07.12.1934
Neðri deild: 53. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1400 í B-deild Alþingistíðinda. (1993)

33. mál, skipulagsnefnd atvinnumála

Jóhann Jósefsson [óyfirl.]:

Við 1. umr. þessa frv. minntist ég nokkuð á þetta mál og þó einkum á skipun nefndarinnar, á þann hátt, að mörgum hv. stjórnarliðum þótti ég víst gera fullmikinn aðsúg að n. og öllu hennar athæfi. Síðan hefi ég ekki skipt mér af gangi málsins, og vænti ég því, að mér verði ekki lagt það til lasts, þótt ég víki nokkuð að því við 3. umr., þar sem engir aðrir komust að við 2. umr. en þeir, sem töluðu í útvarpið.

Ég hefði viljað gera nokkra aths. við ræðu hv. þm. Hafnf., sem talaði hér áðan í þessu máli. Ræða hans gaf alveg sérstakt tilefni til að ræða þær lífsskoðanir, sem virðast hafa valdið meðferð stjórnarflokkanna á þessu máli.

Aðrir hv. þm. hafa þegar sýnt fram á það, hve feikilega mikið og margþætt verkefni n. er ætlað. En þegar nefnd er stofnuð til að vinna að svo víðtækum verkefnum sem þessi, gegnir furðu, að nokkur ríkisstj. skuli leyfa sér að skipa svo einhliða pólitískt í hana og gert hefir verið í þessa n.

Mér þykir leiðinlegt, að hv. þm. Hafnf. skuli ekki mæta á fundi, svo að hægt sé að ræða við hann um það, sem hann sagði í þessu máli, því að þar kom „princip“ stjórnarliða í þessu máli gleggst í ljós.

Hann játaði, að það væri fyrst og fremst tilgangurinn með þessu frv. að finna veilur í einkarekstrinum. Það er nú sjálfsagt svo hér sem annarsstaðar, að með eftirgrennslan má finna veilur í slíkum rekstri, og það jafnvel án þess að nokkur n. sé skipuð til þess. En skyldi þetta gilda alveg sérstaklega um íslenzkan atvinnurekstur, eða skyldi þetta eiga eingöngu við einkarekstur og rekstur hins opinbera vera þar alveg undanskilinn? Nei, en sannleikurinn er sá, að stjórnarflokkarnir vilja hvergi sjá veilur, nema í einkarekstri. Þeir gefa ekki lítið óhlutdrægt á þessi mál, af því að þjóðnýtingin er þeirra átrúnaðargoð og skipar svo háan stall í tilfinningalífi þeirra og meðvitund, að þeir loka augunum fyrir öllum göllum hins opinbera rekstrar. Annars vil ég taka það fram, að það er engin ástæða fyrir hv. þm. Hafnf. né aðra formælendur þessa máls, að halda, að atvinnurekendur hér séu neitt kvíðandi eða skjálfandi fyrir rannsókn þeirra manna, sem n. skipa. Til þess brestur þessa menn um of alla þekkingu á atvinnulífi þjóðarinnar. Að undanteknum einum manni í n., sem er trésmíðameistari, hefir enginn af þessum mönnum nokkurn tíma dýft hendi í kalt vatn hvað atvinnurekstur snertir. Betur en þetta var nú ekki séð fyrir þekkingu, hvað þá sérþekkingu, á atvinnuháttum og högum þjóðarinnar, er valið á þessum mönnum í nefndina fór fram. Fyrir gagnrýni slíkra manna þarf því enginn að blikna eða blána. Hitt er aftur á móti vitanlegt, að með fyrirspurnum sínum, t. d. til iðnaðarfyrirtækja, hefir n. látið það berlega skína í gegn, að eitthvað annað vakir fyrir henni í starfi hennar heldur en það, sem talið er í frv., að eigi að vera verkefni hennar, og er þar þó ærið talið. Því hefir verið lýst í umr., að n. hefir snúið sér til atvinnufyrirtækja, sem framleiða vörur til neyzlu, og hún spyr þau ekki um það eitt, hve marga starfsmenn fyrirtækin hafi, heldur um það, hvernig vörurnar séu búnar til, hún spyr um blöndun hráefnanna, sem notuð eru til þess að framleiða einstakar vörutegundir.

Hvað getur maður nú hugsað sér, að þessir menn, hv. þm. S.-Þ., hv. 2. þm. Reykv., hv. þm. Hafnf., skólameistarinn á Hólum og útgerðarstjóri og trésmíðameistari í Hafnarfirði hafi með slíkar upplýsingar að gera? Hvaða gagn geta menn ímyndað sér, að þessir menn hafi af þeim fróðleik, sem kallast formúlur fyrir því, hvernig einhver matvæli séu saman sett, hvaða hráefni notuð eru við kemíska samsetningu efna, svo ég nefni t. d. eina þá vörutegund, sem spurt hefir verið um, smjörlíki. Það er eðlilegt, að þeir, sem spurðir hafa verið á þann hátt, eigi erfitt með að finna, hvaða meining muni vera á bak við svona yfirheyrslu. (ÓTh: Mig langar til að skjóta þeirri spurningu til hæstv. forseta, hvar hv. flokksbræður hans eru og hæstv. stj. Nú, þarna kemur þá einn þeirra í hv. d. Þá læt ég fyrirspurnina niður falla, ég spurði vegna þingfararkaups o. fl.). (ÓTh gengur til forseta og talar við hann í hljóði). Ég ætla að hvíla mig á meðan hæstv. forseti og hv. þm. G.-K. talast við (ræðumaður sezt). (Forseti: Hv. þm. Vestm. er óhætt að halda áfram).

Samkv. 1. gr. frv. og þegar maður kynnir sér það verkefni, sem n. er falið, er ekki gott að sjá, hvaða ástæður liggja til þess, að n. fer sérstaklega að kynna sér, úr hvaða hráefni smjörlíki sé búið til. Að vísu er sagt svo í frv., að n. eigi að gera till. um skipulag þjóðarbúsins o. fl. Kannske þetta „o. fl.“ þýði það, að n. eigi að gera till. um tilbúning smjörlíkis. Þetta á sér líka stað um tilbúning skósvertu, gljávax og ýmislegs fleira af framleiðsluvörum hér á landi, því þessar spurningar eru sennilega sendar til allra framleiðenda. M. a. er því grennslazt um það, hvaða hráefni notuð séu í skósvertu. Það er sannarlega ekki ónýtt fyrir n. að vita það, hvernig skósverta er búin til. Ég sé, að hv. 8. landsk. brosir, en þetta er ekkert broslegt. Það væri hreint ekki ónýtt fyrir hv. 2. þm. Reykv., ef hann gæti konstrúerað út úr upplýsingum um samsetningu á bónvaxi og skósvertu einhverju dýrindis skósvertu eða bónvax. Ég minnist þess, að ég las eitt sinn í Englandi smásögu Hv. 2. þm. Reykv. rak þar höfuðið út úr gætt. Ég vil beina hugsun hans, sem hefir sýnt sig að vera frjó, sérstaklega eftir að hann varð formaður „Rauðku“, að því, að ég var að tala um smásögu, sem hann gæti lært nokkuð af. Það var eitt sinn fátækur hermaður, sem bað annan mann að gera sér greiða. Maðurinn varð við bón hermannsins vel og ljúflega. Hermaðurinn hafði ekkert til að borga með, en sagði þó: Eitt get ég látið þig hafa að launum, ég get kennt þér aðferð til þess að búa til talsvert góða skósvertu. (ÓTh: Það þýðir ekkert að segja hv. 2. þm. Reykv. þetta, hann gerir aldrei nokkrum manni greiða). Hv. þm. N.-Þ. er kominn hér og hlustar með athygli. Ég vil gjarnan, að hann nemi af sögunni. Maðurinn fór heim til sín með blað, sem hermaðurinn gaf honum, þar sem á var uppskrift um tilbúning skósvertunnar. Maðurinn fór að athuga blaðið. (Þetta er víst alveg sönn saga). Það reyndist svo, að þessi skósverta var talsvert góð, því maðurinn, sem tók að framleiða hana, varð af því auðugur, þó að hermaðurinn væri svo hógvær að segja skósvertu þessa ekki meira en talsvert góða.

Ég ætla, að rétt sé að benda þeim á, sem heyra mál mitt, hvað jafnvel þessi vara getur verið dýrmæt fyrir framleiðendur hennar, ef rétt er að farið. Það mætti nefna fleiri vörutegundir í þessu sambandi, en ég vil ekki þreyta hæstv. forseta á því að lengja mál mitt um þetta atriði, en sumir af þeim, sem n. skipa, eru bókamenn og hafa kannske lesið söguna og vita það, hvernig uppskrift um skósvertuna gaf stórfé, og að það sé þess vegna, að hv. n. leggur sig svo fram til þess að fá frá iðnrekendum uppskriftir um tilbúning ýmissa iðnaðarvara. En svo er önnur hlið á þessari sögu. Hermaðurinn stóð í þakkarskuld við þann mann, sem gerði honum gott og veitti honum beina. Hann vildi þess vegna láta það, sem hann hafði yfir að ráða til endurgjalds. En það er óvíst, að iðnrekendur, hvort sem þeir framleiða ætar eða óætar vörur, álíti sig standa í þakklætisskuld eða nokkurri skuld við n. eða hæstv. stj., og að þeir þurfi af þeim ástæðum að láta af hendi þær upplýsingar um aðferðir við tilbúning sinna vara, aðferðir, sem þeir hafa fundið með mikilli vinnu, miklu námi og ærnum kostnaði. Aðferðir, sem þessir menn hafa lært og eignazt, eins og vitað er og allir skilja, að sá maður á, sem kemst yfir slíkar aðferðir með heiðarlegu móti, annaðhvort með vinnu eða kaupum á upplýsingum um það, hvernig vara er tilbúin, sá maður á vitanlega einn rétt á þeim launungarmálum eða formúlum, sem liggja til grundvallar fyrir því, hvernig ýmsar iðnvörur eru tilbúnar. Slíkar formúlur eru oftast nær leyndarmál, og má kalla, að hver verksmiðja hafi sína aðferð fyrir sig. Það er vitað um vörur með sama nafni, sem gerðar eru með mjög mismunandi aðferðum. Menn vita, að t. d. smjörlíki er mjög misjafnt að gæðum o. s. frv. En mismunur á gæðum orsakast sumpart af því, hversu góð hráefni eru notuð og hvernig þau eru notuð, hvaða aðferðir verksmiðjurnar nota og hversu vandvirknislega unnið er, hve mikið hreinlæti er viðhaft o. s. frv. En sérstaklega þetta atriði, blöndun hráefnanna, er víst alstaðar álitið að sé hreint einkamál hverrar verksmiðju eða iðnrekstrar fyrir sig, sem ekki komi til mála, að verksmiðjan þurfi að gefa öðrum upplýsingar um. Það gleður mig að sjá, að hv. þm. Hafnf. er nú kominn í deildina og heyrir mál mitt. Því miður var hann ekki viðstaddur er ég talaði til hans áðan, en ég skal endurtaka það, sem ég sagði. (EmJ: Ég hefi heyrt allt sem hv. þm. hefir sagt). Það gleður mig, og þá get ég gjarnan bætt dálitlu við til hv. þm. og minnzt á fleira í ræðu hans. (EmJ: Það er óþarfi). Á þessum aðferðum eru oft tekin einkaleyfi, ef einhver maður finnur t. d. nýja aðferð til að vinna vöru úr einhverju hráefni. Við skulum hugsa okkur einhverja hrávöru hér á landi, t. d. lýsi eða lifur, svo maður taki eitt frumstætt hráefni. Eins og menn vita er lýsi unnið úr lifur, en til þess eru notaðar mismunandi aðferðir. Ég veit, að hv. þm. Hafnf. veit þetta, en það er ekki víst, að svo sé um alla hv. dm. Ég hefi heyrt á það drepið, að það megi fá einkaleyfi á slíkum aðferðum, og ég hefi m. a. s. heyrt, að umsókn um eitt slíkt einkaleyfi sé einmitt á ferðinni í stjórnarráðinu, og er hæstv. fjmrh. það kannske kunnugt. Aðferðirnar við að vinna lýsi úr lifrinni eru mismunandi og lýsið mjög misjafnt að gæðum. Ef nú einhver hefir fengið einkaleyfi á hlut eða aðferð og ef það einkaleyfi er verðmætt, þá á hann kröfu á verðlaunum eða borgun hjá þeim, sem nota hans aðferð.

Ég veit, að hv. þm. Hafnf. veit þetta betur en ég, en ég veit þó svo mikið, að einkaleyfi á einhverri aðferð gildir sama og peningar, og getur slíkt verið stórra peninga virði í sumum tilfellum. En svo ég komi aftur að uppskriftunum, sem n. heimtar að fá á iðnaðarvörum bæði ætum og óætum, heimtar með valdboði, að gefnar séu út í yztu æsar, þá vil ég segja það, að með því er n. að heimta, að þessir menn framselji sína eigin eign. (EmJ: Má ég skjóta fram í, gildir þá ekki „patentið“?) Í öllum tilfellum eru þessar aðferðir ekki „patentaðar“. (EmJ: Eru þær þá leyndardómur, ef þær eru ekki patenteraðar?). Ég veit ekki, hvort „patent“ er á smjörlíkinu. (EmJ: Það er ekki „patent“ á því). En hvers vegna er hv. þm. þá að spyrja um þessar aðferðir og uppskriftir, ef þær eru ekki leyndardómur. Hann er einn af nefndarmönnunum, sem spyr. Hvers vegna er hann að spyrja? Ég var áðan hálfgert að áfellast einn hv. ræðumann fyrir það, að hann sagði, að þessi n. væri aðeins skipuð til þess að sýnast, en hér kemur nú fram einn maður úr n., sem hefir spurt um það, sem hann veit. En hvers vegna er hann þá að spyrja, úr því hann veit? Þetta virðist styðja það, sem einn hv. þm. hélt fram, að starf n. ætti að vera það að sýnast og ekki annað.

Hv. þm. Hafnf. talaði um, að það væru miklar veilur í atvinnurekstri einstaklinganna. Ég veit ekki, hvort þessi hv. þm. hefir spreytt sig á að reka nokkra atvinnu, en það hafa margir reynt bæði hér í hv. d. og utan d., og vita þeir sennilega betur en hv. þm. hvað það er. Það er náttúrlega ekki vafi á því, að hægt er að finna veilur í einkarekstri, en hv. þm. vill þá kannske benda á betri leiðir um leið og hann fordæmir einkareksturinn. Það virðist nú móðins í stjórnarliðinu að sparka í hverskonar einkarekstur. En um leið og þessi hv. þm. leggur fram sitt lið til þess að kasta hnútum í einkareksturinn, þá flytur hann frv. í þinginu um að ýta undir þann rekstur, með því að hvetja menn til að ráðast í ný iðnfyrirtæki. Ég held, að ég fari rétt með það, að þessi hv. þm. flutti hér í þinginu frv. um ýms hlunnindi fyrir ný iðnfyrirtæki. Hvers vegna er ástæða til þess að ýta undir það, að menn stofni ný iðnfyrirtæki og ráðist svo á þau á eftir og telji, að sá grundvöllur, sem þau eru reist á, sé rangur. Það kom fram í ræðu þessa hv. þm., vafalaust eftir skipun frá flokksbræðrum hans, að ríkisrekstur væri sú aðferð, sem ætti að vera fremst í röðinni, en að einstaklingsreksturinn ætti að fordæma. Mér finnst hv. þm. Hafnf. ósamkvæmur sjálfum sér, þegar hann flytur frv., sem ýta undir einstaklingsreksturinn í landinu, en í þinginu talar hann svo þannig, að öll iðnfyrirtæki hafa ástæðu til þess að óttast hann, og n. segir hann, að hafi það markmið að finna hinar miklu veilur, sem séu í iðnaðinum. — Það hafa komið nokkur frv. frá þessari n., sem í daglegu tali er kölluð Rauðka, og þeir, sem þau hafa flutt, hafa álitið þau mjög vel undirbúin og talið rétt af hv. þingheimi að aðhyllast þau. Það má nefna frv. um einkasölu á bifreiðum o. fl., frv. um ferðamannaskrifstofu, og ennfremur er nú nýkomið frv. um líftryggingar. Ég skal ekkert segja um þessi mál yfirleitt, ég skal ekki um það ræða að þessu sinni, hvort ég tel þau þörf eða óþörf. Ég mun sýna það við atkvgr. um þau mál. En ég vil bara benda á eitt atriði, sem sýnir að samsetning og skipun þessarar n. og starfsaðferðir er allt skoðað sem sérstakt fyrirbrigði. Þegar miðað er við aðrar n., hvort sem þær eru stjórnskipaðar eða þingskipaðar, er það venja, að slíkar n. leggi fram álit og skýrslur á þeim málum, sem þær hafa til rannsóknar, en hér er ekki því til að dreifa og þess er ekki heldur að vænta. Þessi n. er til þess að gera ný af nálinni, svona 3 til 4 mánaða. En henni liggur svo mikið á, að því er virðist, að fá það lögfest, sem hún framleiðir, að hún hefir ekki tíma til að koma með álit í málunum.

Þegar athuguð er 1. gr. frv., má gera ráð fyrir, að þessi n. geti orðið lengi að vinna að þessari breytingu á þjóðskipulaginu, sem er yfirlýst, að hún á að vinna að. Ég vil í þessu sambandi benda á ummæli hæstv. ríkistj. og margra hv. þm. úr stjórnarflokkunum viðvíkjandi frv. því, er milliþn. í sjávarútvegsmálum lagði fram og stjórnarflokkarnir í heild sýnast hafa tekið höndum saman um að láta ekki ná fram að ganga. Í svo að segja hverri einustu ræðu var því lýst yfir, þegar það frv. var lagt hér fram, með greinilegum og viðprentuðum ástæðum, að það væri eiginlega ekkert hægt að gera í þessu máli, af því að ekki lægi fyrir álit frá viðkomandi n. Ég held, að hæstv. ráðh., að undanteknum hæstv. forsrh., hafi iðulega að þessu vikið, a. m. k. hæstv. atvmrh. og margir þm. úr stjórnarflokkunum. Þá voru þeirra hendur og tungur algerlega bundnar nema til þess að gagnrýna till. okkar vegna þess að ekki lægi fyrir prentuð skýrsla frá n., sem var þó upplýst, að væri í prentun og var lögð fram nokkrum dögum síðar.

Ég verð að kannast við það, að það var full ástæða fyrir þá að heimta af okkur, að við legðum fram skýrslu, enda vann milliþingan. að því eftir megni, og prentsmiðjan flýtti prentun skýrslunnar, eftir því sem hún gat, enda fór það svo, að skýrslunni var útbýtt nægilega snemma, svo að það þurfti út af fyrir sig ekki að verða til tafar.

Ég gat þess áðan, að það hefði verið lagðar fram greinilegar ástæður með frv., sem voru vitanlega útdráttur úr þessari skýrslu, og það vissi hæstv. ríkisstj., en þó var þetta notað sem yfirvarpsástæða og vitnað í það til þess að eiga hægra með að vera á móti frv. En þessi n., sem hér er um að ræða, getur sent hvert frv. á fætur öðru og hæstv. stj. og stjórnarflokkarnir taka þau óðar upp á sína arma og bera þau fram í þinginu, jafnvel þótt um hin mestu hégómamál sé að ræða, og án þess að nokkrar skýrslur liggi fyrir frá þessari.

Í sambandi við þessar margendurteknu og harðvítugu ádeilur og árásir núv. valdhafa, en með því meina ég stjórnarflokkana, á fyrirtæki einstaklinga hér á landi, benti ég á það við fyrstu umr. þessa máls, að allar þær framfarir, sem við sjáum hér á landi, vegagerðir, brúargerðir, stórútgerð, vélbátaútgerð, millilandasiglingar og margt fleira í menningar og þjóðþrifaáttina, er fram komið mest eða allt á síðastliðnum 50 árum, og allt saman er það að þakka baráttu einstaklinganna hvers á sínu sviði. Því er öllu komið í verk undir merki einstaklingsframtaksins, en ekki ríkisrekstrar eða þjóðnýtingarstefnu.

Ég vil benda á, að mér finnst, þegar svo að segja hver óvalinn kratapostulinn, sem hefir slæðzt hér inn í þingið, telur sig réttborinn til þess að sparka í framtak einstaklingsins hér á landi og saka atvinnurekendurna um allt, sem miður hefir farið og jafnvel um heimsástandið og utanaðsteðjandi vandræði, að ekki væri úr vegi að líta á þessa staðreynd, að það, sem ennþá hefir verið gert og verulegt manntak er í hvað framtak í verklegum efnum snertir, er það þetta margnídda einstaklingsframtak, sem hefir verið máttarstólpinn í öllum þessum verkum.

Það getur vel verið, ef heppnast að ná því takmarki jafnaðarmanna, sem hæstv. atvmrh. lýsti yfir við fyrstu umr. þessa máls, að þjóðnýta atvinnureksturinn, að svo geti farið, að þjóðin fái eftir nokkur ár þjóðnýtingu og sjái þess merki, hvað framförunum miðar áfram undir þeirri nýju tilhögun, sem stefnt er að með skipun og starfi þessarar n. Það er aldrei of rækilega á það bent, og ég vil við 3. umr. málsins í þessari hv. d. undirstrika, að fyrir þær hörðu ádeilur, sem gerðar hafa verið á þessa n. og hæstv. ríkisstj. í því sambandi, þó var fram knúð sú yfirlýsing af hendi stjórnarinnar, eins og hæstv. atvmrh. orðaði það: Að það væri engin launung að störf n. mundu beinast í þjóðnýtingaráttina. Og að þessari yfirlýsingu fenginni er því þar með slegið föstu, að báðir stjórnarflokkarnir standa að þessu verki. Það hefir komið fram till. um það og verið samþ., að Sjálfstæðisflokknum verði heimilað að tilnefna tvo menn í þessa n., og þá yrði hún sjö manna n. Nú er það vitanlegt, að Sjálfstæðisflokkurinn á þingi hefir að baki sér meiri hl. kjósenda í landinu. Eftir þeim lýðræðisanda! sem fram kemur í þessari till., þá á meiri hl. kjósenda í landinu að tilnefna tvo menn af sjö í þessa n.

Hv. þm. Hafnf. hefir verið einna berorðastur á móti því, að við sjálfstæðismenn kæmumst í nefndina. Hann kann að hafa sagt það fyrir munn sína flokksbræðra og annara, sem áður hafa látið slíkt í ljós, en hugsað sem svo: „Ég veit ekkert um það, hvort þessu ákvæði verður haldið í frv. við gang þess í gegnum hv. Ed., og ég veit heldur ekki um það, hvort sjálfstæðismenn munn hirðu um að nota þá heimild, sem þá yrði í lögunum, ef till. stæði óbreytt“. En það má hv. þm. Hafnf., sem talaði einna skýrast um þetta, vel vita, að það er ekki neinum sjálfstæðismanni, sem hér er á þingi, neitt áhugamál að komast í þessa n. Þeir góðu menn þurfa ekki að ímynda sér, að við sæjumst eftir að komast í n., því fer svo fjarri. Hitt er annað mál, að það hefir verið ákaflega skemmtilegt að sjá það, og eiginlega nauðsynlegt að fá því slegið föstu við umræðurnar um það, hvort sjálfstæðismenn ættu að fá sæti í n. eða ekki, hvaða viðtökur þetta hefir fengið hjá stjórnarflokkunum og þá einkum hjá sósíalistum. Þeir hafa ekki farið dult með það, síðan úr þess varð nokkur alvara, að svona till. yrði samþ., að þeim væri ógeðfellt að nokkur sjálfstæðismaður komi nálægt þessari n. Hæstv. atvmrh. lét það skína í gegnum sínar ræður við fyrstu umr. þessa máls, að hann fyrir sitt leyti væri ekkert á móti því, að svo yrði, og hefir hann þá sennilega ekki talað í nafni síns flokks. En þessi skoðun hefir víst ekki átt marga áhangendur í hans flokki, því að það hefir komið greinilega fram, bæði í umr. hér á þingi og eins í blöðum jafnaðarmanna hér í bænum, að þeir vildu alls ekki, að sjálfstæðismenn kæmust í n. Þeir þykjast einfærir um að koma á stefnubreyt. í þessum málum hér á landi með aðstoð framsóknarmanna og vilja ekkert hafa með sjálfstæðismenn að gera í þessari n.

Ég vil benda á í sambandi við allt þetta, að engir menn tala eins mikið um lýðræði og einmitt þeir, sem eru í þeim tveim stjórnmálaflokkum, sem standa að Rauðku. Engir tala meira um nauðsyn þess að vernda lýðræðið og engir þykjast vera hræddari við fasista og nazista og allt einræði annað heldur en kommúnista, sem þeir venjulega deila lítið á, heldur en einmitt þessir stjórnmálaflokkar, sem standa að stjórninni. Hér höfum við spegilinn af lýðræðishugsjónum þessara manna. Óðara en þeir hafa náð meirihlutavaldi á þingi þjóðarinnar, vilja þeir nota þá aðstöðu til þess að koma af stað breyt. á þjóðskipulaginu, þó að þeir viti, að þeir hafa ekki meiri hl. kjósenda í landinu að baki sér. Þetta er út af fyrir sig sýnishorn af einlægni þessara manna í lýðræðismálunum. Útkoman er þessi, að þeir undiroka þá, sem eru minni máttar, eins og hægt er meðan þeir mega. Innan þessara veggja er, eins og vitað er, Sjálfstæðisflokkurinn örlítið minni máttar heldur en þeir tveir flokkar, sem standa að þessari n. M. ö. o. nota þeir þennan sinn mjög svo hæpna meiri hl. til þess að koma fram hreinu og beinu ofbeldi gagnvart minni hlutanum. Enginn maður, sem vill líta óhlutdrægt á þetta mál, getur komizt hjá því að samsinna því, sem ég hefi hér sagt. Þá er að benda á, hversu haldgóðar þessar ráðstafanir verða í framtíðinni, sem eru getnar og fæddar í svona mikilli synd frá lýðræðislegu sjónarmiði skoðað og síðan þrengt upp á meiri hl. þjóðarinnar af minni hl., sem af tilviljun fékk það vald í hendur. Hvað halda menn, að slíkar ráðstafanir verði haldgóðar, þegar þær eiga að útfærast í hinu daglega lífi þjóðarinnar, eins og þær eru undir komnar? Nei, löggjöf, sem byggð er á þeim forsendum, er hér hefir verið lýst, verður aldrei vel metin af þjóðinni; til þess er hún allt of flokkslituð og einræðislituð. En það er gefið í skyn, að ráða eigi bót á velferðarmálum þjóðarinnar. Ég vil nú spyrja: Mundi hygginn maður, sem vildi koma á umbótum, fara þannig að, að kúga algerlega meiri hl. þeirra manna, sem við þessar breyt. eða umbætur ættu að búa? Ég býst við, að flestir mundu svara því neitandi. Hygginn maður mundi ekki fara svo að ráði sínu. Hann mundi leita samvinnu við sem flesta af þeim mönnum, sem ættu að verða fyrir áhrifum af þessum ráðstöfunum, og þar með búa í haginn fyrir það, að þær breyt., sem hann ætlar sér að fá fram, mæti ekki fyrirfram andúð fyrir það, hvernig þeim var af stað komið. En um þetta hirðir ekki hæstv. núv. stj. Hún treystir sýnilega meira á valdið heldur en viðurkenningu þjóðarinnar fyrir því, hvað rétt sé og hollt. En það er reynsla fengin fyrir því, m. a. s. hér á landi, að varlega sé gerandi að treysta valdboði, sem ekki hefir mætt skilningi hjá meiri hl. þeirra, sem undir því valdi eiga að búa. Dæmin liggja ekki svo fjarri, að þörf sé að nefna sérstakt löggjafaratriði til þess að sýna, að ég fer hér með rétt mál.

Við sjálfstæðismenn höfum aldrei lagzt á móti því, að tekin væru atriði til rannsóknar, andlegs eða líkamlegs efnis, með aðstoð þings eða stjórnar, þegar að því hefir verið stefnt að lagfæra eða ráðstafa betur til lykta velferðarmálum þjóðarinnar. Við höfum heldur aldrei mótmælt því, að rannsókn á atvinnurekstri og þjóðarhag væri nauðsynleg. Við höfum sýnt þetta í verkinu með því — svo ég nefni síðustu dæmi — að gangast fyrir rannsókn og undirbúningi á umbótatill. bæði að því er snertir landbúnað og sjávarútveg, og er skemmst að minnast þeirrar n., sem skipuð var til þess að athuga um kreppumál bænda, og þá n., sem nýlega hefir lokið við rannsókn á hag sjávarútvegsmanna. Ennfremur mætti benda á þá n., sem skipuð var til rannsóknar á atvinnumálum þjóðarinnar, og var það mál afgreitt á næstsíðasta þingi með atkv. sjálfstæðismanna og annara hér á þingi. Þetta og margt fleira er til sönnunar því, að við höfum ekki lagzt á móti því, heldur greitt fyrir, að tekin væri til athugunar og nauðsynlegrar rannsóknar ýmiskonar atriði atvinnurekstrinum viðkomandi, með það fyrir augum að koma af stað endurbótum og viðreisn bæði til lands og sjávar. Við hefðum sannarlega ekki lagzt á móti því að skipuð væri n. með nokkuð víðara verksviði heldur en því, sem ég nefndi hér áðan, sem hefði haft til meðferðar ýms af þeim rannsóknaratriðum, sem talin eru hér í 1. gr. frv., ef það hefði verið undir okkur borið. En hæstv. ríkisstj. kaus nú að fara sínar götur í þessum málum og spyrja ekki sjálfstæðismenn til ráða, af því hún var fyrirfram í því ráðin, að veita þeim enga íhlutun hvað þessu rannsókn snerti, láta þá enga hlutdeild í henni hafa. Það er, eins og ég sagði, minni hl. þjóðarinnar, sem ætlar hér að ráða niðurlögum meiri hl. með þessu atferli. Hinsvegar hafa andmæli þau, sem við höfum beitt hér gegn þessari sérstöku og röngu aðferð, verið lögð út á verri veg af hæstv. stj. og liði hennar, og málið verið flutt þannig af þeirra hendi, að við værum á móti allri. rannsókn á þeim atriðum, sem nefnd eru í 1. gr. frv. En þetta er hin mesta firra, eins og ég hefi sýnt fram á. Hinsvegar erum við okkur þess fyllilega meðvitandi, að allt þetta rannsóknarbákn kemur ekki að neinn haldi í þjóðfélaginu, þegar til lengdar lætur, þegar til þess er stofnað á þann veg, sem ég hefi lýst og allir þekkja. Það er hér ekki um að ræða neina alvarlega tilraun af hálfu ríkisstj. til þess að ráða nokkra bót á neinu af því, sem aflaga fer í þessu landi. Það er ekki um að ræða ráðstöfun til að auka atvinnuna í landinu og létta kreppunni, eins og stundum er orðað. Það er einungis um það að ræða, að stj.flokkarnir vilja beita sínu minnihlutavaldi til þess að kúga meiri hl. þjóðarinnar. Þetta er einungis flokkspólitískt mál og það er það, sem verður fótakefli allra þeirra athafna, sem fylgja í kjölfar þessarar n. Það er þetta, sem hún að lokum veltur um, að vilja hundsa meiri hl. þjóðarinnar þegar vinna á að því, sem menn láta í veðri vaka, að séu till. til viðreisnar og bóta.

Ég vil að lokum minnast á þær alvarlegu ráðleggingar, sem forstjórar þjóðbanka landsins sendu hinu háa Alþ. í gær, að vísu viðvíkjandi einu vandamáli, sem fyrir þinginu liggur, og kannske því stærsta, en sem vel má þó heimfæra upp á hin önnur vandamál, sem verið er að glíma við. Þar er það látið uppi, sem samróma álit þeirra manna, er fara með peningamál landsins, að að þeirra dómi muni þessi mál skipast bezt með samtökum og samvinnu milli allra flokka. Þar er lítið á málið af hyggindum og viti. Þeim er það ljóst, að ef annar helmingur þjóðarinnar vill með harðrétti skipa málum hins helmingsins gegn hans vilja, þá verður hönd skamma stund höggi fegin. Þess vegna benda þeir hinu háa Alþ. á að ráða því máli, sem þar er um að ræða, fisksölumálinu, með samtökum milli allra flokka. Það hefði verið betur farið, ef hæstv. stj. hefði í því máli, sem hér er um að ræða, tekið hina sömu afstöðu eins og stj. þjóðbankans gerði hvað snerti fisksölumálið. Slík ráðstöfun hefði mælzt vel fyrir hjá allri þjóðinni og hefir raunar verið reynt hjá nágrannaþjóðum okkar, þegar veruleg vandamál hafa steðjað að, að menn hafa lagt alla flokkspólitík á hilluna og reynt að taka höndum saman til þess að ráða fram úr vandasömum atvinnumálum. En núv. ríkisstj. hefir því miður valið hinn verri kostinn og kosið að skipa þessum málum aðeins frá flokkspólitísku sjónarmiði. Þar með hefir hæstv. ríkisstj. ekki valið sér hið góða hlutskipti, og skiptir það út af fyrir sig litlu, því ríkisstj. fara og ríkisstj. koma, en fyrir heildarhagsmuni þjóðarinnar hefði það verið happasælla, að hæstv. stj. hefði borið gæfu til þess að líta á þessi umbótamál frá öðru sjónarmiði heldur en flokkspólitísku sjónarmiði.

Það má vel vera, að í augum hæstv. ríkisstj. séum við, sem ekki erum á sömu skoðun og hún um landsmál, svo lítils virði, að henni sýnist vel mega án okkar verka og okkar ráða vera, þegar ráðið er fram úr þeim vandamálum, sem nú steðja að þjóðfélaginu, en þau vandamál eru eins og allir vita, inn á við ekki síður en út á við, meiri og alvarlegri heldur en nokkurntíma áður hefir verið við að stríða. Það er náttúrlega ekki hægt um það að sakast fyrir okkur sjálfstæðismenn, hvernig hæstv. ríkisstj. metur okkar hæfileika, okkar vinnuþrek og okkar lífsreynslu. En þá kröfu verður hver þjóð að gera til ríkisstj., sem finnur til ábyrgðar sinnar á hverjum tíma, að hún blindist ekki af flokksofstæki, þegar um er að ræða að greiða fram úr aðsteðjandi örðugleikum, sem snerta afkomu og lífsbjargarmöguleika hvers einasta heimilis í landinu.

Við höfum orðið, sjálfstæðismenn, að ræða þessi mál við hæstv. stj. og flokka hennar á þessum vettvangi. Þeim er að vísu ekki ljúft að hafa okkur hér og ennþá leiðara er þeim, að við skulum hafa okkur svo í frammi að tala um þeirra ráðabrugg og ráðstafanir. En eins og til er stofnað geta þeir undan engu kvartað, þó að við notum rétt okkar til þess að ræða um þetta efni hér á Alþ., því þeir hafa sjálfir vendileka séð fyrir því, að í nefndinni komust okkar till., okkar álit og okkar gagnrýni á engan hátt að. Ég geri ráð fyrir, eins og ég sagði áðan, að það sé engum sjálfstæðismanni neitt keppikefli að komast í þessa n., og það sé þess vegna e. t. v. alveg óþarfi fyrir hv. þm. Hafnf. og hans nóta að hafa nokkrar hótanir í frammi um sína afstöðu til mála með tilliti til þess, að það geti skeð, að sjálfstæðismenn lendi í n. Ég geri ráð fyrir, að þetta sé kvíðbogi, sem kemur fullsnemma fram. En hitt vil ég vona, að þegar þar að kemur, að ráða til lykta þeim till. til þjóðnýtingar, sem von er á frá þessari n., í hvert sinn er þjóðnýtingarfrv. á hvaða sviði sem er verða lögð fram hér á Alþ., þá verði þar til sjálfstæðismenn til þess að taka á móti þeim og segja sitt álit á þeim, þó þeir verði ekki samstarfsmenn þeirra nefndarmanna, sem nú sitja á rökstólum.

Einn hv. þm. lét svo um mælt, að í þessa n. hefðu verið valdir hinir óhæfustu menn eða eitthvað á þá leið. Ég vil engan dóm á það leggja annan en þann, að þess virðist á engan hátt hafa verið gætt, að þeir menn, sem stj. skipaði í n., hefðu neinn kunnugleika af eigin reynd í nokkrum atvinnurekstri, svo að orð sé á gerandi. En hitt ætla ég, að fullyrða megi, að í hópi sjálfstæðismanna um land allt hefði ekki verið neinn vandi fyrir hæstv. stj. að finna menn til þessa verks, sem hefðu haft hæfileika fyllilega á borð við þá menn, sem nú vinna að till. og undirbúningi lagafrv. í skipulagsnefnd.

Ég vil nú vona það, að þegar til þeirrar höfuðorustu kemur, sem þessi n. á að undirbúa, þegar til þess kemur að ákveða, hvort þjóðnýtingarstefnan eigi að vera ríkjandi hér á landi eða ekki framvegis, þá muni gifta landsins fá því til vegar komið, að þetta þing sitji annar meiri hluti, röggsamari og þjóðhollari en sá, sem nú situr hér og hefir lagt sig undir einokunarhelsi sósíalistanna. Ég veit það, að svo heilbrigður hugsunarháttur er enn hjá þessari þjóð, að ennþá er svo mikil trú manna á mátt sinn og megin á sviði atvinnumálanna, að þessi þjóðnýtingarjarmur finnur ennþá ekkert bergmál hjá meiri hl. þjóðarinnar, hvorki til sjós eða sveita, þótt svo slysalega hafi til tekizt, að þetta þing er þannig skipað, að hver till., sem kemur fram og miðar í þá átt að hrifsa atvinnu frá einstaklingunum, að leggja framtak einstaklingsins í rústir, hún á sér visst fylgi meiri hlutans. Það mega þeir góðu menn vita, að þetta ástand ríkir ekki að eilífu á Alþingi Íslendinga, svo mikið af heilbrigði á þjóðin enn í atvinnulífinu. Og það er ég viss um, að sérstaklega úti um sveitir landsins verður sá boðskapur ekki talinn neinn gleðiboðskapur, sem hæstv. atvmrh. boðaði hér um daginn í sambandi við starf þessarar n., að henni væri ætlað það hlutverk fyrst og fremst að vinna að þjóðnýtingu.

Ég býst nú við, að það sé rétt, að ég stytti nokkuð mál mitt, og er við því búinn. Hæstv. forseti hefir verið þolinmóður, enda hefi ég stillt máli mínu vel í hóf, eins og allir hafa heyrt. En ég hefi ekki talað nema einu sinni við þessa umr., og býst ég því við, að þær aðrar aths., sem ég hefi að gera við þetta mál, geti ég komizt að með síðar meir, þegar þeir hv. þm. hafa talað, sem nú um stund hafa hvílt sig.