07.12.1934
Neðri deild: 53. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1382 í B-deild Alþingistíðinda. (1976)

33. mál, skipulagsnefnd atvinnumála

Sigurður Kristjánsson:

Ég hefi nú ekki tafið þingstörfin með því að ræða um þetta mál, og ég býst ekki heldur við að gera það mikið, en þó er þetta mál, sem ég ætti tæplega fremur en aðrir að láta fara fram hjá mér, því það er einkennilega til orðið, og framhald þess ætlar ekki síður að verða einkennilegt. Það er ekki neitt smáræði að ætla að fara að breyta skipulagi þjóðfélagsins í raun og veru alveg óundirbúið og svo að segja umtalslaust. Maður skyldi nú ætla, að það væri fyrst komið til þ. til þess að ræða um það, hvort slíkt ætti upp að taka, eða öllu heldur, að það væri rætt við kjósendur landsins, hvort rétt væri að snúa frá því skipulagi, sem gilt hefir í atvinnuháttum þjóðarinnar til þessa dags. En hæstv. stjórn hleypur til og skipar alveg flokkseinlita n. til þess að undirbúa þessa hluti. Og það er engin tilviljun, að n. er þannig skipuð, sem raun er á, því þessi merkilegu orð, að sjálfstæðismenn hafi ekki hið rétta pólitíska hugarfar til þess að starfa í n. og koma með till. um breyt. á atvinnuháttum þjóðarinnar, benda ekki aðeins til þess, heldur sanna það fullkomlega, að þetta er ekki annað heldur en flokksklíkunefnd, sem skipuð hefir verið, og að gersamlega óleyfilegt er, að greitt sé fé úr ríkissjóði fyrir þessi flokksstörf. Það má vel vera, að það verði talið aukaatriði í þessu máli, því að það hefir nú orðið svo snöggt um margan skildinginn úr ríkissjóði undir stjórn þeirra flokka, sem almennt eru kallaðir rauðu flokkarnir. Það er einn sinni komið inn í meðvitund margra manna, og það alltof margra manna, að það þýði ekki lengur að tala um eignarrétt á nokkrum skildingi, sem í greipar stjórnarinnar kemst. Þó virðist nú, að mönnum þyki ekki með öllu einskisvert, hver á féð eða hvort fé er til, þegar verið er að safna í þennan sameiginlega sjóð, og frá mínu sjónarmiði má þess vegna vel á það minnast, hvort það sé þolandi og forsvaranlegt, að ríkisstjórnir búi til flokksnefndir, sem enginn má nærri koma, nema þeir, sem hafa hið rétta pólitísku hugarfar, og hvort það sé forsvaranlegt, að slíkar nefndir megi ganga í ríkisfjárhirzluna, til þess að greiða þann kostnað, sem þær vilja skapa, og eftir því fé, sem þær þykjast þurfa að fá fyrir sitt persónulega starf.

Ég geri ráð fyrir því, að ef ég yrði hér nærstaddur á þessari háu samkomu, þegar ætti að fara að samþ. það, að ríkissjóður stæði undir þeim greiðslum, sem nefndin hefir skapað, þá mundi ég mótmæla því algerlega og segja það, sem rétt er, að það fé væri ranglega tekið úr fjárhirzlum ríkisins, en að það ætti að greiðast úr sjóðum flokka þeirra, sem nefndina eiga og þeir telja, að einir megi í henni sitja eða starfa.

Það er nokkuð stórt atriði, að fara út í verkefni þessarar nefndar, og það hafa nú ekki einu sinni verið birtar þær reglur eða fyrirskipanir, sem ríkisstj. kann að hafa gefið henni um störf hennar, né heldur hefir það verið birt, sem hún hefir krafizt af stj., að hún mætti gera. Verksvið hennar er sjálfsagt nokkuð víðtækt. En það, sem fyrir okkur liggur nú, er það, hvort við eigum að leyfa það, að algerlega hrein flokksnefnd, og ég held, að það sé ekki rangnefni, þó að hún sé kölluð klíka, því að það er rétta nafnið, þegar menn án nokkurs umboðs frá þeim, sem umboðið eiga að gefa, rotta sig saman til þess að hnýsast í annara manna sakir, — fái slíkt vald; sem hér um ræðir. Það, sem fyrir liggur núna, er það, hverskonar umboð Alþ. á að gefa slíkri klíku. Ég segi: það á ekkert umboð að gefa henni, hún á enga viðurkenningu skilið af neinum, nema þeim flokkum, sem hafa sett hana á laggirnar, og fyrir þeim einum getur hún borið ábyrgð, en ábyrgðarlaus er hún gagnvart öllum öðrum. Það er ekkert smáræðisvald, sem þessi nefnd á að hafa. Við skulum segja, að ríkisstj. geti dottið það í hug að gefa henni vald til þess að yfirheyra og krefja sagna opinberar nefndir og þá, sem í þjónustu ríkisins eru, sem ég þó algerlega neita, að stj. geti gefið hreinni flokksnefnd, en þegar á að fara að gefa henni umboð, eins og hér stendur, til þess að krefjast skýrslna, munnlegra eða skriflegra af einstökum mönnum, þá vil ég segja það, að slíkt umboð getur enginn gefið. Það er svo fjarri því, að hægt sé einu sinni að gefa slíkt umboð af þinginu sjálfu. Það er mjög fjarri því. Og það er beinlínis verndaður réttur manna með l. landsins, til þess að þeir geti verið í friði fyrir slíku snuðri um einkasakir sínar. Það er aðeins um þá hluti, sem varða hið opinbera, sem hægt er að kalla fyrir einstaka menn og heimta af þeim skýrslur. Þetta atriði er eitt út af fyrir sig alveg nægilegt til þess, að það á ekki einu sinni að hefja máls á því, að þingið styðji störf þessarar nefndar, nema þá að vald hennar verði takmarkað miklu meira en gert er ennþá. Ég vil líka segja það, að það væri ákaflega hæpið, þó nú að Alþ. hefði skipað nefndina, sem það hefir alls ekki gert, að gefa slíkri n. vald til þess að heimtu skýrslur af trúnaðarmönnum einkafélaga og einkafyrirtækja. Ég fyrir mitt leyti mundi aldrei geta slíkra skýrslu, ef ég væri trúnaðarmaður hjá einkafyrirtæki, ekki nema samkvæmt dómi. Það er að sönnu sagt hér í 2. gr. þessa frv., að það sé bannað að skýra óviðkomandi mönnum frá þeim atriðum, sem þessir nm. kynnu að verða áskynja um. En hvað ætla þeir þá að gera með upplýsingarnar, ef þeir ætla ekki að nota þær til neins? Eða hvernig á að skilja það, þegar talað er um óviðkomandi menn? Kannske það sé átt við, að nm. eigi ekki að ganga út um stræti og gatnamót og æpa þar upp það, sem þeir hafa snuðrað upp. Þetta eru nokkuð lítil takmörk fyrir uppljóstrunum. Ég held, að þagnarheitið yrði að vera miklu ríkara, t. d. að það mætti ekki skýra neinum frá því, nema þeim, sem nefndina hefði skipað, sem sé ríkisstj.

Það eru svo engar smásektir, sem þessir menn eiga að sæta, sem krefja á skýrslna, ef þeir ekki vilja hlýðnast því, að gefa þær. Það eru 10 til 100 kr. á dag. Ég geri ekki ráð fyrir því, að almenningi í landinu þyki það lítilsvirði, hvort dagsektirnar, sem hann er dæmdur til að greiða, eru lægri eða hærri, því að það er nú búið að gera mikið til þess að rýja menn, og að því, sem ógert er í þeim sökum, hafa verið lögð allveruleg drög með ýmsu því, sem Alþ. er nú búið að samþ. eða hefir á prjónunum. Virðast þetta vera allveigamikil viðurlög, þegar það er athugað, að þau eiga að hitta menn, sem ekki fara með umboð neinna annara, en starfa aðeins fyrir sig og á sína ábyrgð.

Ég þarf ekki að endurtaka það, að það er mjög einkennilegt, að það skuli ekki einn sinni hafa komið fram rödd á þessu þingi um það, að þessi n. verði uppleyst og þingskipuð nefnd kæmi í staðinn, og það er ákaflega einkennilegt, að sú krafa skuli ekki hafa komið fram, á sama tíma og krafizt er svona geysilega mikils valds fyrir nefndina. Ég geri ráð fyrir því, að þetta stafi af því, að fylgismenn stj. ætlist til þess og haldi fast við það, að þetta eigi að vera flokksnefnd, og að í henni eigi engir að vera nema þeir, sem aðhyllast stjórnarstefnu sósíalista eða kommúnista. En það, að sjálfstæðismenn koma ekki með slíka till., stafar af því, að þeir álíta það óeðlilegt að búa til n., sem hefir slíkt vald, sem þessari n. er ætlað að hafa, og með svo að segja engum takmörkunum. Það væri ekki hægt að segja, að það væri óeðlilegt að veita slíkt vald, ef rannsaka ætti einhvern ákveðinn og takmarkaðan hlut, eins og t. d., að það hefðu verið rannsökuð tildrög að því, eins og einu sinni kom fram á Alþ., að lokað var þeim bankanum, sem stóð undir aðalatvinnuvegi landsmanna. Það var ekkert óeðlilegt, þó að krafizt væri, að nefnd yrði skipuð til þess að rannsaka það, og henni fengið nokkurt rannsóknarvald, því með þeirri athöfn, að koma þessum banka á kné, var stefnt að því, að koma á vonarvöl a. m. k. helmingi allrar þjóðarinnar, og það lá þungur grunur á um það, að þar hefði verið um pólitískt hermdarbragð að ræða, og þjóðin átti heimtingu á, að það yrði rannsakað. Þetta var afmarkað efni; bara um þetta eina atriði, en samt var neitað um þetta, og þó átti nefndin að vera þingskipuð. En hér kemur nefnd, eða það sem ég kalla klíku, sem pólitískir flokkar, utan þingsins, finna upp á að búa til og láta koma nefi sínu í sakir allra manna á þessu landi, hvort sem það eru félög, fyrirtæki eða einstakir menn, og svo á hún að fá slíkt vald, sem hér er farið fram á.

Það hefir aldrei fengizt skýrt fram, hvað þessi n. eiginlega ætlaði sér að leggja stund á. Hún hefir verið að unga ýmsu út. Það hefir verið haft mikið orð á því, að þessi Rauðka væri alltaf að kasta, og þar væri hvert folaldið öðru ófélegra. Ég tek undir það, en vil líka taka mér í munn þessi orð okkar gamla og löngu liðna skálds: „Etum við þau öll og getum bæði“. Mér finnst þeir hafa mest til matarins unnið, sem Rauðku bjuggu til, og þeir ættu því að nærast á þeim folöldum, sem hún er að kasta.

Ég man ekki, hvað þessi n. er búin að sitja lengi. Það eru sjálfsagt nokkrir mánuðir, og hún hefir verið látin setja á fót mektuga skrifstofu, og hefir strax ráðið sér skrifstofustjóra, sem hefir á 8. þús. kr. í árslaun. Ég geri svo ráð fyrir, að annað skrifstofulið sé eftir því. Ég hefi aldrei heimsótt þessa háu nefnd, en hún kvað hafa fínt um sig og haga sér eins og þar sé ekki af vanefnum tekið, og væri það vel, ef þeir greiddu féð, sem eiga að greiða það. En fyrst n. líður svona fjárhagslega vel, ætti að vera rétt að lofa henni að vera án alls umboðs frá Alþ., a. m. k. þar til út um það er gert meðal þjóðarinnar, hvort hún vill hafa framkvæmdan tilgang þessarar n., því að það er enginn vafi á því, að íslenzkir kjósendur hafa aldrei verið um það spurðir beinlínis, en hafi þeir verið óbeinlínis um það spurðir, þá hafa þeir svarað neitandi. Það er enginn fótur fyrir skipun þessarar nefndar frá hálfu kjósenda, nema ef vera skyldi sá, að einn sérstakur flokkur hér á landi, sem gekk til kosninga við síðustu kosningar til Alþ., Alþýðuflokkurinn, hann gerði skrá yfir ýms málefni, sem hann vildi koma í framkvæmd, ef þjóðinni litist það að geta honum vald til þess að fara með stjórn landsins, og á þessari skrá var a. m. k. nokkuð í þessa átt, sem Rauðku er ætlað að vinna. En ef eitthvað má ráða af kosningarúrslitunum, hver svör þjóðin vildi veita máli þess lofsæla flokks, þá var það hreint nei, því að þessi flokkur fékk ekki, og ekki einu sinni fyrir kraft þessarar stefnuskrár sinnar, nema ¼ hluta greiddra atkv., eða réttara sagt fékk ekki einn ¼ hluta þjóðarinnar með sér. Og þó að annar flokkur hafi eftir kosningarnar gengið honum á hönd, þá hefir það alls ekki verið borið undir kjósendur landsins, hvort þeir vilji taka það gilt, og það er enginn vafi á því, að ef á að framkvæma hér meginatriði þessarar skrár, sem ég áður gat um, þá má það ekki, nema því aðeins að það sé aftur borið undir landsfólkið, hvort það vilji aðhyllast þessi stefnuskráratriði. Hitt er að svíkjast að mönnum.

Ég skal fúslega og fyrstur manna viðurkenna það, að af þeim flokki, sem nú hefir gengið á hönd Alþýðuflokknum, mátti búast við ýmsu, en ég geri samt ekki ráð fyrir því, að allir kjósendur þess flokks hafi gert ráð fyrir því, að hann gleypti strax eftir kosningarnar allt það rauðasta á stefnuskrá viðurkenndra sósíalista, og hafi þess vegna ekki allir með það fyrir augum gefið þeim atkvæði sín. Það mundu því vera og eru hrein og bein svikráð við þessa kjósendur, ef umboðsmenn þeirra leggja út á þá mjög svo varhugaverðu braut, að styðja róttækustu stefnuskráratriði Alþýðuflokksins, en hafa ekki um eða fyrir kosningarnar tilkynnt það, að þeir mundu ganga einu sinni í þá átt, hvað þá gleypa hverja þá flugu, sem þeir vildu koma þeim í munn og háls.

Af því að það er nú mjög liðið á umr. um þetta mál, og frv. hefir ekki verið í þeirri n., sem ég hefi átt sæti i, og þess vegna ekki sérstaklega borið undir mig að ræða það í einstökum atriðum, mun ég ekki fara öllu lengra út í að ræða það. En mér þótti þó rétt, af því að ég veit, að það er litið svo á af mjög miklum hluta, og sennilega talsverðum meiri hl. kjósenda í mínu kjördæmi, að þessi nefndarskipun sé fyrst og fremst alveg óviðkomandi Alþ. og einnig, að óforsvaranlegt sé að fá henni nokkurt víðtækara umboð heldur en flokkur hennar gæti gefið henni — þá þótti mér rétt að láta það í ljós. Ég er alveg sannfærður um það, að ef þingið snýst að því ráði, að gefa nefndinni þetta umboð, þá mun það koma fram innan skamms, að kjósendur munu kalla þm. til reikningsskapar út af því. Það mun vera alveg einsdæmi í þingsögu okkar, að stj. hafi skipað svona fjölmenna nefnd algerlega einlita, en ætla sér þó, að láta hana heita skipaða af ríkisstj. Og hitt mun ótvírætt vera einsdæmi, að farið skuli fram á, að þingið gefi slíkri n. eða klíku, eins og ég hefi leyft mér að kalla hana, svo víðtækt og varhugavert umboð. Og f. h. allra þeirra manna, sem hafa fengið mér umboð til þess að starfa á þessum stað, vil ég mótmæla því fastlega, að þingið veiti n. það umboð, sem farið er fram á.