20.10.1934
Efri deild: 17. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1688 í B-deild Alþingistíðinda. (2142)

43. mál, prestssetur í Grundarþingaprestakalli

Sigurjón Á. Ólafsson:

Ég hefi gerzt meðflm. að þessari brtt., en hv. 2. þm. S.-M. hefir nú talað svo rækilega fyrir henni, að ég hefi þar litlu við að bæta.

Þótt ég hafi ekki átt því láni að fagna að kynnast hinu fagra Eyjafjarðarhéraði af eigin reynd og sjón, virðist mér samt, eftir þeim upplýsingum , sem ég hefi getað aflað mér, að margt mæli með því, að ríkið kaupi Laugaland. Jörðin er vel í sveit sett og því heppileg fyrir Prestssetur, og auk þess eru þar náttúrugæði, sem geta orðið dýrmæt með tímanum, þar sem eru hinar heitu laugar. Líklegt er, að hér sé fundinn heppilegur staður fyrir skólasetur í Eyjafirði. Allt mælir þetta með því, að ríkið eignist þessa jörð. Kaupverðið, 32 þús. kr., sem á að greiðast á mörgum árum, er ekki heldur svo hátt, að það sé nein frágangssök.

En eini ágreiningurinn í þessu máli er sá, hvort selja eigi Saurbæ í staðinn, til þess að fá á þann hátt fé til að borga Laugaland. Mér er sagt, að þetta gamla, sögufræga prestssetur sé að ýmsu leyti kostajörð, landrúm og vel fallin til jarðræktar. Ég get ekki séð neinn hag í því fyrir ríkið að selja þær jarðir, sem hafa góð ræktunarskilyrði.

Það er stefna mín og míns flokks, að ríkið eigi að eignast jarðir, en ekki selja þær. Hér er því um stefnumál að ræða, eins og heyra mátti á ræðu hv. 2. þm. Rang., er hann sagði, að hann sæi sér ekki fært að greiða atkv. með frv., ef brtt. okkar yrði samþ., enda er það í samræmi við stefnu hans flokks, að selja allar þjóðjarðir. Hér kemur því fram skýr stefnumunur, sem ég vil, að hv. þdm. geri sér ljósan.