16.10.1934
Neðri deild: 11. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1700 í B-deild Alþingistíðinda. (2216)

67. mál, útflutningsgjald af síld til hlutaruppbótar sjómönnum

Frsm. (Finnur Jónsson):

Sjútvn. flytur þetta frv. eftir tilmælum ríkisstj., en einstakir nm. hafa óbundnar hendur með að bera fram brtt. við frv.

Eins og frv. ber með sér, miðar það að því að bæta nokkuð upp hlut þeirra manna, sem stunduðu síldveiðar á síðastl. sumri, sem í mörgum tilfellum var mjög lágur. Nú hefir það verið svo, að útflutningsgjald af síld hefir verið miklu hærra en af öðrum sjávarafurðum. Það liggur nú fyrir þinginu frv. um að breyta þessu þannig, að það verði eins og af fiski og öðrum útfluttum sjávarafurðum. Að þessu sinni er till. um, að mismuninum á því útflutningsgjaldi, sem greitt er af síld, og venjulegu útflutningsgjaldi verði varið til uppbótar á hlut sjómanna, sem stunduðu síldveiðar síðastl. sumar, af því að síldarverðið lækkaði í sumar niður í 5 kr. á tunnu. Nú mætti líta svo á, að eitthvað af þessari endurgreiðslu ætti að ganga til útgerðarmanna, en í raun og veru er hér um tollendurgreiðslu að ræða, þó það sé kölluð hlutaruppbót. En svo ef litið er á það, að það var mikið samtakaleysi útgerðarmanna að kenna, að síldarverðið var ekki hærra en það var, þá er sanngjarnt, að uppbótin gangi öll til sjómanna.

Í öðru lagi eru skráningarkjör sjómanna, a. m. k. hér í Reykjavík, þannig, að ef tollurinn fæst endurgreiddur, verða útgerðarmenn að greiða í kr. fyrir tunnuna, svo það kemur nokkuð í sama stað niður, hvor leiðin yrði valin. Sú uppbót, sem hér er um að ræða, nemur sennilega um 120 þús. kr., eða eitthvað þar um bil, og yrði það um 100 kr. á hlut, eftir því hve mikið menn hafa aflað. Í öðru lagi mætti líta svo á, að sanngjarnt væri, að þeir, sem minnst fiskuðu, fengju hæsta uppbót, en hér er í rauninni um endurgreiðslur eftir hlutaskiptum að ræða, og það yrði litið svo á, ef það yrði jafnað þannig, að þeir fengju mest, sem minnst hefðu aflað, þá væri verið að taka af þeim, sem hefðu aflað sæmilega og leggja til þeirra, sem litið hefðu aflað. Það er þess vegna í fullu samræmi við hlutaskiptin að veita uppbótina eins og gert er ráð fyrir í frv., enda er frv. samið í samráði við fulltrúa frá sjómannafélaginu.

Læt ég svo útrætt um þetta mál að sinni og óska, að því verði vísað til 2. umr. og að það fái sem greiðastan gang í gegnum þessa hv. deild.