13.10.1934
Neðri deild: 9. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1677 í B-deild Alþingistíðinda. (2103)

60. mál, forðagæsla

Forsrh. (Hermann Jónasson) [óyfirl.]:

Eins og ég tók fram áðan, var það ekki ætlun mín að blanda mér inn í þessar umr., en ég vildi aðeins taka það fram út af þeim orðum, sem féllu hjá hv. 7. landsk. og öðrum hv. þm., að þeir blanda saman tveim atriðum. Þegar leitað var til Búnaðarfél. Ísl. um að safna skýrslum um fóðurbætisþörfina, þá gerði það að till. sinni, að samþ. yrðu l. á þá leið, sem nú liggja fyrir þessari hv. d. Búnaðarfél. taldi sig ekki hafa heimild til þess að heimta þessar skýrslur, nema forðagæzlulögunum væri breytt. Það, sem því lá fyrir að gera í sumar, þegar stj. hafði enga aðstöðu til þess að heimta skýrslur, var að fá sem fyrst bráðabirgðaskýrslur, heildaryfirlit yfir fóðurbælisþörfina og ástandið eins og það var þá. En það má auðvitað deila um, hvort frekar hefði átt að gera það gegnum sýslumenn en kaupfélögin. Ég er þeirrar skoðunar, að betra hafi verið að gera það gegnum kaupfélögin, eins og gert var. Samkv. þessum bráðabirgðaskýrslum gerði stj. þær ráðstafanir, sem hún hefir þegar gert, að tryggja nægilega mikinn fóðurbæti í landinu. Ef beðið hefði verið eftir nákvæmum skýrslum frá forðagæzlumönnunum um þetta atriði, þá var það of seint, fóðurbætirinn hefði verið fluttur út. Það, sem nú er verið að gera, er að tryggja 300 tonn af fóðurbæti fram yfir það, sem bráðabirgðaskýrslurnar álíta nauðsynlegt. Þá er verið að safna nákvæmum skýrslum um það, hvað þarf á hvern blett áður en þessum fóðurbæti er útbýtt. Hér er því tvennu ruglað saman, bráðabirgðaskýrslum og fullnaðarskýrslum. Samkv. bráðabirgðaskýrslunum, sem þurfti að fá fljótt, gerði stj. þær ráðstafanir, sem hægt var að gera, og síðar verður fóðurbætinum úthlutað samkv. fullnaðarskýrslunum. Ég held því, að þær aðfinnslur, sem fram hafa komið út af því, að stj. hafi ekki gert það, sem þurfti að gera, séu á litlum rökum reistar, eins og kemur fram í öllum þessum umr. og rökræðum um málið.