24.11.1934
Neðri deild: 45. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1932 í B-deild Alþingistíðinda. (2059)

73. mál, stjórn og starfræksla póst- og símamála

Jóhann Jósefsson [óyfirl.]:

Mér er ekki ókunnugt um álit landssímastjóra á þessu máli. Hv. þm. N.-Þ. sagði, að það réði alveg baggamuninn hjá sér, að landssímastjóri áliti óheppilegra, að þessi tillöguréttur væri hjá sveitar- og bæjarfélögum í þessu efni. Ég hefi mikla tilhneigingu til þess að bera virðingu fyrir landssímastjóra, sem er duglegur og vel metinn embættismaður, en mér finnst, að þótt hann sé þeirrar skoðunar, að þetta sé óþarfi, að bæjar- og sveitarstj. hafi þennan rétt, þá eigi mín till. fullkominn rétt á sér. Hv. 6. landsk. hefir lýst einu af hinum ótal sjónarmiðum, sem hér geta komið til greina úti um land. Ég skil þetta ákaflega vel, og þau geta verið svo staðbundin þessi sjónarmið og byggð á svo misjöfnum orsökum, að of langt yrði að fara að gera grein fyrir því hér. En miklu hyggilegra er, að þessir aðilar fái að láta í ljós sinn vilja í þessu efni, og það er ekkert annað, sem farið er fram á. Þótt hv. þm. N.-Þ. þyki þetta óþarfi, þá sé ég ekki, að það geti gert nokkurn óhagnað, en það getur orðið til þess að koma í veg fyrir, að almenningi séu bökuð mikil óþægindi sökum þekkingarleysis á staðháttum og aðstöðu, sem eðlilegt er, að komið geti fyrir hjá embættisskrifstofu suður í Reykjavík, ókunnugri hinum ýmsu stöðum úti um land.