13.10.1934
Neðri deild: 9. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1678 í B-deild Alþingistíðinda. (2105)

60. mál, forðagæsla

Jón Sigurðsson:

Út af því, sem hæstv. forsrh. sagði, vildi ég segja örfá orð. Hann talaði um það, að stjórn Búnaðarfél. hefði ekki talið sig hafa heimild til þess að heimta þessar skýrslur. Það var vitanlega rétt hjá Búnaðarfél. En það er jafnvíst, að hvort sem stj. eða Búnaðarfél. hefði beitt sér fyrir að afla slíkra skýrslna, þá hefði enginn forðagæzlumaður skotið sér undan að láta slíkar upplýsingar í té. Ástandið í landinu er þannig, að enginn almennilegur maður hefði hikað við að gefa nauðsynlegar skýrslur eins og á stóð.

Að öðru leyti gerði hæstv. ráðh. ekki annað en að staðfesta það, sem ég sagði, að þær skýrslur, sem safnað hefði verið, væru ekki annað en bráðabirgðaskýrslur, sem ekki gæfu nema lauslegt yfirlit, en væru engar fullnaðarskýrslur. (BA: Þetta vita allir). Hversvegna er þm. þá að halda því fram, að búið sé að gera allt, sem hægt er að gera? (BÁ: Allt, sem hægt er að gera á þessu stigi málsins). Nei, það gætu legið fyrir þinginu mikið fyllri og ábyggilegri skýrslur en nú eru fyrir hendi, ef stj. hefði farið rétta leið í þessu máli.