07.12.1934
Neðri deild: 53. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1373 í B-deild Alþingistíðinda. (1973)

33. mál, skipulagsnefnd atvinnumála

Frsm. minni hl. (Thor Thors):

Það eru nokkur atriði í ræðu hv. m. Hafnf. frá því í gær, sem ég þarf að svara.

Þessi hv. þm. brást mjög reiður við minni ræðu og talaði í fyrsta sinn á þessu þingi af gremju í ósæmilegum tón og jafnvel með hótunum og dylgjum. Annars hefir hann komið prúðmannlega fram hér á þingi, en nú virðist reiðin hafa borið hann ofurliði í þetta sinn, og verður að virða honum það til vorkunnar, þar sem hann á sæti á þessari Rauðku, sem hér er til umr., og er ekki ósennilegt, að hann sé búinn að hristast svo á baki hennar, að það sé farið að hafa áhrif á hans hugarástand.

Hann byrjaði á því að segja, að allir hefðu viðurkennt þörf þessarar n. Það er alls ekki rétt. Ég hefi fyrir mitt leyti viðurkennt þörf á því, að skipuð væri n. til að rannsaka ástand atvinnuveganna, og ég hefi bent á, að það hefði beinlínis verið stefnumál hjá Sjálfstæðisflokknum að taka til alvarlegrar íhugunar ástand atvinnuveganna og beita sér fyrir nýjungum á sviði þeirra. En ágreiningurinn, sem hefir orðið um skipun þessarar n., er fyrst og fremst af því, hversu pólitískt einlitt val er á nefndarmönnum. Það er svo einhliða, að það eru valdir þeir menn, sem pólitískt séð eru þeir ofstækir fyllstu, sem hægt var að finna. Það er því alveg augljóst, að það er ekki þörf atvinnuveganna, sem á hér að rannsaka, heldur á þetta að vera pólitískt vopn þessum flokkum til framdráttar. Það er ómögulegt að koma mönnum til að trúa því, að þessi n. sé ekki pólitísk. Hv. 2. þm. Reykv. og hv. þm. S.-Þ. eru svo ákveðnir í pólitík hér á landi, að hvar sem þeir fara og hvar sem á þá er minnzt, þá er nafn þeirra fyrst og fremst tengt við pólitíkina.

Þessi hv. nm. vildi reyna að gera sem mest úr þeim frv., sem þessi n. hefir nú þegar komið inn á þing. Hann byrjaði á því að ræða um frv., sem upphaflega var kallað frv. um fólksflutninga á landi og sagði, að að vísu hefði fyrirsögninni verið breytt. Ég hefi nú þau þingskjöl, sem fram komu um þetta mál, hér fyrir framan mig og ég vil leyfa mér að benda honum á þau. Þetta er 66. mál þingsins. Það er ekki svo, að fyrirsögninni einni hafi verið breytt á frv., heldur nákvæmlega hverri einustu gr., bæði af flokksbræðrum hans og öðrum samherjum hans og sömuleiðis af stjórnarandstæðingum. Ég vil máli mínu til sönnunar benda honum á, að við 2. umr. koma fram brtt. á tveimur þskj. Annað þeirra er þskj. 339 frá meiri hl. samgmn., sem samherjar hans voru í, og eru á því 6 brtt. Hitt þskj. er frá minni hl. samgmn. Það er nr. 340, ef hv. þm. Hafnf. vildi gera svo vel og líta á það, það er frá hans andstæðingum, og á því eru 10 brtt. Margar af þessum brtt. voru samþ. við 2. umr. En þrátt fyrir þetta var frv. enn ekki komið í betra horf en það, að hann sjálfur og hv. 2. þm. Reykv., sem sé tveir menn úr skipulagsn., þurftu við 3. umr. að bera fram brtt. á þskj. 447. Ennfremur komu fram aðrar brtt. við þetta frv. við 3. umr. Þær eru á þskj. 484. Þetta sýnir bara, hvaða meðferð frv. fékk í Nd., hversu mikil ástæða bæði honum sjálfum, samherjum hans og andstæðingum þótti til að gerbreyta frv.

Nú er frv. fyrir Ed., og þar hafa líka komið fram brtt., þótt þær hafi ekki náð fram að ganga. Hv. þm. Hafnf. viðurkennir nú í næstu ræðu sinni, vona ég, að það hafi verið fleira en fyrirsögn frv., sem þurfti að breyta. Hann vildi telja þetta nauðsynjamál. En það hefir þó ekki nokkur maður beðið um þetta. Bifreiðastöðvarnar sjálfar hafa ekki óskað þess. Þetta gæti þó orðið þeim til hagsbóta, en ekki almenningi. Hann sagði, að á leiðinni milli Hafnarfjarðar og Rvíkur hefði samkeppnin verið ógurlegust, fargjöldin hefðu lækkað hvað eftir annað og samkeppnin væri jafnvel svo mikil, að bílarnir væru farnir að fara einni mínútu á undan áætlun til þess að geta orðið á undan keppinautunum. En er þetta ekki til hagsbóta fyrir hans kjósendur og Reykvíkinga, að fargjöldin stórlækki mánuð eftir mánuð og ár eftir ár?

Ég sé ekki, hvaða almenningsheill er á bak við þetta frv. Hitt get ég skilið, að það gæti orðið einstökum mönnum til hagnaðar fyrir það vald, sem menn eiga samkv. þessu frv. að fá yfir flutningunum, og það vald má auðvitað á ýmsan hátt nota.

Þá talaði hann um ferðamannaskrifstofuna og að það væri nauðsyn, að ferðamenn kæmu til landsins. Ég er honum sammála um það, en þessi skrifstofa hefir engin áhrif á það, hvort ferðamenn koma til landsins eða ekki, því að henni er ekkert vald ætlað að hafa.

Ég hirði ekki, þar sem hæstv. forseti er nú farinn að líta allóþolinmóðlega til mín, — þó að ég tali yfirleitt manna minnst hér á þingi, — að lýsa frv. um opinberan rekstur, ég býst við, að það fáist tækifæri til þess síðar.

Hv. þm. spyr, hvaða pólitískur blær sé á þessum frv. Ég hygg, að það geti falizt pólitík í frv. um fólksflutninga með bifreiðum. Ég skal þó ganga inn á þá röksemd, að n. hefir starfað svo stuttan tíma ennþá, að hún er ekki farin að sýna sig eins og hún á eftir að gera, og því er pólitíkin enn ekki orðin eins áberandi augljós eins og hún á eftir að verða í störfum þessarar n.

Þá vék hv. þm. sér að iðnaðarmönnum. Hann vill gjarnan láta svo líta út sem hann sé sjálfkjörinn forsvarsmaður iðnaðarmanna hér á þingi.

Hann staðhæfði, að þær spurningar, sem skipulagsn. hefir lagt fyrir einstök iðnaðarfyrirtæki, væru ekki nærgöngulli en þær spurningar, sem hagstofan hefir nú fengið lagaheimild til að leggja fyrir iðnfyrirtæki. Ég hygg, að hv. þm. meini þetta ekki. En ef hann skyldi meina þetta, þá vildi ég mega leiða hann í allan sannleika um það. Í bréfinu er spurt um sundurliðað hráefni, (EmJ: Það er búið að lesa þetta áður). Hv. þm. virðist ekki skilja það samt —sundurliðað hráefni, hve mikið fer í fullunna einingu af hverri vörutegund, og það er það, sem á iðnmáli eru nefndar formúlur, sem n. spyr hér um. En það, sem á að gefa í skýrslum til hagstofunnar samkv. frv., sem lá fyrir þinginu og er nú orðið að l., það er um magn og gerð framleiðslu iðnaðarmanna og notkun hráefna og aðstoðarefna. Það er m. ö. o. nákvæmlega samskonar skýrsla og aðrir atvinnurekendur í landinu gefa. Iðnaðarmenn hafa sjálfir óskað eftir þessu, eins og hv. þm. tók fram. Og af hverju? Af því að þeir vilja láta sjást í hagskýrslunum, hvaða þátt iðnaðurinn á í íslenzku atvinnulífi. Þess vegna vilja þeir láta sjást og fá skjalfest, hversu miklu magni framleiðslan nemur og ennfremur, hvað mikið þeir kaupa af hráefnum. Hvernig getur hv. þm. leyft sér að bera slíkar almennar hagskýrslur saman við svona nærgöngular spurningar, þar sem beinlínis er spurt um þær formúlur, sem einstakir iðnrekendur nota við atvinnurekstur sinn?

Þetta ákvæði um hagskýrslurnar sætti ekki neinum ágreiningi hér í deildinni. Það kom til þeirrar n., sem ég á sæti í, og ég var frsm. þessa máls og fékk bætt nokkrum ákvæðum inn í frv. til þess að gera það ennþá fyllra. Hér er ekki heldur um samskonar skýrslur að ræða. Það sjá allir hv. þm. þann meginmun, sem er á því, að afhenda skýrslur til hagstofunnar, sem er ópólitísk ríkisstofnun, eða að láta slíkt í hendur jafn pólitískrar n. og skipulagsn. er. Hagstofan gerir ekki annað við þessar skýrslur en að gefa þær út mönnum til leiðbeiningar og fróðleiks. Um tilgang skipulagsnefndar með skýrslusöfnuninni vita menn hinsvegar ekki annað en það, sem yfirlýst hefir verið í Alþýðublaðinu og af hæstv. atvmrh.

Hv. þm. Hafnf. sagði, að ég hefði tekið á mig þá röggsemi að hringja til allra iðnrekenda og vara þá við því að gefa n. skýrslur. (EmJ: Ég sagði ekki allra.) Jú, allra. Ég get sagt hv. þm. Hafnf. það, að ég átti tal við einn gamlan kunningja minn og iðnrekanda hér í bænum. Hann var í vafa um, hvort hann ætti að gefa skýrslu, og ég sagði honum, að honum bæri ekki nein skylda til þess og áleit það ekki annað en kunningjabragð.

Hv. þm. komst svo að orði, að ef sjálfstæðismenn ætluðu að halda áfram uppteknum hætti gagnvart n., þá mundi hann greiða atkv. á móti þessu frv.

Ég get sagt hv. þm. það, að ég mun halda áfram uppteknum hætti gagnvart n. og meira en það. Ég mun taka upp meiri röggsemi en nokkru sinni áður til þess að vara þjóðina við þessari hættu, sem hér er á ferðum. Hann getur því rólegur greitt atkv. á móti frv., ég mun ekki hætta, veri hann viss um það.

Þá sagði hv. þm., að ég hefði sagt, að n. ætti að finna veilur í rekstri einstaklinganna. Ég sagði, að hún ætti að reyna að finna veilur. Annars skil ég nú ekki, hvers vegna sósíalistar eru að ónáða hv. Alþ. í þessu tilefni. Er ekkert mark takandi á samþ. flokksþings þeirra og flokksblaði þeirra, fyrst þeir þurfa að ónáða þingið dag eftir dag í tilefni af því, að athugað verði, hvort ekki séu veilur í rekstri einstaklinganna? Því að Alþýðublaðið hefir sagt, að glæpsamleg óstjórn hafi verið á rekstri einstaklinganna, og í ávarpi, sem Alþýðusambandið sendi þjóðinni, segir svo: „En forráðamenn einstaklingsrekstursins á atvinnumálum þjóðarinnar hafa fyrirgert réttinum til þess að veita atvinnulífinu forsjá og forstöðu. Þá á ekki að spyrja ráða né til þeirra að leita um bjargráð“. Hérna er hans eigið flokksþing búið að kveða upp dauðadóminn yfir einstaklingsrekstrinum, og svo er verið að biðja hv. Alþ. um heimild til þess að finna veilur í honum. Ég skil ekki samræmið í þessu.

Ég hygg, að hv. þm. Hafnf. sé svo kunnugur a. m. k. einum atvinnurekstri, að hann viti, við hve mikla örðugleika er að stríða. Hann þarf ekki að vera að þenja sig upp með það, að við séum hræddir um, að fram komi veilur, sem almenningur hafi ekki gott af að vita um.

Ég vil benda á það, að öll skjöl atvinnurekanda í landinu hafa þegar verið lögð á borðið. Þau liggja hjá skattanefndum, hjá milliþinganefndinni í sjávarútvegsmálum og hjá n., sem Reykjavíkurbær skipaði til þess að rannsaka hag stórútgerðarinnar. Það hvílir því engin leyndarblæja yfir þessu.

Hv. þm. veit sjálfur, hvar skórinn kreppir að. Hann ætti að stinga hendinni í eiginn barm, áður en hann talar digurbarkalega um þessi efni. Andstaða okkar gegn þessu frv. og þeirri rannsóknarheimild, er felst í 1. gr., byggist ekki á því, að við séum hræddir við rannsókn eða viljum hana ekki. Hlutlaus rannsókn er okkur kærkomin, en rannsókn þeirra, er þrá það eitt að drepa niður einstaklingsreksturinn í landinu, er okkur ekki kærkomin. Tilgangurinn er of augljós. Jafnvíðtæk heimild og felst í 1. gr. frv. yrði þessum mönnum stórkostlegt vopnabúr til þess að blekkja almenning og villa honum sýn.

Ég get vel trúað, að hv. þm. Hafnf. gangi hér gott til. Hann er maður, sem vill halda sér við málefnin, en hann er enn ungur og óreyndur, og aðrir munu ráða meira um stefnu Rauðku en hann.

Ég ætla að lokum, svo að ekki leiki vafi á, áður en málið fer út úr d., hvað það er, sem veldur ágreiningi, að minna á þrjú aðalatriðin en þau eru:

1. Hið einlita pólitíska val nefndarmanna í jafnstórfelldu og viðkvæmu máli.

2. Hinni yfirlýsti tilgangur n., sem komið hefir fram í ræðu hv. atvmrh., í skrifum Alþýðublaðsins og í samþ. Alþýðusambandsins, þar sem dauðadómur er kveðinn upp yfir öllum einstaklingsrekstri.

3. Það, sem mestum ágreiningi veldur, en það er hin almenna rannsóknarheimild, sem er alveg einstök og fram úr hófi varhugaverð og háskaleg, þar sem hér er um flokksnefnd að ræða. Andstaða okkar gegn þessari almennu heimild hyggist einnig á stjórnarfarslegum ástæðum. Hér á að fara að seilast inn á það svið, sem þingið eitt á yfir að ráða.

Ég hefi áður bent á það, hvernig Englendingar fara að, er þeir skipa n. til þess að rannsaka mál, er vanda valda. Árið 1925 skipaði íhaldsstjórnin í Englandi n. til þess að rannsaka kolaiðnaðinn, þetta mesta vandamál enska iðnaðarins, þar sem ætíð gekk á stöðugum verkföllum. Enska stjórnin fór ekki eins að við skipun þessarar n. og stjórnin hér fór að með skipulagsnefnd. Hún skipaði ekki tóma fylgifiska sína í n., heldur gerði hún að formanni n. einn aðalmótstöðumann sinn, Sir Herbert Samuel. N. fékk víðtækt vald. Af því að það er upplýsandi í þessu sambandi, hverskonar vald þessi n. fékk, vil ég leyfa mér, með leyfi hæstv. forseta, að lesa það upp hér í þýðingu. N. fékk vald til þess að spyrjast fyrir um og safna skýrslum um hagfræðilegt ástand kolaiðnaðarins og atriði, er hann snerti. Og enn fremur segir svo: „Til þess betur að ná þessum tilgangi gefum vér yður vald, einum ykkar, þremur eða hverjum ykkar sem er, til þess að kalla fyrir sérhvern þann mann, er þér álítið að geti gefið upplýsingar í þessu efni“ — ég legg áherzlu á það, að það stendur í þessu efni — „til þess að biðja um upplýsingar og rannsaka allar bækur, skjöl, skýrslur og skrár, sem geta gefið fyllstu upplýsingar um málið“. Þetta sýnir, hvernig Englendingar takmarka sig við þetta eina efni, en n. má kalla hvern fyrir sig, sem hún vill og ferðast hvert sem hún vill til þess að rannsaka þetta efni. N. gaf út bók með niðurstöðum sínum. Hún kallaði fyrir sig 76 vitni, bæði námueigendur og verkamenn og fékk hjá þeim allar skýrslur. Ég hygg, að þetta dæmi upplýsi það, hversu ranglega hér á að beita þessu valdi.

Ég vil svo áður en ég sezt endurtaka það við hv. þm. Hafnf., að ég mun halda áfram uppteknum hætti gegn þessu frv., og vara bæði hv. þm. og þjóðina við þessu skaðræði.