16.11.1934
Neðri deild: 38. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1345 í B-deild Alþingistíðinda. (1923)

33. mál, skipulagsnefnd atvinnumála

Magnús Torfason:

Hugurinn hefir nú reiknað víða hjá hv. ræðumönnum, og get ég ekki betur séð en að með þeim hafi stofnað verið til eldhúsdagsumr. En ég mun ekki fara í eldhúsið, heldur halda mér við dagskrárefnið, en það er ekki annað en það, hvort fá eigi þessari n., sem hæstv. ríkisstj. hefir skipað, það vald, sem um getur í frv. Um þetta eitt ætla ég að ræða.

Hæstv. atvmrh. fórust þannig orð viðvíkjandi ræðu minni, að það hefði mátt skilja svo sem ég hefði haldið því fram, að frv. færi í bág við stjórnarskrána. Ég sagði ekki eitt orð í þá átt. Ég fór af ásettu ráði fram hjá því. Þessu til sönnunar vil ég benda hæstv. atvmrh. á það, að ef ég hefði litið svo á, að frv. bryti í bág við stjskr., þá hefði ég risið upp við 1. umr. og heimtað úrskurð forseta um það efni. En ég sé ekki betur en það, að fá slíkri einlitri flokksnefnd sama vald og 34. gr. stjskr. fær þingnefnd sé mjög varhugaverð og háskaleg braut. Við verðum að ganga út frá því, að við höfum ekki sopið kálið úr ausunni, ef það verður gert. Ég játa það fullum fetum, að löggjafinn hefir rétt til þess að veita hverri n. slíkt vald. En það er varhugavert að ganga langt á þessari braut. Og það verður að fara varlega með þetta vald, og sérstaklega er ég hræddur um, að ef harkaliðið næði völdum, gæti það notað það til þess að misþyrma þingræðinu. Ég held, að ég þurfi ekki fleiru að svara, sem tekið hefir verið fram. Ég tel það ekki, þó lesin hafi verið upp yfirlýsing um það, hverjir væru í hinum ýmsu flokkum menntamanna. Ég tók það fram, að lýðræðisflokkurinn hefði fengið 48 atkv. Ég gat ekki betur séð af blaðinu, sem ég las, en að öfgaflokkarnir stæðu að hinum listanum. Það lítur út fyrir, ef það hafa verið framsóknarmenn og jafnaðarmenn, sem ekki fylgdu lýðræðisflokkunum, að þeir vilji ekki vera þekktir fyrir að fylgja honum, og finnst mér þá, að það liggi talsvert í því. Að öðru leyti hvað efni málsins snertir skal ég taka það fram, að ég get ekki séð, að nægileg rök séu fyrir því að fá slíkri flokksnefnd þetta vald. Það hefir ekki verið sönnuð þörfin á því, að fá n. þetta vald. Og ég veit ekki til, að nein kvörtun hafi komið frá nefndinni um það, að hún geti ekki unnið sitt starf. Það þýðir ekki að vísa í vald skattanefnda. Þar er sá stóri munur, að þær vinna undir ábyrgð annara og hafa yfir sér nefnd, sem getur tekið í taumana, auk þess sem þær eru ópólitískar nefndir. Ég skal svo ekki hafa þessi orð lengri, því ég býst við, að samflokksmaður minn þurfi að svara einhverju.