18.10.1934
Neðri deild: 13. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1703 í B-deild Alþingistíðinda. (2223)

67. mál, útflutningsgjald af síld til hlutaruppbótar sjómönnum

Jóhann Jósefsson:

Það er víst, að fulltrúar Sjálfstfl. hér á þingi, sem sæti áttu í sjútvn., hafa engu síður — og þó miklu fremur — en fulltrúar Alþfl. unnið að því að fá nokkurt réttlæti í útflutningsgjaldið, að því er snertir síldarafurðir. Mér finnst þess vegna — þó að ég vilji nú ekki vekja deilur um þetta —, að hv. þm. Ísaf. hefði getað sparað sér það að reka hníflana í Sjálfstfl. út af þessu máli sérstaklega.

Út af brtt. vil ég segja það, að mér virðist það liggja alveg ljóst fyrir, hvernig úthluta skuli hlutaruppbót þeirri, sem hér ræðir um, þ. e. a. s. ef í því efni á að fara eftir því, sem sanngjarnt er, ef þetta á að verða sannkölluð hlutaruppbót. Þá á að haga úthlutun uppbótarinnar svo sanngjarnlega, að þeim sé bætt mest upp, sem minnstan hafa haft hlut og því hafa orðið verst úti á vertíðinni í sumar, eins og við hv. 6. þm. Reykv. leggjum til í brtt. okkar. Ég hygg, að enginn hv. þdm. treystist til að mæla á móti því, að þessir menn hafi mesta þörfina á hlutaruppbótinni fyrir sig og sín heimili. En það, hvað forráðamenn sjómannafél. í Rvík og Hafnarfirði vilja um þetta atriði, hefir engin áhrif á það, hvað sanngjarnt er og rétt í þessu máli. Og þessir fulltrúar, þótt þeir ráði miklu í sínum félagsskap, geta þó tæplega skoðazt bærir til að segja þm. fyrir um gerðir sínar. Þrátt fyrir vilja sjómannafél. hlýtur þó hver þm. að gera það, sem honum finnst réttast í málinu, og það hefi ég bent á. Við, sem í verstöðvunum búum, vitum, hvor hefir meiri þörf á uppbót, sá, sem kemur heim úr vertíð með sæmilegan hlut, eða hinn, sem kemur heim tómhentur.