05.12.1934
Efri deild: 53. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1934 í B-deild Alþingistíðinda. (2070)

73. mál, stjórn og starfræksla póst- og símamála

Jón Auðunn Jónsson:

Ég þakka hv. form. samgmn. fyrir það, að hann viðurkennir, að svona eigi það að vera og öðruvísi geti það ekki verið en að þeir, sem veita slíkum sameinuðum stöðum forstöðu, þurfi að hafa kunnáttu í símritun og vera færir um að annast slíkar landssímastöðvar, þar sem ritsímastöð er. En það er óþarfa viðkvæmni, þegar hann segir, að þetta sé sjálfsagt, að vilja ekki hafa þetta í frv.

Ég hygg, að það sé víðast búið að sameina póst og síma þar, sem ritsímastöð er, og þar hefir stöðvarstjórinn alltaf orðið að hafa fullkomið próf í símritun. En til þess að brtt. mín kæmi ekki of illa við póstmenn að neinu leyti, þá breytti ég henni, því að hún gat misskilizt þannig, að það ætti að vera hér aðalreglan, að ritsímastjóra eða stöðvarstjóra yrði falið þetta sameinaða starf, en það var ekki meining mín að leggja það til, heldur að tryggja það, að ritsímavarzlan væri í höndum þeirra manna, sem hefðu þekkingu til þess að starfrækja slíkar stöðvar, og það er ekki farið fram á annað í þessari till. á þskj. 663, og ég get ekki skilið, að póstmenn hafi neitt við það að athuga. Það gat verið ástæða til tortryggni í sambandi við till. á þskj. 637, en hana hefi ég nú tekið aftur. Ég sé því ekki annað en að það sé sjálfsagt að samþ. þá till., sem nú liggur fyrir. Póstmenn geta ekki haft neitt við hana að athuga, því að það mun ekki vera tilætlun þeirra að taka að sér ritsímavörzlu nema þeir hafi nauðsynlega sérþekkingu til þess.