13.10.1934
Neðri deild: 9. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1671 í B-deild Alþingistíðinda. (2092)

60. mál, forðagæsla

Jón Pálmason:

Eins og hv. frsm. landbn. tók fram, er landbn. sammála um þetta frv. Að svo miklu leyti, sem frv. getur náð til framtíðarinnar, verður að telja það þarft og gott, að Búnaðarfélag Íslands og ríkisstj. hafi á hverjum tíma þær upplýsingar í þessu máli, sem hægt er að byggja á.

Það er rétt, eins og hv. 6. þm. Reykv. tók fram, að till. okkar um rannsókn á fóðurþörf til viðbótar var óvelkomin af fylgiliði stj. hér í hv. d. Það var að skilja svo, sem allt væri í bezta lagi og búið væri að gera þær ráðstafanir í þessu máli, sem þyrfti, en þetta er hinn mesti misskilningur. Þó hv. síðasta ræðumanni hafi verið falið að safna pöntunum á síldarmjöli, sem stendur mega vitanlega vera þakklátir fyrir að var gert, það sem það nær, þá er ég ekki í neinum vafa um, að með þeirri söfnun hefir ekki fengizt fullnægjandi vissa um ástandið í þessum efnum. Ég veit, að kaupfélagsstjórinn í mínu héraði gaf það út í haust, að ekkert síldarmjöl væri þá lengur fáanlegt, og þýddi ekkert að panta það, og ég get hugsað mér, að svo hafi máske verið víðar. Það er því brýn nauðsyn á því að rannsaka þetta mál, ef hið opinbera ætlar að láta sig það skipta, og gera ráðstafanir, sem að gagni mega verða.

Viðvíkjandi þessu frv. gagnvart till. okkar hv. 6. þm. Reykv. skal ég taka það fram, að ég býst við, að frv. hefði getað gert sama gagn og till., ef því hefði verið hraðað. En nú hafa bæði þessi mál legið lengi fyrir hv. landbn., og svo er ekki séð, hve fljótt frv. gengur gegnum þingið. En það er vitanlegt, ef ríkt verður eftir því gengið, að forðagæzlumenn sendi skýrslur sínar, að þá fyrst er hægt að fá ljóst yfirlit um ástandið. Ég get efazt um, að allir skilji það, og því vil ég taka það fram, að hér er hættulegt mál á ferðinni. Íslenzkir bændur eru illa staddir, ef harðindi ber að höndum, þrátt fyrir forðagæzlu, fóðurbirgðafélög og annað, sem gert hefir verið til þess að tryggja ásetninginn. Það er augljóst, að ekki eitt einasta hérað á landinu hefir haft sæmilegan heyásetning öll hin góðu ár, sem að undanförnu hafa verið í landi. Eftir öll þessi góðu sumur og þessa góðu vetur hafa á hverju vori fleiri eða færri meðal bænda gefið upp sinn fóðurforða. Ég verð að segja það, að þegar ég hugleiði þetta ástand, þá fyllist ég hryllingi við tilhugsunina um það, hvernig fer, ef koma regluleg harðindi. Og þetta kemur ekki til af góðu. Liggja tvær ástæður einkum til. Fyrst sú, að fjárhagsástæður bænda eru svo aumar, að ýmsir þeirra telja sig neydda til að tefla á tæpasta strá og björtustu von með ásetninginn. Hin er sú, að fólk til heyöflunar er oft ekki fáanlegt. Þó fyrirhyggjusömustu menn í hverju byggðarlagi tryggi jafnan pening sinn í þessum skilningi, þá sýnir reynslan, að svo er eigi almennt. Það er því vissa fyrir, að ráðstafanir forðagæzlulaganna koma hér ekki að tilætluðum notum. Þó svo sé fyrir mælt, að haustskoðun eigi að fara fram fyrir 15. október, þá fer fjarri, að svo sé.

Ég tel, að frv. það, sem fyrir liggur, stefni í rétta átt, og þess vegna eigi að hraða afgreiðslu þess. Einkum og sérstaklega þarf þó að hraða öflun upplýsinga um ástandið, ef Alþingi ætlast til, að eitthvað verði gert til að varna vandræðum á þessum vetri. — Ég hefi svo ekki fleira að segja um málið, en skal taka það fram, að ef afgreiðslu frv. verður hraðað svo sem framast er hægt, og það vil ég vona, að hæstv. forseti og hv. þd. geri, þá tel ég, að frv. geti komið í stað þeirrar þáltill., sem við hv. 6. þm. Reykv. fluttum í þessu máli.