20.10.1934
Efri deild: 17. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1683 í B-deild Alþingistíðinda. (2138)

43. mál, prestssetur í Grundarþingaprestakalli

Frsm. (Ingvar Pálmason) [óyfirl.]:

Allshn. leggur til, að frv. þetta verði samþ. En við tveir nm., hv. 4. þm. Reykv. og ég, höfum leyft okkur að bera fram brtt. á þskj. 133, þess efnis, að heimildin um sölu Saurbæjar falli niður. Tel ég rétt að gera grein fyrir þessari brtt. með nokkrum orðum.

Ég hefi jafnan litið svo á, að lög um sölu kirkjujarða og þjóðjarða hefðu aldrei átt að ganga í gildi. Þetta var einmitt eitt þeirra mála, sem fyrst vakti athygli mína á opinberum málum. Er hv. deild kunn þessi afstaða mín vegna afskipta minna af þessum málum í þinginu, er þau hafa verið hér til umr. Ég tel rétt að geta þess um leið, að reynsla sú, sem fengizt hefir af þessari sölu, hefir sannfært mig ennþá betur um, að þessi skoðun mín sé rétt. Ég efast eigi um, að tilgangurinn með jarðasölulögunum hafi verið góður, en reynslan hefir sýnt, að sá tilgangur hefir eigi náðst með lögunum. Það hefir komið fram frá byrjun, að sjálfseignarbændum hefir eigi fjölgað við þessa breyt., en einkum hefir þetta komið fram á síðari árum, þegar þeir féllu frá, sem fyrst keyptu. Það er raunar ekki þörf á að nefna dæmi um þetta, því að reynslan hefir sannað, að strax eftir fyrsta lið hafa jarðirnar yfirleitt gengið út sjálfsábúð. Ég skal þó leyfa mér að nefna eitt dæmi, sem sýnir, að þessi lög hafa beinlínis stutt að því, ásamt öðrum örðugleikum, að bændur flosnuðu upp. Fyrir 44 árum þekkti ég til á kirkjujörð einni á Austurlandi, þar sem tveir bændur, báðir vel efnaðir, bjuggu með mikilli rausn. Tóku tengdasynir þeirra síðan við búinu og jörðinni og höfðu áhuga á því að kaupa jörðina, eins og gerist og gengur um unga menn. Þeim tókst að fá jörðina keypta. Síðan þurfti að hýsa hana, og var byggt reisulegt íbúðarhús. Þetta varð bændunum ofurefli og þeir urðu að gefa jörðina upp í hendur lánsstofnunar. Jörð þessi mun hafa verið keypt fyrir um 8000 kr. og síðan hýst fyrir ekki minna en 20000 kr. Þessi jörð var boðin fyrir 10000 kr. á síðari árum, og var það a. m. k. stoð til þess, að útlendingar keyptu hana. Það má gera ráð fyrir því, að þótt hún hafi ekki verið seld útlendingum, þá sé hún samt ekki í sjálfsábúð. Hún er nú á því stigi, að það má gera ráð fyrir, að hún verði ekki eftirsótt. Mér er það ljóst, að það mál réði minna kaupunum en margt annað, en samt var það ein af ástæðunum fyrir því, hvernig fór.

Þess eru mörg dæmi, að jarðir hafa verið keyptar af ábúendum og seldar öðrum samdægurs. Með þessu móti hafa jarðirnar komizt í brask. Ég hygg, að ef vel væri athugað, væru fleiri þjóð- og kirkjujarðir komnar núna úr sjálfsábúð. Það er vitanlegt, að þegar liðinn er fyrsti ættliður, eru erfiðleikar um sjálfsábúð. Það getur verið eðlilegt og laust við allt brask. Það getur komið fyrir, að jarðeigandi eigi 6 —7 erfingja, og þá er eðlilegt, að aftur fari fram kaup á jörðinni. Álít ég, að með þessu fyrirkomulagi sé hver kynslóðin eftir aðra að kaupa sömu jörðina. Sú ástæða er ströng og gerði það að verkum, að ég tala um, að kirkju- og þjóðjarðasölulögin séu ekki spor í rétta átt. Ég álít því, að það, sem átti að tryggja með þjóðjarðasölulögunum, megi alveg eins tryggja með heppilegri löggjöf um erfðafestu. Það fyrirkomulag, að hver kynslóðin á fætur annari sé að berjast við að borga verð sömu jarðarinnar, er slæmur búskaparrekstur. Ég hygg, að ekki sé hægt að mótmæla þessu með óhrekjanlegum rökum, enda þótt allt geti gengið vel, þegar um sjálfsábúð er að ræða. Ef hver sjálfsábúðarbóndi ætti aðeins einn erfingja og alltaf væri tryggt, að sá erfingi vildi búa á jörðinni sjálfur, þá væri allt gott og blessað. En nú er þetta ekki svo, og það verður að taka á hlutunum eins og þeir eru. Mér finnst ástæða til þess að rökstyðja till. okkar hv. 4. þm. Reykv. með þessum orðum. Ég skil hinsvegar, að rétt er, að stj. fái, um leið og hún fær heimild til þess að kaupa Laugaland, heimild til þess að selja Saurbæ, til þess að hægt sé að fara í einskonar „makaskipti“. Ég álít þetta ekki alveg bráðnauðsynlegt fyrir ríkissjóð, því að afborganir af kaupverði Laugalands eru ekki svo miklar, að um mikil útgjöld geti verið að ræða fyrir ríkissjóð á ári hverju. Það má gera ráð fyrir því, að með því að ríkissjóður kaupi þessa jörð aukist tekjur kirkjujarðasjóðs um það, sem nemur eftirgjaldi af Laugalandi. En ég skal játa, að svo er ástatt, að nokkur ljóður er um það, hvort hægt sé að nota eftirgjald það, sem fæst í framtíðinni fyrir Saurbæ, til afborgunar af kaupverði Laugalands. Ég hygg, að eftirgjaldið fyrir Saurbæ muni renna í prestlaunasjóð. Ég hygg, að afborganir af kaupverði Laugalands verði kirkjujarðasjóður að greiða. Þetta er að vísu nokkur ástæða fyrir því, að borin hefir verið fram heimild til þess að selja Saurbæ. Ef brtt. okkar hv. 4. þm. Reykv. verður samþ., tel ég, að úr þessu mætti bæta með brtt. þeirri, sem borin er fram við frv., við 3. umr., um það, að heimila ríkisstj. að láta afgjaldið af Saurbæ ganga upp í greiðslu á afborgunum af jarðarverði Laugalands. Ég hefi ekki borið það undir fróða menn, hvort þetta gæti gengið, en mér datt í hug, að gera mætti ráð fyrir því, að hv. deild athugi þetta. Ég vil leggja því lið, að sú breyt. verði gerð. — Það er ekki ástæða til þess að fjölyrða frekar um þetta að sinni.

Ég tel rétt að taka það fram, að þótt við hv. 4. þm. Reykv. flyttum þessa brtt., gerum við hana ekki að skilyrði fyrir því, að frv. gangi fram. Ég tel mjög mikils virði, að ríkið eignist Laugaland, þótt sá böggull fylgi skammrifi, að önnur jörð fylgi með, sem óþarfi er að selja, og mun ég ekki láta það verða til þess, að ég setji fót fyrir frv. Læt ég það svo ganga undir úrskurð hv. d., hvort hún fellir brtt. okkar hv. 4. þm. Reykv.