18.10.1934
Neðri deild: 13. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1703 í B-deild Alþingistíðinda. (2222)

67. mál, útflutningsgjald af síld til hlutaruppbótar sjómönnum

Frsm. (Finnur Jónsson):

Það er rétt, að þetta frv. er flutt vegna þess, að það er álitið, að hlutur sjómanna hafi síðastl. sumar verið of lítill. En jafnframt er það flutt af því, að það hefir verið álitið, að útflutningsgjaldið af síldinni hafi verið óréttlátt. Alþfl. hefir hvað eftir annað reynt að fá þessu kippt í lag. En það hefir ekki gengið þrátt fyrir það, þótt flokkur hv. 6. þm. Reykv. hafi haft meirihl. aðstöðu hér á þingi og talið sig sérstaklega vilja sjá um hagsmuni sjávarútvegsmanna. Nú liggur hér fyrir í þessari hv. d. frv. til l. um að útflutningsgjaldið af síldinni verði eins og á öðrum sjávarafurðum, m. ö. o., að því verði breytt í verðgjald. Ég lít nú svo á, og þeir, sem sömdu frv. þetta, sem voru ráðamenn sjómannafél. hér í Rvík, að þetta beri að skoða sem endurgreiðslu og að sjómönnum beri að fá hana í hlutfalli við þá tunnutölu, sem þeir hafa veitt til söltunar á þessu ári. Það var litið svo á af forráðamönnum sjómannafél., að það væri beinlínis rangt að leggja annað til grundvallar fyrir úthlutun hlutaruppbótarinnar heldur en venjuleg hlutaskipti, sem eiga sér stað á meðal sjómanna. Ég mótmæli því þessari brtt. á þskj. 130 og óska, að frv. verði vísað óbreyttu til 3. umr.