21.11.1934
Neðri deild: 42. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1355 í B-deild Alþingistíðinda. (1954)

33. mál, skipulagsnefnd atvinnumála

Garðar Þorsteinsson [óyfirl.]:

Út af ummælum hæstv. forseta um það, að lítið nýtt hafi komið fram í ræðu minni, þá held ég nú, að sama megi segja um ræðu hæstv. forseta.

Hæstv. forseti lét það í ljós, að ef við hefðum rétt fyrir okkur í þessu máli, þá gætu þm. með því að greiða ekki atkv. fellt mál. Þetta er misskilningur hjá hæstv. forseta. Ef eigi fæst meiri hl. með till. og móthlutinn skiptist í tvennt, þá sem greiða atkv. á móti till. og þá sem sitja hjá, þá geta þeir, með því að þeir eru fleiri, fellt till. með því að greiða allir atkv. móti henni.

Það kunna að hafa verið afgreidd hér l. á þann hátt, sem nú hefir verið farið að, en ég vil benda hæstv. forseta á 2. málsgr. 44. gr., sem segir: Engin ályktun er lögmæt, nema meira en helmingur fundarmanna, þeirra sem atkvæðisbærir eru, greiði atkvæði með henni.

Hér mundi ekki standa „atkvæðisbærir“ ef miðað væri við þá, sem taka þátt í atkvgr., þá hefði staðið: þeirra fundarmanna, er þátt hafa tekið í atkvgr. Ég tel því, að eina leiðin til þess að samþykktin sé lögmæt sé sú, að forseti slái því föstu, að þeir, sem eigi greiddu atkvæði, hafi ekki verið atkvæðisbærir.

Mér virðist, að hæstv. forseti, sem tekið hefir þá leið, að vera í samræmi við þá reglu, sem gilt hefir um þetta, eigi líka að slá því föstu að þeir, sem eigi greiði atkv., séu ekki atkvæðisbærir, því ef hann vill slá því föstu, er hann í samræmi við 2. málsgr., en ella ekki.