13.10.1934
Neðri deild: 9. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1669 í B-deild Alþingistíðinda. (2089)

60. mál, forðagæsla

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Þetta frv. um breyt. á forðagæzlulögunum er flutt af landbn. eftir ósk hæstv. forsrh. Það eru þrjú atriði, sem farið er fram á að breyta. Hið fyrsta er það, að forðagæzlumönnum er gert að skyldu að senda til Búnaðarfél. Íslands skýrslu um fóðurbirgðir hverjum úr sínum hreppi, að aflokinni haustskoðun. Til þess að krefjast slíkra skýrslna vantar nú alla lagaheimild, en það hefir komið í ljós, að oft getur verið þörf á því að fá á einn stað skýrslur um allar fóðurbirgðir í landinu, og er þá eðlilegast, að forðagæzlumennirnir gefi þær skýrslur.

Þá er í öðru lagi, að ráðh. er heimilað að krefja forðagæzlumenn, hvenær sem er og hann finnur ástæðu til, um það, hverjar séu horfur á fóðuröflun og fóðurbirgðum í umdæmi þeirra. Á þessu hefir oft verið þörf, eins og t. d. á árunum 1914 og 1920, en til þess hefir brostið alla heimild. Það er alls ekki gert ráð fyrir, að krefjast þurfi þessara skýrslna árlega, heldur aðeins þegar ástæða þykir til vegna vetrarharðinda eða lélegs heyafla á sumrum.

Þá er í þriðja lagi gert ráð fyrir, að forðagæzlumenn sendi skýrslur sínar, eða afrit af þeim, árlega til Hagstofu Íslands. Nú eru skýrslur þessar lagðar fyrir sýslunefndir og lesnar upp á hreppaskilum heima í sveitunum. Að öðru leyti kemur þessi fróðleikur ekki að gagni. Eins og nú er, þá eru búnaðarskýrslur okkar allmjög á eftir tímanum; þannig var t. d. útbýtt í dag skýrslunum fyrir árið 1931. Það er og vitanlegt, að framtalsskýrslunum ber alls ekki saman í mörgum tilfellum, og liggja til þess ýmsar ástæður. Fyrir nokkrum árum sannaði ég þetta í tveim sýslum, og var fé á fóðrum eftir forðagæzluskýrslunum um 10% fleira en eftir framtali. Þá vantar og allar skýrslur um vanhöld á búpeningi landsmanna, sem oft eru æði mikil. En með því að bera saman forðagæzluskýrslurnar haust og vor mætti komast nokkuð nærri um þau.

Það eru þessi þrjú atriði, sem frv. þetta hefir inni að halda, og vænti ég, að allir hv. þdm. sjái, að hér sé stefnt til hins betra, og flýti afgreiðslu málsins gegnum þingið, svo að það geti legið sem fyrst fyrir, hvernig ástandið er hér nú um ásetning landsmanna. Heyskapur hefir gengið illa. Athuganir sýndu, að mikið vantaði af fóðurbæti, og þá sérstaklega síldarmjöli, til uppbótar heyjunum. Það var því sérstök þörf á að tryggja, að nægilegt síldarmjöl væri til í landinu, og það var gert með því að banna útflutning á þessari vöru. Nú hafa tekizt viðunandi samningar um verð á þessu síldarmjöli. Það verður lítið eitt dýrara en í sumar. Eins og stendur eru til allmiklar birgðir, sem ekki hafa verið pantaðar, og liggur því næst fyrir að fá ábyggilegar upplýsingar um það, hvar þörfin er mest. Frv. opnar leið til þess að fá þær upplýsingar, og þess vegna vænti ég, að hv. þd. láti það fá sem hraðasta afgreiðslu.