22.11.1934
Neðri deild: 43. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1926 í B-deild Alþingistíðinda. (2050)

73. mál, stjórn og starfræksla póst- og símamála

Frsm. (Gísli Sveinsson):

Herra forseti! Ég þarf ekki fyrir hönd samgmn. að hafa langa framsögu fyrir þeim brtt., sem öll n. flytur á þskj. 423. Þær hníga að því að gera ákvæði frv. gleggri og aðgengilegri, — áfram er haldið þeim höfuðtilgangi frv., að sameina póst- og símamál, en þó ekki ætlazt til, að þessi sameining fari eins ört fram og í öndverðu var ráð gert fyrir. Við samningu brtt. hefir verið stuðzt við álit landssímastjóra og póstmálastjóra, og að nokkru leyti við till. frá starfsmannafélagi póstmanna, þó að n. hafi ekki séð sér fært að taka upp nema lítið eitt af till. þessa síðastnefnda aðila. — Tilætlunin með 1. og 5. brtt. er sú, að ekki verði farið of fljótfærnislega að þessari sameiningu. Í 1. gr. frv. er rætt um sameiningu yfirstjórna þessara mála, og er þar tekið fram, að yfirstjórnandi póst- og símamála skuli vera einn og sami maður, en ekki nánar tiltekið, hvað fljótt þessi sameining skuli fara fram. N. vill þarna slá þann varnagla, að þessi sameining skuli þá fyrst fara fram, að sýnilegt sé, að fjárhagslegur hagnaður verði af henni, eða að sameiningin verði af öðrum ástæðum talin sérstaklega nauðsynleg, og verður þetta að byggjast á áliti þess ráðh., sem slík mál heyra undir. En rétt þótti að leggja áherzlu á það atriði, að sameiningin leiddi ekki af sér aukin útgjöld, heldur yrði fyrirkomulagið kostnaðarminna með því móti. — Brtt. við 5. gr. fer fram á líkt hvað snertir sameininguna úti um land, að því viðbættu, að það skal vera á valdi póst- og símamálastjóra, hvenær sameining fer fram. Nokkur uggur hefir verið í mönnum út af því, að rokið yrði til að sameina þessar stofnanir, líka þar, sem að því væri óhagur einn og kostnaðarauki. En fastlega má gera ráð fyrir því, að póst- og símamálastjóri sé svo kunnugur staðháttunum á hverjum stað, að þessi brtt. tryggi þetta atriði nægilega. Ég skal út af þessum brtt. og þeirri stefnu, sem þar kemur fram, lesa upp nokkur orð úr bréfi landssímastjóra til samgmn. (23. okt.). Þar segir svo (með leyfi hæstv. forseta):

„Þá vil ég leyfa mér að taka það fram, að ef sameinað verður, þá geng ég út frá því sem sjálfsögðu, að sameiningin úti um land verði að öllum jafnaði framkvæmd um leið og önnurhvor eða báðar stöðurnar losna ...., en ekki að lögin verði framkvæmd með hörku, uppsögn eða stöðumissi, þar sem þess er engin bein þörf“.

Sem hv. þm. sjá og heyra, er landssímastjóri sömu skoðunar og n. um þetta atriði. Framkvæmd sameiningarinnar á einstökum stöðum er lögð á vald yfirstjórnenda stofnananna, en sameining yfirstjórnanna er lögð á vald viðkomandi ráðh. — Hinar brtt. eru aðallega eftir till. landssímastjóra, t. d. brtt. við 2. gr., sem gerir ráð fyrir því, að laun þessara starfsmanna séu ákveðin í launal. Þá þykir sjálfsagt að ganga út frá, að núv. póstmálastjóri og landssímastjóri skuli einskis í missa vegna þessara ráðstafana, og er það í samræmi við þær reglur, sem venjulega er farið eftir með slík mál. Það hefir komið fram, síðan þessar brtt. voru samdar, að réttara myndi að breyta enn orðalagi einstakra gr., til betra samræmis við efni brtt. En n. taldi ekki ástæðu til þess fyrr en þá við 3. umr. — Ég geri ráð fyrir, að hv. þdm. verði sammála um þessar brtt., þar sem og fullt samkomulag hefir orðið um þær í n.