11.10.1934
Efri deild: 8. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1682 í B-deild Alþingistíðinda. (2136)

43. mál, prestssetur í Grundarþingaprestakalli

Bernharð Stefánsson:

Eins og sést á frv., er efni þess það, að heimila ríkisstj. að kaupa jörðina Syðra-Laugaland í Öngulsstaðahreppi fyrir 32 þús. kr. og færa þangað prestssetur í Grundarþingaprestakalli, en heimila jafnframt sölu á Saurbæ, sem nú er prestssetursjörð.

Frv. er borið fram eftir ósk prestsins í Grundarþingum, séra Benjamíns Kristjánssonar. Hann telur Laugaland hentugri prestssetursjörð en Saurbæ á ýmsan hátt, og er nánari grein gerð fyrir því í grg frv., þar sem vitnað er í bréf séra B. Kr. um þetta efni og birt bréf biskups til stjórnarráðsins út af erindi prestsins.

Ég vil taka undir það, að Laugaland sé betur í sveit sett en núv. prestssetursjörð. Laugaland er nær byggðarmiðju og þéttbýli meira í kring. Auk þess er jörðin Syðra-Laugaland að öllu samanlögðu hentugra prestssetur, sérstaklega með tilliti til þess, að þær ástæður eru fyrir hendi, að núv. prestur þarna í prestakallinu hvorki óskar eða hefir hentugleika til að reka stórt bú. Þess vegna hefir hann tekið það fangaráð að byggja alla jörðina Saurbæ. Ef þessi jarðakaup komast í framkvæmd, þá hugsa ég, að hann leigi afnot af meiri hl. Syðra-Laugalands. Með því að leigja Saurbæ hefir presturinn sjálfur ekki getað haft íbúð þar, af því húsakynni eru ekki það mikil, að þau nægi tveim fjölskyldum. Aftur eru húsakynni á Syðra-Laugalandi svo mikil, að þar getur hann hæglega búið, þó hann leigi meiri hl. jarðarinnar.

Auk þeirra ástæðna, sem mæla með því að flytja prestssetrið og ég þegar hefi nefnt, verð ég að telja ýmislegt annað, sem mælir með því, að ríkið kaupi Syðra-Laugaland. Þar er sem sé allmikill jarðhiti. Er það almennt viðurkennt, hve mikils virði sá kostur er. Það eru til gömul lög um stofnun kvennaskóla í grennd við Akureyri, ég held frá 1917. Þau lög hafa ekki komið til framkvæmda enn, en nú er vöknuð mikil hreyfing um þetta mál þar nyrðra, og hefi ég ekki orðið annars var en að allir telji, að heppilegasti skólastaðurinn sé Syðra-Laugaland. Auk þessa má geta þess, að í Öngulsstaðahreppi, þar sem jörð þessi er, hefir mikið verið talað um að reisa barnaskóla, og hefi ég heyrt talað um Syðra-Laugaland sem skólasetur. En þessir skólar, hvort heldur eru einn eða tveir, geta ákaflega vel samrýmzt því, að þarna verði prestssetur. Þannig virðist allt mæla með því, að hið opinbera þurfa að eiga jörðina.

Við flm. höfum samið frv. þannig, að af samþykkt þess á ekki að leiða nein teljandi útgjöld fyrir ríkissjóð. Það stendur þannig á, að ábúandinn í Saurbæ vill gjarnan kaupa jörðina, og eftir upplýsingum, sem ég hefi fengið, er hann ekki frá því að gefa fyrir hana fasteignamatið, sem er rúmlega 29 þús. kr. Það eru því aðeins tæplega 3 þús. kr., sem ríkið mundi þurfa að gefa milli jarðanna, og sú upphæð er ekki meiri en gefandi er fyrir þau margvíslegi þægindi, sem Laugaland hefir fram yfir Saurbæ. Auk þess vita allir kunnugir, að Syðra-Laugaland er miklu líklegra til búskapar heldur en Saurbær. Þegar allar þessar ástæður eru metnar, verður að líta svo á, að það sé hagur fyrir ríkið að selja Saurbæ fyrir rúmlega 29 þús., en kaupa Syðra-Laugaland fyrir 32 þús. kr.

Nokkur fleiri gögn en þau, sem fylgja grg., eru til um þetta mál, en því miður hefi ég þau ekki við hendina nú, en ég mun geta útvegað þau þeirri n., sem væntanlega fær málið til umsagnar. — Ég óska svo, að frv. verði vísað til 3. umr. og allshn., að lokinni þessari umr.