20.10.1934
Efri deild: 17. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1690 í B-deild Alþingistíðinda. (2145)

43. mál, prestssetur í Grundarþingaprestakalli

Magnús Guðmundsson:

Mér finnst þetta hagstæð makaskipti fyrir ríkissjóð. Ég er alveg sammála hæstv. forsrh. um það, að í þessu máli þarf ekki að taka afstöðu til þess „princips“, hvort jarðir eiga að vera ríkiseign eða ekki. En vegna þeirra ummæla ráðh., að verðið á Laugalandi væri of hátt fyrir ríkið, vil ég benda á það, að kaupverðið mun ekki vera tiltölulega hærra en fasteignamatsverð. Eftir þessu myndi hæstv. ráðh. ekki vilja kaupa jarðir handa ríkinu nema í hæsta lagi fyrir fasteignamat, þó að hann færi að framkvæma slík kaup, og vona ég, að bið verði á því, að bændur landsins verði svo aðþrengdir, að þeir fari að selja jarðir sínar um eða undir fasteignamatsverði, sem venjulega er langt fyrir neðan venjulegt söluverð.

Ég vildi gjarnan spyrja, hvort mismunurinn á jarðarverðunum eigi að greiðast úr ríkissjóði eða kirkjujarðasjóði, ef af þessum makaskiptum verður. (BSt: Að sjálfsögðu úr kirkjujarðasjóði).