20.10.1934
Efri deild: 17. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1691 í B-deild Alþingistíðinda. (2149)

43. mál, prestssetur í Grundarþingaprestakalli

Forsrh. (Hermann Jónasson):

Það er óþarfi að eyða um þetta mörgum orðum. Ég vil aðeins upplýsa það, að það er ekki hægt að fara eftir því, sem stendur um fasteignamatið í þskj., því að það er búið að taka nokkuð undan jörðinni síðan matið fór fram. (MG: Hvað er það?). Það getur hv. þm. athugað, en ég veit ekki, hvað það er mikið. Viðvíkjandi því, sem hv. þm. blandaði inn í umr. um verð á þessum jörðum, þá kemur það málinu í raun og veru ekkert við, þegar það er athugað, sem allir menn eru sammála um, að verðlagið á þessum jörðum er sæmilegt, miðað við hlutfall þeirra hverrar til annarar og samanborið við frjálst framboð. Saurbær er seldur fyrir frjálst framboð, og sá, sem á Syðra-Laugaland, býður jörðina fyrir þetta verð; hann segir sjálfur, að jörðin sé sér ofviða og vill því losna við hana. Þarna er um skipti á jörðum að ræða, og ég tel vafalaust, eins og hv. 1. þm. Eyf. hefir haldið fram, að verðlagið á þessum jörðum sé tiltölulega gott, miðað við það, sem boðið er í Saurbæ í frjálsu framboði.