06.12.1934
Neðri deild: 52. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1366 í B-deild Alþingistíðinda. (1971)

33. mál, skipulagsnefnd atvinnumála

Garðar Þorsteinason [óyfirl.]:

Það er þegar liðið ærið langt síðan mál þetta var hér til umr. síðast, og er því miður ýmislegt af því, sem sagt var þá og ég hefði viljað svara, liðið mér úr minni. Þó eru það nokkur atriði, sem ég vildi taka fram, sérstaklega í sambandi við ræður hæstv. ráðh.

Skal ég þá fyrst snúa mér að hæstv. fjmrh. Hann var eitthvað að tala um það, að kjósendurnir úti á landsbyggðinni litu örvæntingarfullir til Alþ. nú á þessum erfiðu tímum, og hann var að skopast að því, hæstv. ráðh., að kjósendur Sjálfstæðisflokksins gerðu það engu síður, en hvers gætu þeir vænzt af fulltrúum sínum, sem væru í minni hl.? Um þetta ætti hann að tala sem minnst, því að hann veit það, að það er Sjálfstfl., sem berst fyrir hinum betri málstað hér á Alþ., enda þótt meiri hl. þess taki lítið tillit til þeirra, þrátt fyrir það þó að baki flokksins standi meiri kjósendafjöldi en að baki þeirra flokka, sem nú skapa þingmeirihlutann.

Við 2. umr. þessa máls minntist hæstv. ráðh. á frv. um skuldaskilasjóð sjómanna og sagði, að sjálfstæðismenn hefðu borið það fram, en ekki komið með neina till. um það, hvernig afla skyldi fjár til þess að standast þau útgjöld, sem frv. hefði í för með sér. Það er nú hvorttveggja, að hér er ekki rétt skýrt frá hjá hæstv. ráðh., enda er þetta langt frá öllu lagi. Sjálfstfl. lýsti því einmitt yfir, að hann væri reiðubúinn til þess að semja við stjórnina um að beita atfylgi sínu til þess að afla ríkissjóði þeirra tekna, sem nauðsynlegar væru til þess að koma máli þessu í framkvæmd. Það er þess vegna alveg víst, að þeir kjósendur Sjálfstfl. og annara flokka, sem til Alþ. líta, munu finna það, að andstæðingar stj. bera engu síður velferð almennings fyrir brjósti heldur en stj. og hennar flokkar gera, og þau frv., sem Sjálfstfl. hefir borið fram, en ekki finna náð fyrir augum andstæðinganna, munu á sínum tíma verða lausn þessara mála. Og það vill svo einkennilega til, að jafnvel andstæðingarnir hafa orðið að leita í efni þeirra frv. Sjálfstfl., sem þeir ætla sér að fella, og taka upp úr þeim viss atriði, sem þeir síðan vilja fá fram sem sín málefni. Allt þetta hjal hæstv. ráðh. um það, að sjálfstæðismenn hafi ekki með frv. um skuldaskilasjóð útgerðarmanna bent á neina leið til þess að standast þau útgjöld, sem þar er gert ráð fyrir, verður dálítið broslegt, þegar maður les þskj. 662 frá meiri hl. sjútvn., þar sem gert er ráð fyrir, að ríkisstj. sé heimilað að verja allt að 1 millj. kr. samkv. ákvæðum þessarar gr. Það er einkennilegt, að þeir menn, sem mest hafa áfellt Sjálfstfl. fyrir það að koma ekki með neina till. um það, hvernig ætti að afla tekna til viðreisnar sjávarútveginum yfirleitt, skuli einmitt sjálfir bera fram till. um að auka útgjöld ríkissjóðs um 1 millj. án þess jafnframt að gera nokkra grein fyrir því, hvernig eigi að afla þess fjár, nema þá með láni. Ef þessi till. er jafnnauðsynleg eins og gera má ráð fyrir eftir því, hvernig hún hljóðar, að það skuli þurfa að taka úr ríkissjóði 1 millj. kr., þá er dálítið einkennilegt, ef stj. getur ekki jafnframt fundið einhverja leið til þess að afla þess fjár, sem mundi leiða af samþykkt frv. um skuldaskilasjóð útgerðarmanna, þar sem þar er ekki um eins mikla upphæð að ræða og gert er ráð fyrir á þskj. 662. Það er áreiðanlegt, að hæstv. ráðh., sem nú eru á móti frv. um skuldaskilasjóð vegna þess að ekki sé gert ráð fyrir því, hvernig eigi að afla fjár til þess að standast útgjöld samkv. frv., er ekki alvara að öðru leyti en því, að þeir vilja ekki koma á móts við Sjálfstfl. til lausnar því máli og koma því fram með tylliástæðu, sem sannast á brtt. þskj. 662, þar sem gert er ráð fyrir 1 millj. kr. útgjöldum.

Hv. þm. Hafnf. sagði í sinni ræðu hér áðan, að þó skipaðir væru pólitískir menn í slíka n. sem þessa, þá gætu þeir þó starfað ópólitískt. Ég get ímyndað mér, að hv. þm. Hafnf. gæti gert það, ég vil gefa honum þau meðmæli. En hann þarf hinsvegar ekki að ganga þess dulinn, að menn eins og hv. þm. S.-Þ. og hv. 2. þm. Reykv. mundu nota aðstöðu sína pólitískt. Ég hefi aldrei vitað hv. þm. S.-Þ. skýra svo frá nokkru atriði, sem máli skiptir án þess að setja á það pólitískan blæ, og ég hefi heldur aldrei vitað hv. 2. þm. Reykv., a. m. k. ekki á þessu þingi, koma fram með nokkurt mál án þess að setja á það sérstakan pólitískan blæ, sér og sínum flokki til hagsmuna. Ég hefi setið með honum í allshn., og ég hefi ekki einu sinni orðið þess var, að það mætti setja eina kommu eða punkt, ef það gæti á eitthvern hátt breytt pólitískum tilgangi. Það er dálítið einkennilegt af hv. þm. Hafnf. að halda þessu fram, eftir að hafa séð, hvernig 1.—3. gr. frv. eru orðaðar, því það er ekki svo lítið vald, sem þessari n. er gefið við skýrslusöfnun. Þetta er ekki eins og hv. þm. vildi halda fram aðeins prentuð skýrsluform, sem send væru til atvinnurekenda og annara til útfyllingar á sama hátt og hagstofan gerir. Þetta er tvennt ólíkt. Hv. þm. verður að muna eftir því, að ef einhver maður fæst ekki til að gefa þær upplýsingar, sem n. biður um, þá skal hann greiða 10—l00 kr. dagsektir þangað til hann hefir gefið umbeðnar upplýsingar, og ef viðkomandi maður hefir gefið rangar upplýsingar, þá skal hann dæmdur eftir 156. gr. hegningarlaganna fyrir meinsæri. Það er því tvennt ólíkt að bera saman vald þessarar n. til skýrslusöfnunar og þau viðlög, sem þar eiga við, og þá skýrslusöfnun, sem hagstofan sér um. Ég skal að vísu ekki fullyrða, að ekki séu neinar sektir gegn því, að menn ekki verða við skyldu sinni um að senda hagstofunni umbeðnar skýrslur, en ég efast um, að svo sé, og þó svo væri, þá mundi þeim aldrei verða beitt, vegna þess að hagstofan verður að senda út skýrsluform til fjölda manna, bæði atvinnurekenda og annara, svo það væri ókleift verk fyrir hana að sjá um, að allir þeir, sem ekki gerðu skyldu sína í þessu efni væru látnir sæta sektum. Sem sagt, ef þessi ákvæði eru til, sem ég efast um, þá er það vitanlega dauður bókstafur. Hér er því um allt annað mál að ræða. Þessi n., sem er launuð af ríkissjóði, getur ákveðið, hvernig þessi skýrsluform eru, hverjum þau eru send o. s. frv. Hún getur skyldað hvern einasta mann, sem hún telur með þurfa til þess að gefa allar þær upplýsingar, sem henni þykja nauðsynlegar. Ég hefi aldrei vitað, að í nokkrum l. væri svo ákveðið, að allir undantekningarlaust skyldu vera skyldir til að gefa allar þær upplýsingar, sem einhver n. eða stofnun krefðist.

Það er t. d. vitanlegt, að þó það sé almenn skylda að koma fyrir rétt og standa sem vitni og gefa þær upplýsingar, sem máli þykja skipta, þá er þó ákvæði í l. um það, að undir vissum kringumstæðum sé vitnið ekki skyldugt til þess að gefa upplýsingar, t. d. um atriði, sem varða fjárhagslega afkomu vitnisins sjálfs, og ekki heldur um atriði, sem snerta þann atvinnurekstur, sem það starfar við jafnvel þó fyrir aðra sé.

Þetta kann að vísu stundum að vera matsatriði, en vitnið hefir rétt til að koma með mótmæli gegn því að svara spurningum, sem fyrir það eru lagðar, og það er dómarinn, sem á að úrskurða um það, hvort viðkomandi maður, sem fyrir rétti er staddur, er skyldur til spara eða ekki. En hvernig á þetta að vera samkv. þessu frv.? Þar er gert ráð fyrir, að skyldan til þess að svara spurningum, sem þessi n. leggur fyrir menn, sé svo rík, að ef menn ekki svara, skuli þeir greiða 10—100 kr. dagsektir, þangað til þeir hafi gefið þær upplýsingar, sem um er beðið, og ef þeir geta rangar upplýsingar, skuli þeir dæmdir fyrir meinsæri, einmitt fyrir þau atriði, sem þeir í öðrum löndum mundu vera undanþegnir frá því að svara. Ef þetta frv. yrði ekki samþ. og n. vildi kalla einhvern mann fyrir rétt og fá hann til þess að gefa þessar upplýsingar, þá mundi maðurinn ekki úrskurðaður af dómara til þess að svara þessum spurningum, af því að þær snertu fjárhagsafkomu mannsins sjálfs. En samkv. þessu frv. mundi viðkomandi maður vera skyldur til að gefa allar upplýsingar um hag sinn og atvinnurekstur og allt, sem snerti hann persónulega, ef bara n. áliti það máli skipta, að viðlögðum 10—100 kr. dagsektum. Og svo vill hv. þm. Hafnf. bera þetta saman við þá skýrslusöfnun, sem hagstofan beitir sér fyrir. Ég veit, að hv. þm. hlýtur að sjá, hver munur er á þessu.

Eins og ég gat um við 2. umr. þessa máls, þá vantar öll ákvæði um það, hvernig sektunum á að beita. Hverjir eru það, sem ákveða þessar sektir? Á n. að fara dómstólaleiðina og kæra hvern þann, sem ekki vill hlíta boði hennar og banni og krefjast þess, að hann sé dæmdur í 10—100 kr. dagsektir eða dæmdur fyrir meinsæri? Mér er ekki alveg ljóst, hvort þessi leið er nauðsynleg, hvort n. getur bara ekki sjálf með einfaldri bókun í gerðabókinni sagt, að þessi og þessi maður skuli sæta 100 kr. dagsektum o. s. frv., þangað til hana hafi gefið umbeðnar upplýsingar. Mér þætti þetta í samræmi við allt annað í þessu frv., en ég veit ekki, hvernig hv. þm. Hafnf. skilur þetta. Hvernig á svo að tilkynna mönnum þetta? Er það nóg, að hv. þm. S.-Þ. hvísli því í eyra viðkomandi manns eða hv. 2. þm. Reykv. steyti hnefana framan í menn með viðeigandi hótun eða taki upp brotna stólfætur til áréttingar? Þetta gæti allt verið álitamál. Og hvert eiga sektirnar að renna? Það er ekkert ákvæði um það í l. Eiga þær að renna til rekstrarkostnaðar Rauðku eða í flokkssjóð og eftir hvaða hlutföllum þá? Það væri æskilegt að fá að vita þetta, því gera má ráð fyrir, að þarna fáist verulegt fé til umráða. Ég vil skjóta því til hæstv. fjmrh., að þarna sé einn tekjuliður, sem þá Rauðka hefir séð fyrir, og væri æskilegt, að jafnframt væri gerð áætlun um það, til hvers þessum tekjum skuli varið. Nei, hv. þm. Hafnf. ætti ekki að reyna að telja neinum manni trú um það, að þau ákvæði um skýrslusöfnun, sem hér liggja fyrir, séu að nokkru leyti sambærileg við þá skýrslusöfnun, sem hagstofan beitir sér fyrir. Annarsvegar er opinber stofnun, sem á meinlausan hátt útbýtir prentuðum eyðublöðum, sem menn geta útfyllt eftir því, sem þeir vilja, og ég hugsa, að það sé svo um flesta, að þeir gefi þessar skýrslur góðfúslega. En það er vitanlega allt annað mál, þegar pólitísk n., sem hefir lýst því yfir, að hún ætli að beita sér fyrir þjóðnýtingu yfirleitt, fer, með því valdi, sem henni er gefið samkv. þessu frv., að krefjast skýrslna af viðkomandi mönnum. Þetta er tvennt ólíkt, og ég hugsa, að hv. þm. Hafnf. hafi ekki neina sérstöðu gagnvart flokksbræðrum sínum í þessari n. um það hver sé aðaltilgangurinn með starfsemi n. Ég hugsa, að hann hafi undirstrikað eins og flokksbræður hans þær greinar, sem hafa birzt í Alþýðublaðinu um það, að tilgangur n. sé sá eini að koma á þjóðnýtingu atvinnuveganna. Ég veit ekki til þess, að þessi hv. þm. hafi opinberlega tekið neina afstöðu frá þessum yfirlýsta tilgangi jafnaðarmanna eins og hann hefir verið birtur í ritstjórnargreinum Alþýðublaðsins. Það væri a. m. k. æskilegt, að hv. þm. gæfi yfirlýsingu um það, ef svo væri. Og ef hann er nú, eins og ég hygg, að öllu leyti samþykkur þeim tilgangi n.manna, sem sé að koma á þjóðnýtingu atvinnuveganna, þá leiðir af því, að það er annaðhvort barnalegt eða lævíslegt af honum að segja hér á þ., að þessi skýrslusöfnun, sem hér er um að ræða, sé alveg eins og sú, sem hagstofan beitir sér fyrir, meinlaus gögn, sem n. ætlar að safna og skemmta sér svo við að lesa og vinna úr. Nei, n. ætlar sér vitanlega að nota allar þær upplýsingar, sem hún fær í gegnum þessar skýrslur, sem e. t. v. eru margra ára reynsla atvinnurekandanna yfirleitt. Hún ætlar sér að byggja á þessum skýrslum, til þess að geta komið fram með till. um það, hvernig eigi að reka þjóðarbúskapinn, þegar búið er að koma þjóðnýtingunni á. Þessir háu herrar hafa sýnt það, að þeir eru ekki færir til þess að standa fyrir atvinnufyrirtækjum. Þess vegna þurfa þeir að leita til annara og fá það, sem þá sjálfa vantar. En hvernig stendur á því, að hv. þm. Hafnf., sem er svo sannfærður um ágæti þjóðnýtingarinnar, hefir ekki tekizt að láta það fyrirtæki, sem hann stendur fyrir, blómgast betur en raun er á? Og hvers vegna er hv. þm. að kasta hnútum að þeim mönnum, sem standa fyrir samskonar fyrirtækjum og hann sjálfur og segja, að það hljóti að vera einhverjar huldar veilur í þeirra starfsemi og að það þurfi n. að rannsaka? Eru þá einhverjar huldar veilur í þeim atvinnurekstri, sem hann stendur fyrir? Eða hvers vegna hefir bæjarútgerðin í Hafnarfirði ekki borið sig? Og hvers vegna getur hv. þm. ekki sýnt með þessum atvinnurekstri, að hann sé færari en aðrir menn yfirleitt til þess að standa fyrir togaraútgerð? (EmJ: Ég stend ekki fyrir togaraútgerð). Það má nú samt kalla það svo, því það er bæjarsjóður Hafnarfjarðar, sem rekur útgerðina og hv. þm. er bæjarstjóri þar. Framkvæmdarstjóri útgerðarinnar er líka í þessari n., svo það eru hæg heimatökin. — Hv. þm. segir, að það hljóti að vera einhverjar huldar veilur í fyrirkomulagi atvinnurekstrar þeirra, sem eru hans pólitísku andstæðingar, sem geri það að verkum, að atvinnuvegirnir ekki beri sig. Ég skil því ekki, hvers vegna þessi atvinnurekstur, sem þessir 2 þjóðnýtingarpostular standa fyrir, skuli ekki geta borið sig; nema það sé vegna ýmiskonar utanaðkomandi áhrifa, sem þá vitanlega bitna eins á þeim og öðrum atvinnurekendum. Og þetta er einmitt skýringin. Mér dettur ekki í hug að ætla, að þeir, sem standa fyrir bæjarútgerðinni í Hafnarfirði, séu neitt óhæfari en aðrir, en ég held bara, að þeir séu ekki neitt færari. — Hv. þm. Ísaf. er eitthvað að muldra. Hann er eflaust að tala um samvinnuútgerðina á Ísafirði. Það vill nú svo vel til, að það er sama, í hvort hornið maður lítur, þá sér maður þessa einokunar- og þjóðnýtingarpostula, sem eru að tala um það, hvað atvinnurekendur yfirleitt séu óhæfir til þess að standa fyrir atvinnurekstri, en sjálfir hafa þeir á sinni könnu atvinnufyrirtæki, sem hafa stórtapað. (FJ: Langar hv. þm. til þess að vita, hverju ég var að hvísla að sessunaut mínum? Ég var að hafa það eftir enskum lögfræðingi, að það væru leiðinlegir lögfræðingar, sem alltaf færu með tóma vitleysu). Ég er þessum lögfræðingi alveg sammála, en það þarf nú ekki lögfræðing til að standa hér á þ. og segja aldrei neitt orð af viti tímunum saman, og það gildir vitanlega jafnt um þá, sem grípa hér fram í og aðra. (FJ: Er þá gengið út frá því með lögfræðinga?). Lögfræðingar geta vitanlega sagt vitleysur eins og aðrir. En það er ekki almenn regla um þá, eins og mér virðist, að það sé regla um allar þær ræður, sem þessi hv. þm. flytur.

Hv. m. Ísaf. er einn af þeim mönnum, sem berjast fyrir þjóðnýtingu atvinnuveganna. Hann ætti að líta til sinna heimahaga og sjá, hvernig þar gengur. Hann hefir fengið betri aðstöðu til þess að reka þennan atvinnurekstur, samvinnuútgerðina á Ísafirði, heldur en nokkur prívatmaður hefir í sambandi við rekstur eigin fyrirtækis. Þetta fyrirtæki hefir notið styrks frá Alþ. í stórum stíl, og það hefir fengið meira rekstrarfé heldur en önnur fyrirtæki yfirleitt. Samt hefir þetta fyrirtæki stórtapað, og ef það yrði gert upp, þá mundi verða fjarri því, að það ætti fyrir sínum skuldum. Þessi orð mín skulu samt ekki skilin svo, að ég út af fyrir sig kenni hv. þm. Ísaf. persónulega um þetta, eða að ég álíti hann ófæran til þess að standa fyrir svona fyrirtæki. Ég vil bara minna þessa hv. þm. á það, að þegar þeir eru að dæma um atvinnurekstur sinna pólitísku andstæðinga, þá eiga þeir ekki að vera að gefa í skyn, að þar séu huldar veilur, sem ekki megi koma fram, heldur eigi að þegja yfir, þegar alveg eins fer fyrir þeim í sambandi við atvinnurekstur, sem þeir veita forstöðu, eins og pólitískum andstæðingum þeirra. Þeir ættu að taka sér orðin í munn, dæmið ekki, svo þér verðið ekki dæmdir.

Hv. þm. Hafnf. lýsti því yfir, að hann mundi ekki taka sæti í þessari n. áfram, ef Sjálfstfl. ætti einnig að fá þar tvö sæti. (EmJ: Það hefi ég aldrei sagt. Ég sagði að ég mundi skoða hug minn um það, hvort ég fylgdi frv. eða ekki, ef starfsemin þar færi eftir stefnu Sjálfstfl.). Hvers vegna er hv. þm. Hafnf. svo illa við, að sjálfstæðismenn taki sæti í þessari nefnd? Er það vegna þess, að þeir hafi minni möguleika til þess að krefjast skýrslna af atvinnurekendum, eða er það af því, að þeir geti ekki dæmt sjálfstætt um það, hvernig beri að skipuleggja þá atvinnuvegi, sem þeir vilja skipuleggja á annað borð? Nei, vitanlega er það vegna þess að þeir vita, að Sjálfstfl. muni beita sinni aðstöðu til þess að aftra því, að atvinnuvegirnir verði þjóðnýttir. Hv. þm. Hafnf. er einmitt hræddur um það, að ekki verði eins auðvelt að framkvæma þá þjóðnýtingu, sem hann nú tekur þátt í að framkvæma, ef sjálfstæðismenn verða í n., og n. geti þess vegna ekki komið eins óskipt með till. sínar fyrir Alþ. eins og ella mundi verða. N. óttast það, að þær upplýsingar, sem hún fær, muni einnig koma til vitundar sjálfstæðismönnum í nefndinni, og þeir muni vinna úr þeim upplýsingum á annan veg heldur en þeir, sem nú eru í nefndinni. Hv. þm. óttast það, að þessar upplýsingar muni nú ekki einar út af fyrir sig, ef rétt eru skildar og lesnar, sannfæra menn yfirleitt um það, að leiðin út úr ógöngunum sé þjóðnýting atvinnuveganna. Hann óttast, að það verði hægt að lesa skýrslur hennar á tvo vegu, annan til áframhaldandi starfsemi þess atvinnurekstrar, sem nú er, en e. t. v. með eitthvað breyttu fyrirkomulagi eða endurbótum. En hv. þm. Hafnf. og hans samherjar munu hinsvegar lesa upplýsingarnar á þann eina veg, að atvinnuvegirnir séu niðurníddir og eigi sér engrar viðreisnar von, og að eina leiðin til þess að komast út úr ógöngunum sé þjóðnýting atvinnuveganna. Hv. þm. Hafnf. óttast, að skjölin, sem fyrir n. koma, verði lesin á tvo vegu, en hann kærir sig ekki um, að þau verði lesin nema á einn veg. Þau verða vitanlega lesin öll aftur á bak, eins og sagt er, að ákveðin persóna lesi biblíuna, en hv. þm. Hafnf. og hans samherjar óttast, að sjálfstæðismenn í n. muni lesa þau á réttan veg, til þess að sýna, að með aðstoð og aðhlynningu þingsins megi koma atvinnuvegunum í það horf, sem þeir þurfa að vera i, en þjóðnýting sé ekki eina lausnin. N. vill óskipt geta komið fram fyrir þjóðina og sagt; nú höfum við fengið allar mögulegar upplýsingar og velt þeim fyrir okkur í marga mánuði, og nú höfum við komizt að þeirri niðurstöðu, að eina leiðin til þess að komast út úr ógöngunum, er þjóðnýting. Hv. þm. Hafnf. veit, að þetta muni ekki takast, ef sjálfstæðimenn eru í nefndinni.

Hæstv. forsrh. talaði þannig við 1. umr. málsins, og lét m. a. s. Morgunblaðið hafa það eftir sér, að það væri alls ekki stefnt að þjóðnýtingu atvinnuveganna með því að skipa þessa nefnd. Nú hefir Alþýðublaðið lýst því yfir, og sá flokkur, sem að því stendur, að þetta sé einmitt verkefni nefndarinnar. Og forsrh. hefir nú væntanlega látið sannfærast um það, því að hann hefir ekki mótmælt ummælum hæstv. atvmrh., sem gengu í alveg þveröfuga átt við yfirlýsingu hans sjálfs í þessu efni við l. umr. málsins, né heldur hefir hann mótmælt þeim ummælum jafnaðarmanna, sem í Alþýðublaðinu hafa birzt um það, hver væri tilgangurinn með skipun þessarar n. Hæstv. forsrh. hefir stundum hælt sér af því að vera stöðugur í rásinni. Mig undrar það því og þykir það lítilmannlegt af honum, ef hann hefir síðan við 1. umr. þessa máls snúizt í því, og viðurkennir nú, að tilgangurinn með þessari n. sé að koma á þjóðnýtingu atvinnuveganna. En vitanlega hefir þessi ráðh. sér það til afsökunar, að það var atvmrh., sem skipaði n. og hefir gefið henni erindisbréf. Hæstv. atvmrh. er því kunnugastur, hver er tilgangurinn með starfsemi þessarar n., og ég geri þess vegna ráð fyrir að hæstv. forsrh. hafi ekki frá upphafi verið kunnug fyrirætlun hæstv. atvmrh. í þessum efnum.

Ég hlýt að endurtaka það, að mér finnst það dálítið einkennilegt af hv. þm. Hafnf. að geta vænzt þess af hv. 2. þm. Reykv., að hann muni starfa ópólitískt í þessari n. Þessi maður, sem beitir áhrifum sínum hér á Alþ. til þess að koma fram málefnum, sem eingöngu eru miðuð til þess að auka vald eins stjórnmálaflokks frekar en annara, eins og með l. um vinnumiðlunarskrifstofu, þar sem það vald, sem að l. tilheyrir bæjarstjórn Rvíkur, sem sé úthlutun vinnu í Rvík, er tekið af bænum og lagt í hendur atvmrh. Þessi maður, sem í sambandi við frv. til l. um verkamannabústaði hefir komið því til leiðar, að félag sjálfstæðra verkamanna yrði drepið, og að það ekki gæti notið þeirrar aðstoðar, sem 1. um verkamannabústaði annars heimila. Mér þykir það undarlegt af hv. þm. Hafnf., að hann nú skuli vilja telja mönnum trú um það, að menn, sem starfa þannig hápólitískt, eins og hv. 2. þm. Reykv. gerir í öllu tilliti, að hann muni ekki í þeirri n., sem hann á sæti í, nota áhrif sín sínum flokki til pólitísks framdráttar. Ég held, að enginn maður muni efast um það, að hv. 3. þm. Reykv. muni fyrst og fremst nota sér aðstöðu sína í nefndinni, til þess að koma pólitískum andstæðingum sínum einhvernveginn á kné, og hann muni umfram allt beita sér fyrir þjóðnýtingu atvinnuveganna, sem er hans yfirlýstur vilji.

Hv. þm. Hafnf. minntist hér á frv. um líftryggingarstofnun ríkisins. Ég vil aðeins til gamans benda honum á það, af því að í grg. frv. stendur, að á Ítalíu sé rekin líftryggingastarfsemi með ríkisrekstri, að það eru mörg ár síðan þessi einkarekstur ítalska ríkisins var lagður niður. Það er leiðinlegt fyrir þá menn, sem flagga með það, að skipulagsnefnd hafi aflað sér upplýsinga sérstaklega um þetta mál, sem hún flytur, að nefndin skuli þurfa að koma fram með eins ranga skýrslu eins og þessa, sem birtist í grg. frv. og ég gat um.

Eins og hv. þm. Snæf. gat um, er það óráðið mál, hvort Sjálfstæðisflokkurinn notar sér þá heimild, sem nú er í frv. um það, að þeir geti skipað 2 menn í skipulagsnefndina. En undir öllum kringumstæðum mun Sjálfstæðisflokkurinn vera á móti frv. sem slíku, og þegar af þeirri ástæðu, að þeir telja það algerlega einsdæmi, ef á að gefa n. slíkt vald sem farið er fram á í þessu frv. Það er áreiðanlegt, að slíkt fordæmi mundi ekki vera nema til ills eins fyrir síðari tíma, ef á að fara þá leið, að gefa pólitískri n., eins og hér er um að ræða, slíkt vald, nefnd manna, sem enga sérstaka hæfileika hefir til þess að rannsaka þau mál, sem henni er ætlað að rannsaka, en hefir þá hæfileika eina að vera mjög pólitísk, og berjast fyrir tvær ákveðnar stefnur og í raun og veru aðeins eina, sósíalismann. Þeir menn eru allir sósíalistar, sem í n. eru. Eins og ég hefi áður tekið fram, þá mun það ekki gefa gott fordæmi, ef á með sérstökum l. að gefa slíkri pólitískri n. það vald, sem felst í þessu frv., og það má mikið vera, ef þetta fordæmi kemur ekki þessum háu herrum einhverntíma sjálfum í koll.