27.10.1934
Neðri deild: 21. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1694 í B-deild Alþingistíðinda. (2163)

43. mál, prestssetur í Grundarþingaprestakalli

Páll Zóphóníasson:

Ég vænti þess, að hv. n. athugi fyrir næstu umr., hversu mikið hefir verið selt úr landi þessarar jarðar síðan hún var metin. Sömuleiðis það, að hve miklu leyti vatnsréttur sá, sem jörðinni fylgdi, fylgir henni áfram, og að hve miklu leyti hann hefir verið lagður undir sundlaug þá, sem þar er komin.

Hv. 8. landsk. leyfir sér að fara með staðleysu stafi, er hann segir, að ábúandinn vilji fyrir hvern mun kaupa jörðina. Hann segist helzt vilja vera kyrr. Get ég sýnt hv. þm. fram á þetta. En ef á að selja jörðina í hendur öðrum, þá vill hann kaupa hana, enda þótt það sé honum mörgum sinnum verra. En helzt vill hann vera kyrr og búa við sanngjarnt afgjald. Sóknarprestur ábúanda var hér á ferð nýlega, og staðfestir hann þetta. Ég get fengið fleiri heimildarmenn, ef þörf gerist. Hvers vegna skyldi maður vilja kaupa jörðina, sem hann getur leigt fyrir afgjald, er ekki nemur meiru en 2½% árlega af jarðarverðinu, eftir því sem hv. 8. landsk. segir? En e. t. v. er líka eitthvað bogið við þær upplýsingar hans, eins og fleiri.