzt á skipulagningu kjötverzlunarinnar. Á þinginu 1933 voru samþ. lög til þess að koma þeirri skipun á sölu kjötsins utanlands, sem þá þótti nauðsynleg, og ég vissi ekki betur en sjálfstæðismenn stæðu að því eins og aðrir. Nú á þessu þingi, þegar framlengja átti þessa löggjöf, réttu allir upp hendina með því, að hún skyldi gilda áfram. Umræðurnar um bæði kjötsölumálið og mjólkurmálið hafa snúizt svo undarlega í háðum deildum, að það mátti segja, að allur svarti flotinn sigldi kappsiglingu við „rauðu flokkana“ um það, hverjir væru beztir vinir þessara mála og hverjir væru frumkvöðlar þeirra.

Þannig hafa þeir sýnt það, sjálfstæðismenn, á öllum sviðum, að þeir beygja sig fyrir þeirri nauðsyn á skipulagningu, sem þeir hafa rekið sig á, í hvert sinn sem til hefir þurft að taka hér á þingi. En þeir mega vara sig á því, að ef þeir vilja halda áfram að vera jafnheilagir og hreinir af öllu því, sem þeir kalla þjóðnýtingu, þegar framsóknarmenn eiga í hlut, þá mega þeir ekki ganga feti lengra en þeir hafa þegar gert. Haldi maður sér við þeirra litmyndalíkingu, sé ég ekki betur en farið sé að slá dumbrauðum blæ á þeirra hrafnsvarta íhaldsbúk. Segi ég þetta þeim til hróss; þeir eru ekki eins slæmir eins og þeir vilja vera láta. Þeir sjá eins og allir aðrir, hvernig ástandið er orðið og þora þá líka að taka viðfangsefnið berum höndum. En það, sem ég vildi aðeins benda á, er það, að þeim fer illa eins og nú er komið, að ætla að stimpla okkur framsóknarmenn, sem staðið höfum með þeim, eða réttara sagt, sem þeir hafa staðið með í þessari baráttu, sem einhverja blóðrauða þjóðnýtingarálfa, en telja sig samtímis hvíta sem engla.

Hv. þm. Snæf. talaði lítið um það nú, en hann hefir áður kvartað undan því hér á þingi, að sjálfstæðismenn hafi ekki fengið að hafa menn í þessari n. Þetta finnst mér einnig benda til þess, að skipulagningarmálin séu þeim ekki eins fjarlæg eins og þeir láta, þar sem þeir telja n. skipaða til þess að undirbúa þjóðnýtingu. (TT: Hver hefir óskað eftir að koma sjálfstæðismönnum í nefndina?). Hv. þm. Snæf. við fyrri umr. þessa máls. (TT: Þetta er alrangt). Ég skal ekkert lá honum það; ég fyrir mitt leyti hefði ekkert á móti því, að sjálfstæðismenn ættu sæti í þessari n. Ég tel öllu heppilegra að sá háttur væri upp tekinn í stjórnmálabaráttunni, að allir aðiljar reyni að kryfja málin til mergjar; reyni að skýra málin í stað þess að þvæla þau. Ég er viss um, að það yrðu happadrýgri vinnubrögð heldur en óljóst glamur um rauða flokka, persónulegt frelsi, framtak einstaklingsins og aðrar slíkar pólitískar flautir, sem slegnar eru fyrir hverjar kosningar og stökkt á háttv. kjósendur. Ég er ekkert hræddur við niðurstöðu slíkrar rannsóknar, þó hún væri framkvæmd af öllum flokkum. Ég trúi því, að hún mundi leiða inn á brautir okkar framsóknarmanna, brautir samvinnustefnunnar í landinu. Ég trúi því, að það sé hæfasta stjórnmálastefnan, sem haldið er uppi í þessu landi, og ég trúi því einnig að það muni halda velli, sem hæfast er.