07.12.1934
Neðri deild: 53. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1397 í B-deild Alþingistíðinda. (1992)

33. mál, skipulagsnefnd atvinnumála

Gísli Sveinsson [óyfirl.]:

Herra forseti! Ég veit ekki, hvort það er gustuk að þjarma meira að þessari skepnu, sem nefnd er Rauðka, en þar sem ég vona, að hæstv. forseti sé ekki eins hátt settur í neinu dýraverndunarfélagi eins og hann er hér á meðal vor, þá mun ég nú kanna gang hennar nokkuð.

Ég skal þá fyrst víkja nokkrum orðum að því, hvort við skipun þessarar n. hafi pólitík ráðið, hvort henni sé ætlað að starfa pólitískt, hvort pólitík hafi komið fram í starfi hennar og hvort hægt sé að búast við pólitískum árangri af starfi hennar.

Nú er þess fyrst að geta eins og reyndar hefir komið fram áður og ég hefi haft tækifæri til að taka fram í sambandi við annað mál, að þessi svokallaða skipulagsn. atvinnumála, sem nú er tekin til starfa, ekki fyrir tilhlutun þings, heldur stjórnar, fékk erindisbréf, þar sem henni er upp á lagt að skila áliti og till. að lokinni rannsókn á þessum verkefnum, sem henni var falin eða verður falin. Og eins og hv. þdm. er kunnugt, þá hefir Alþ. nú þegar fengið til meðferðar nokkur mál í frv.-formi frá þessari n., og satt að segja eru þau mál ekki og geta ekki verið árangur af neinni rannsókn. Skal ég þar nefna tvö mál, sem eru komin talsvert áleiðis hér á þingi. Það er frv. um fólksflutninga á landi og frv. um starfrækslu póst- og símamála. Bæði þessi mál voru þannig vaxin, að þar getur engin rannsókn hafa legið á bak við.

Fyrra frv., sem ég nefndi, var mjög illa úr garði gert, þegar það var lagt fyrir þingið, og var sýnt fram á það með rökum undir umr. um það. Hafi n. safnað að sér gögnum um það mál og unnið úr þeim, þá hefir það verið gert mjög lauslega. Þetta sýndi líka sú meðferð, sem frv. fékk í samgmn. N. klofnaði, og báðir hlutar komu með till. um að umsteypa frv., þó að tilgangurinn héldi sér að kalla hjá meiri hl., en minni hl. vildi gerbreyta frv. Það hafði ekki verið leitað upplýsinga, sem þó voru fáanlegar í landinu, og var alls ekki hirt um að leita þeirra hjá þeim, sem vitað var, að höfðu beztan skilning á þessum hlutum.

Hitt frv., sem ég nefndi, var tiltölulega mjög ómerkilegt. Það hafði áður komið fram og verið rannsakað. Það var frv. um starfrækslu pósts og síma. Það var mjög einfalt og hefði hver sem vildi getað samið það á 1—2 dögum. Ég veit, að það hefði nafni minn, sem situr nú við hliðina á mér og er formaður samgmn., vel getað.

Þessi mál eru því þannig vaxin, að þau koma ekki fram frá n. hálfu sem árangur af neinni rannsókn. N. hefir þannig vanrækt þegar í byrjun það grundvallaratriði, sem er í erindisbréfi hennar, að láta fara fram rannsókn og athugun á málum, og þegar það bætist við, að hún er ekki betur skipuð að mönnum heldur en hún er, þá getur verið athugunarvert að láta hana fá jafngeysilegt rannsóknarvald og hér er lagt til. Þessir menn hafa oftar en einu sinni verið taldir upp af ráðh., og þó að sumir þeirra kunni að vera sæmilegir menn, þá eru þeir ekkert hæfari en hverjir aðrir, sem að svipuðum málum hafa starfað, og það er ekkert, sem bendir til þess, að þeir séu sjálfkjörnir í þessa n., sem á að fá svo geysimikið rannsóknarvald. Þetta er ljóst af fleiri atriðum. Ég hefi þegar nefnt afköst nefndarinnar hingað til. En það má benda á fleira. Því er ómótmælt, enda ómótmælanlegt, að skipun slíkrar nefndar var einn liðurinn í hinni svokölluðu 4 ára áætlun Alþýðuflokksins, sem er viðurkennt pólitískt kosningaplagg. Að framkvæma skipun nefndar, sem boðuð er sem kosningabeita af ákveðnum stjórnmálaflokki, sýnir það, eitt út af fyrir sig, að n. er pólitísk, og sjálf skipunin í nefndina sýnir, að það hefir verið tilætlun stjórnarflokkanna að hafa hana pólitíska. Að vísu þarf ekki að furða sig á því, þótt stjórnarflokkarnir hafi viljað með nefndarskipuninni setja pólitík í samræmi við sína stefnu. En hér skipar stjórnin n. með víðtæku verksviði um óákveðinn tíma, sem starfa skal á kostnað ríkissjóðs, án þess að samþykki Alþ. komi til eða þess sé leitað. Slíkt getur ekki verið gert til annars en að tryggja það fyrirfram, að n. þjóni ákveðinni pólitískri stefnu.

Þá hefir hæstv. atvmrh. gefið þá yfirlýsingu, að frá sjónarmiði sósíalista eigi n. að komast að þeirri niðurstöðu, að þjóðnýting eigi að komast á, þar sem henni verður við komið. Með þessu er játað, að n. eigi í raun og veru enga rannsókn að hafa með höndum. Slíkt er auðvitað alger óþarfi, þar sem niðurstaðan er ákveðin fyrir fram.

Loks er þess að geta, að svo var skipað í n., að aðeins stj.flokkarnir eiga þar sæti. Hinum flokkunum var bolað burt eða meinað að vera í n., þrátt fyrir það, þótt þar ætti hlut að máli stærsti stjórnmálaflokkur landsins, Sjálfstfl. Þetta er enn ein fullkomin sönnun þess, að n. á að þjóna ákveðinni pólitískri stefnu. Það var auðheyrt á einum nm., sem hér hefir talað, hv. þm. Hafnf., að honum var meinilla við, að sjálfstæðismenn fengju að starfa í nefndinni og taldi jafnvel, að starfi n. væri með því stór hætta búin. Þetta sýnir, að stjórnarflokkarnir hafa ætlað sér að starfa einir og óáreittir í n. á kostnað alþjóðar.

Þá má benda á það, að fyrir liggja skrifleg gögn, sem sýna það, að hér er ekki um neina vísindalega starfsemi að ræða. N. hefir sent út fyrirspurnir til ýmissa atvinnurekenda, sem bera það fullljóst með sér, að hún er pólitísk n., en ekki óhlutdræg starfsnefnd. Sumar spurningarnar eru að vísu meinlausar, en aðrar meinlegar. Óhlutdræg starfsn. hefði ekki farið svo að, að heimta skýrslur af einstaklingum undir víti, án þess að hafa nokkra heimild til þess, eins og þetta frv. sýnir bezt sjálft, þar sem einmitt er farið fram á að fá slíka heimild. Ef n. ætlaði að starfa hlutlaust, var henni nóg að fá slíkar skýrslur frá hagstofunni, samkv. frv., sem nú hefir verið lagt fyrir Alþ. Enda hefir nú einn meðmælandi þess frv., sem hér liggur fyrir, sagt, að þær skýrslur væru þær sömu og n. á að geta krafizt eftir þessu frv. Þetta er að vísu blekking, því að frv. á að geta opnað n. leið til pólitískrar hnýsni og jafnvel árása í garð einstakra atvinnurekenda. En n. gat fengið allar fullnægjandi skýrslur frá hagstofunni, ef hún hefði ætlað sér að starfa ópólitískt.

Ég hefi þá sýnt fram á það í mörgum atriðum, þar sem hvert atriði er eitt út af fyrir sig fullnægjandi sönnun þess, að n. er skipuð pólitískt og á að starfa pólitískt. Meðmælendur frv. hafa hvað eftir annað viðurkennt þetta, og því er það firra að vera að neita þessu í öðru orðinu.

Ég vil spyrja meðmælendur n., hvers vegna n. hafi sent út fyrirspurnir með hótunum, meðan hún og stj. vissu, að n. hafði enga heimild til þess að gera slíkar fyrirspurnir. Það hefði ekki mátt gera minni kröfur en þær, að n. hefði komið eftir því, að frv. um skýrslur frá hagstofunni, eða þetta frv., næðu fram að ganga, svo að henni veittist heimild til að heimta allar skýrslur af einstaklingum og opinberum stofnunum. En það er ljóst, hvað fyrir n. hefir vakað. Hún hefir ætlað, með þeim ómerkilegu málum, sem hún hefir látið frá sér fara og lagt fyrir þingið, og hinum ógnandi fyrirspurnum, að hún væri verðug trausts stjórnarinnar og stj.flokkanna. Ég get þess vegna vel skilið, að sjálfstæðismenn séu ekki velkomnir í n., og satt að segja hefi ég ekki talið neina þörf á því, að sjálfstæðismenn færu í þessa n. Ég ætla engan öfundsverðan af því að vera í henni, enda er svo til hennar stofnað, að hún gat ekki verið annað en stjórnarflokkaklíkunefnd.

En það er ekki hægt að neita því, að þegar stofnað er til nefndar, sem á að starfa á svo víðtækum grundvelli og hafa svo alhliða verkefni með höndum, lá næst að skipa eða kjósa slíka n. úr þingflokkunum öllum, eða a. m. k. stærstu flokkunum. En skýringin á því, hvers vegna slíkt var ekki gert, er fyrir löngu augljós. Hún er sú, að n. var frá upphafi ætlað að vera pólitísk n. og jafnvel árásarnefnd á Sjálfstfl.

Það hefir komið ljóst fram, að forsvarsmenn n. eru mjög andvígir þeirri breyt. á frv., sem komin er inn fyrir tilstilli hv. þm. V.-Ísf., að tveir sjálfstæðismenn skuli einnig fá að eiga sæti í þessari uppáhaldsskepnu þeirra rauðliða, þó að þeir vilji þrátt fyrir það láta bikkjuna ganga sér til húðar. Þeir hv. þm. Hafnf. og hv. 2. þm. Reykv. hafa báðir lýst yfir því, að þessi breyt. myndi stórspilla fyrir árangri af störfum nefndarinnar eða jafnvel gera hann að engu. En hví vilja þeir þá ekki hætta við n. eða a. m. k. fella frv., ef augljóst er fyrir fram, að enginn árangur verður af störfum nefndarinnar? Mér virðist, að skepnan sé þá orðin svo gölluð, að ekki sé rétt að knýja hana áfram lengur.

Ég verð því að draga þá ályktun af því, sem komið hefir fram í þessu máli í ræðum okkar sjálfstæðismanna og þá ekki síður af hálfu andstæðinga vorra, að nefndin, og þá ekki sízt þetta frv., sé orðið eitt stórt „húmbug“, sem ekki er lengur neitt skjól fyrir stjórnarflokkana, ekki einu sinni skálkaskjól. Ég vil því beina þeirri spurningu til stjórnarflokkanna, hvort þeir vilji ekki lofa þessari lemstruðu skepnu að hvíla sig héðan af og losa hv. Ed. þannig við að lóga henni.