16.11.1934
Neðri deild: 38. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1339 í B-deild Alþingistíðinda. (1921)

33. mál, skipulagsnefnd atvinnumála

Frsm. minni hl. (Thor Thors):

Herra forseti! Það er margt í ræðum hv. andstæðinga, sem ég þyrfti að svara, en mér vinnst ekki tími til að minnast á nema fátt af því.

Hæstv. atvmrh. las upp kafla úr fyrri ræðum sínum um væntanlega þátttöku sjálfstæðismanna í n. þessari og kom það einmitt skýrt fram þar, að Sjálfstæðisflokkurinn hefir aldrei æskt upptöku í n. Hann hefir aðeins vítt það, að gengið er fram hjá honum, ef tilgangurinn á annars að vera sá að n. verði til gagns. Það er því alrangt hjá hv. þm. Mýr., að ég hafi óskað eftir því fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins, að hann fengi sæti í þessari n.

Það fór sem mig grunaði, að Framsóknarflokkurinn, eða hæstv. fjmrh. fyrir hans hönd, myndi mótmæla sósíalistastefnu Rauðku, eins og þessi n. er almennt kölluð, bæði utan þings og innan — en hæstv. fjmrh. er nú orðinn eins konar útbreiðslustjóri hjá Framsókn, líkt og Göbbels hjá nazistum. En þessi mótmæli verða þýðingarlítil, þegar málið er athugað nánar. Í fyrsta lagi er það vitað, að það er hæstv. atvmrh., sem hefir skipað n. Hann þekkir því manna bezt tilgang hennar og ætlunarverk. Í öðru lagi hafa sósíalistar meiri hl. n. og ráða því till. hennar. Og í þriðja lagi er það hæstv. atvmrh., sem á að taka við till. og rannsóknum n. og ræður, hverju hann vill sinna af þeim. Efast nú nokkur heilvita maður um, að hæstv. atvmrh. muni grípa fegins hendi við hverjum þeim till. til þjóðnýtingar, sem jafn áhrifaríkur flokksbróðir hans og hv. 2. þm. Reykv. leggur fyrir hann? Ég held ekki. Sósíalistinn Haraldur Guðmundsson ber áreiðanlega fram allar þjóðnýtingartill. sósíalistans Héðins Valdimarssonar.

Ég vil skýra fyrir hæstv. ráðh., hvað ég meina með þjóðnýtingu. Hún er, samkv. alþjóðastefnuskrá sósíalista, ríkisrekstur fyrst og fremst. Allt, sem hann sagði um þetta, er barnalegt hjal, sem skiptir hér engu máli. Er það undarleg fræðsla, sem hann hefir fengið í Samvinnuskólanum, ef hann heldur, að samvinna sé þjóðnýting. Hann hlýtur að hafa átt þar góðan læriföður. Því sagði þá hæstv. atvmrh., að ekki væri hægt að hleypa sjálfstæðismönnum í n., af því að þeir væru hlynntir einstaklingsrekstri? Hefir þá Framsóknarflokkurinn og fulltrúar hans í n. lofað að vera á móti einstaklingsrekstri?

Hvað gerir nú Framsóknarflokkurinn, þegar sósíalistarnir í n. bera fram þjóðnýtingartill. sínar? Hann á þá um það að velja, hvort hann vill heldur virða vilja meiri h1. þjóðarinnar og snúast gegn þjóðnýtingunni eða njóta sætleiks valdanna í faðmlögum við sósíalista. Enginn þarf að efast um, hvor kosturinn verður valinn. Framsóknarflokkurinn mun ætíð meta meira eigin völd en afkomu og heill þjóðarinnar. Gangur þessara mála er því alveg augljós. Mótmæli hæstv. fjmrh. eru því ekkert annað en kisuþvottur. Væri Framsóknarfl. alvara, þá myndi hann, sem hefir forsæti ríkisstj. í sínum höndum, víkja þeim ráðh. úr ráðuneytinu, sem ekki væri flokknum sammála í jafnstórvægilegu máli og þessu, máli, sem í raun og veru markar höfuðlínur stjórnmálabaráttunnar. Ef alvarlegur ágreiningur væri innan ráðuneytisins um slíkt stórmál, þá hlyti það vissulega að leiða til samvinnuslita. En það er enginn ágreiningur um þessar einokanir. Enda fór hæstv. fjmrh. beinlínis að gylla þjóðnýtinguna í lok ræðu sinnar og taka upp faguryrði Alþýðublaðsins og blekkingar um hana. Hafa ekki allar hendur hv. framsóknarmanna og sósíalista verið uppi í einu hér í þinginu til að samþ. öll hin nýju einokunarfyrirmæli? Ekki er annað sjáanlegi en að allt stj.liðið standi að frv. um einokun á bifreiðum og mótorum og hverskonar rafmagnsáhöldum. Svo er ennfremur að sjá af blöðum stj. sem bæði framsóknarmenn og sósíalistar standi að hinu nýja frv. hæstv. atvmrh. um fiskimálan. Þar er allt frjálsræði um verkun, sölu og útflutning fiskjar tekið af framleiðendum og beinlínis stefnt að því að brjóta niður hina frjálsu samvinnu fiskframleiðenda um fisksöluna, sem framleiðendur undu vel við orðið hefir þjóðinni til stórkostlegra hagsbóta undanfarin ár. — Það er ekki rétt hjá hv. þm. Mýr., að þarna hafi verið um einokun að ræða.

Það voru allir sjálfráðir um það, hvort þeir vildu taka þátt í þessum samtökum, og öllum frjálst að vera utan þeirra. Þessa frjálsu samvinnu, sem er formuð eftir og byggð á óskum framleiðenda sjálfra, virðast svo kallaðir samvinnumenn stjórnmála vilja feiga. Þeir vilja nýja síldareinkasölu á þessu sviði. — Öll framkoma hv. framsóknarmanna hér á þingi bendir vissulega til þess, að ekki sé aðeins um að ræða samstarf við sósíalista, heldur og fulla sameiningu í háskalegum anda einokunarinnar. Og hv. framsóknarmenn verða að skilja það, að þjóðin lítur meir á athafnir en innantóm orð og glamur.

Hv. andstæðingar hafa talið þessa almennu rannsóknarn. réttlætast af erfiðleikum tímanna. Sjálfstæðisfl. hefir ekki átalið, að skipuð yrði n. til að rannsaka hið ískyggilega ástand atvinnuveganna, enda stendur deilan ekki um það atriði. Ég vil nú fyrst leyfa mér að benda á hin alvöruþrungnu orð hv. 2. landsk. Það er vissulega ástæða til fyrir þjóðina að hugleiða gaumgæfilega álit hins reynda og merka lögfræðings á þessu máli. (Hlátur). En hann telur þetta stjórnarskrárbrot, eða a. m. k. andstætt anda stjórnarskrárinnar. Hvað sem því nú liður. þá er slík almenn rannsóknarheimild algert einsdæmi í okkar þjóðfélagi, og ég hygg raunar með öllum menntuðum þjóðum. Rannsóknarheimildir veittar opinberum n. eru ætíð byggðar á alveg sérstökum atvikum og takmarkaðar við einstök mikilvæg mál, eins og 34. gr. í stjskr. vorri gerir ráð fyrir. Ég þekki dæmi þessa, t. d. dæmi frá kolaiðnaðinum í Bretlandi, sem hv. þm. V.-Ísf. minntist á. Þessi iðnaður þar í landi hefir lengi verið hið erfiðasta viðfangsefni og undirrót stöðugra verkfalla og vinnudeilna. Brezka íhaldsstjórnin skipaði því árið 1925 nefnd með hinu víðtækasta valdi til rannsóknar á kolaiðnaðinum. En rannsóknarheimildin var stranglega bundin við þetta eina mál. Og halda menn, að í n. hafi verið tómir fylgifiskar stj.? Nei, vissulega ekki. Formaður n. var einn af þáv. aðalandstæðingum stj. Sir Herbert Samuel. — Svona fara siðaðar þjóðir að ráði sínu.

En þessi rannsóknarheimild er ekki aðeins einsdæmi. Hún getur líka verið ósvífin ránsheimild. — Hér hafa á undanförnum árum myndazt nokkur iðnfyrirtæki. Þau hafa byrjað í smáum stíl, en náð fótfestu með tímanum, öðlazt reynslu og þekkingu og beitt þessu til endurbóta á atvinnurekstrinum. Ég skal hér nefna sjóklæðagerð, vinnufatagerð, ölgerð og smjörlíkisgerð. Nú er hinn rauði rannsóknarréttur, þegar áður en hann fær heimildina, farinn að skrifa þessum iðnrekendum og heimta af þeim nákvæmar skýrslur um allt varðandi fyrirtæki þeirra. Þess er krafizt, að þessir menn, sem með dugnaði og árvekni hafa unnið upp fyrirtæki sín, afhendi hinum rauða rannsóknarrétti alla sína þekkingu, alla sína dýrmætu og dýrkeyptu lífsreynslu. Og til hvers? Til þess, að þetta sé notað til að drepa og einoka atvinnurekstur þeirra. Hér er því beitt brögðum og eignaráni. 62. gr. stjskr. verndar eignarréttinn. Sú vernd nær til allra veraldlegra og andlegra verðmæta. Til eignarnáms þarf almennings þörf, enda komi fullt verð fyrir. Ég vil nú spyrja: Hverjar bætur eiga hér að koma fyrir afsal verzlunarþekkingar og lífsreynslu? Ég býst við, að þær verði heldur smávaxnar. Atvinnuþörf og heimili þessara manna munu reyna það.

Hv. andstæðingar hafa talað um ótta sjálfstæðismanna við þessar rannsóknir. Hverri hlutlausri og vinveittri rannsókn yrði vissulega fagnað af atvinnurekendum, því að hún hefði þann árangur einn, að opna augu manna fyrir erfiðleikum þeirra — enda hafa slíkar rannsóknir farið fram og ekki verið amazt við. En svokölluð rannsókn hins rauða rannsóknarréttar er beinlínis gerð í þeim tilgangi að drepa atvinnurekstur manna. Hún er heimsókn manna, sem bera vopn undir klæðum sínum. Þess vegna er slíkri rannsókn kröftulega mótmælt.

Deiluefnið er hér í fyrsta lagi það, að þessi n. er samkv. skipan sinni pólitískt einlit, í öðru lagi það, að n. hefir verið gerð tortryggileg samkv. yfirlýsingu hæstv. atvmrh. og blaðs hans, sem bendir ótvírætt til þess, að þjóðnýting á að vera hlutverk hennar, og svo í þriðja lagi það, að svipta á Alþingi rétti þeim, er það hefir samkv. 34. gr. stjórnarskrárinnar.

Ég þykist nú hafa bent á það, að með þessu frv. er stefnt að byltingu á öllum sviðum atvinnulífsins. Þjóðinni má að vísu vera það mikil huggun, er af þessu hljótast hin mestu vandræði, að þau hafa verið vendilega skipulögð og undirbúin. En það má hæstv. ríkisstj. vita, að meiri hl. þjóðarinnar mun kunna henni litlar þakkir fyrir þetta, — og ekki er hún öfundsverð af þeirri göfugu viðleitni að leggja fjötra og handjárn á atvinnurekendurna í landinu. Þess verður þá væntanlega ekki langt að bíða, að við sjáum hv. stjórnarliða margmenna á hinni fjörlitlu Rauðku yfir rústir atvinnulífsins við hrópandi kvalræði atvinnuleysis og eymdar. Ætli það fari þá ekki svo, að Rauðka svigni undir ofþunga riddaranna og þeir hinir glæstu knapar falli sjálfir ofan í annara grafir.

Það er athyglisvert, að á þessum tímum erfiðleika, vandræða og utanaðkomandi hættu sameinast aðrar þjóðir til sameiginlegra átaka gegn óvinunum. Hér á landi er leitazt við á slíkum geigvænlegum hættutímum, og það af sjálfri ríkisstj., að stofna til harðvítugs innanlandsófriðar — í þeim tilgangi að drepa niður ýms þau öfl, sem á farinni braut hafa reynzt þjóðinni til drýgstra þrifa og farsældar (sbr. öll einokunarfrv. stj.). Vér verðum að vona, að heillavættir þjóðar vorrar bjargi henni úr þessum voða.

Ég sé, að hæstv. forseti vekur athygli mína á því, að ræðutími minn sé útrunninn. Ég býð því honum og öllum áheyrendum góða nótt.