13.10.1934
Neðri deild: 9. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1670 í B-deild Alþingistíðinda. (2090)

60. mál, forðagæsla

Sigurður Kristjánsson:

Ég vil spyrja hv. landbn. að því, hvort hún ætlast til, að þetta frv. komi í staðinn fyrir þá þáltill., sem við hv. þm. A.-Húnv. fluttum hér í d. í byrjun þings. Ég gat ekki skilið það fullkomlega af ræðu hv. frsm. eða af frv., en af ýmsu orðalagi frv. virðist þó sem svo sé. Þar er talað um, að ráðh. geti heimtað skýrslur af forðagæzlumönnunum, þegar hann álítur, að þörf sé á að gera ráðstafanir vegna fóðurskorts, og mun þetta ákvæði eiga að gilda fyrir þær aðgerðir, sem þáltill. fjallar um.

Ég varð þess strax var, er við fluttum þessa till., að hún var óvelkomin af stjórnarflokkunum. Ég get þó varla trúað því, að sú andstaða stafi af óvináttu til bænda. Slík andúð hefði sízt átt að koma frá þessum mönnum, sem hafa hlotið sína pólitísku upphefð sem ávexti af smjaðri sínu fyrir bændum nú um langa tíð. En ef ganga má út frá því, að frv. eigi að koma í stað þáltill. okkar, þá má segja, að það sé dálítið einkennileg aðferð, að bera nú loks fram þetta frv. þegar sláturtíð er langt komið. Þetta frv. á nú eftir að ganga í gegnum báðar deildir áður en það verður að lögum, og svo á eftir það að gera ráðstafanir til þess að tryggja ásetning í sveitum landsins. Það lítur út fyrir, að þeir menn, sem að frv. standa, hafi ekki hugsað út í það, að heppilegast væri að gera þær ráðstafanir áður en sláturtíð er lokið. Er engu líkara en að þeir hugsi sér, að það fé, sem vantar fóður samkv. þeirri rannsókn, verði haft í jóla- eða nýársslátrun, eða hver veit hvað. Þetta frv. minnir á þær ráðstafanir Síldareinkasölunnar, þegar hún sællar minningar flutti inn tunnur, þegar komið var fram á vetur, sem nota átti undir síld sumarið áður. Þannig er allt, sem gera á í þessu efni, mikið á eftir tímanum. En ef hv. landbn. er ráðin í því að seinka þessu máli svo, þá getum við hv. þm. A.-Húnv. ekki við það ráðið, fyrst hún ætlar að svæfa till. okkar. En ég get ekki látið hjá líða að vita hana fyrir slíka fjarstæðu, að hún skuli af persónulegum ástæðum leyfa sér að ónýta mál, sem til hennar hefir verið skotið, og vinna með því hlutaðeigendum kannske stórtjón, því að það má telja víst, að þær aðgerðir, sem frv. þetta gerir ráð fyrir, komi ekki að gagni í þetta sinn. Fyrst þarf að samþ. frv. í báðum deildum, og síðan á að fara að safna skýrslum. Þær aðgerðir, sem koma eiga að gagni nú, þarf að framkvæma fljótt, en ekki með þeim seinagangi, sem n. vill hafa á málinu.