10.12.1934
Neðri deild: 55. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1936 í B-deild Alþingistíðinda. (2079)

73. mál, stjórn og starfræksla póst- og símamála

Guðbrandur Ísberg:

Frv. þetta, sem nú er hér til einnar umr., hefir áður gengið gegnum þessa hv. d. Brtt. sú, sem ég hefi leyft mér að bera fram á þskj. 738, er ekki efnisbreyt., heldur kveður hún á um sjálfsagt atriði, sem ekki er tekið fram í frv., sem sé það, að þeir, sem á sínum tíma verða skipaðir forstöðumenn póst- og símastöðva, skuli skyldir að hafa nauðsynlegustu þekkingu á þessum málum. Það nær vitanlega engri átt, sem ég hefi heyrt, að komið hafi til orða, að skipa símastjóra fyrir stóra símstöð, sem aldrei hefir nærri símamálum komið. Það getur líka auðveldlega komið fyrir, að góður símamaður geti ekki gegnt póstafgreiðslustörfum svo nokkur mynd sé á, hafi ekki þekkingu á þeim málum. Það er alveg nauðsynlegt, að þeir menn, sem eiga að vera forstöðumenn póst- og símastöðva, a. m. k. hinna stærri stöðva, kunni símritun m. a. Ég vænti því, að hv. þdm. samþ. brtt. mína og slái því þar með föstu, að nauðsyn beri til, að forstöðumenn þessir hafi hina allra sjálfsögðustu þekkingu á þeim störfum, sem þeir eiga að hafa með höndum.