13.10.1934
Neðri deild: 9. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1670 í B-deild Alþingistíðinda. (2091)

60. mál, forðagæsla

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Ég vil benda hv. þm. á það, að ákvæði þessa frv. eiga að ná til framtíðarinnar jafnframt því, sem þau eiga við það ástand, sem nú er. Það er búið fyrir löngu síðan að gera öruggar bráðabirgðaráðstafanir í málinu, en eftir þessu frv. á síðan að afla fullnaðarskýrslna um ástandið, svo að hægt sé að ráðstafa því fóðri, sem er fyrirliggjandi, til þeirra bænda, sem enn hafa ekki nægilegt fóður.

Kaupfélagsstjórar og hreppsnefndir hafa gefið skýrslur um ástandið. Í Skagafirði var t. d. haldinn fundur með oddvitunum o. fl. til þess að ræða málið, þar sem safnað var síldarmjölspöntunum úr héraðinu. Og Vilhjálmur Þór lét fara með pöntunarlista um alla Eyjafjarðarsýslu. Svo mætti lengi telja. Það er rétt að úr nokkrum hreppum eru ókomnar skýrslur, þar sem þó mun vera þörf fyrir síldarmjöl, bæði í Húnavatnssýslu, á Vestfjörðum og víðar; þess vegna er nauðsynlegt að fá fullnaðarrannsókn sem fyrst, svo hægt sé að ráðstafa því síldarmjöli, sem þörf kann að vera fyrir fram yfir það, sem þegar hefir verið pantað. Það er ekki fyrr en um miðjan þennan mánuð, sem skoðun forðagæzlumanna á að vera lokið, og þeir, sem þekkja til í sveitum, vita, að sú skoðun dregst víðast hvar nokkuð fram yfir þann tíma. Þess vegna ætti að vera hægt, ef vilji er með, að vera búið að afgr. þetta frv. frá Alþingi fyrir þann tíma, sem skoðunum er lokið.