18.10.1934
Neðri deild: 13. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1704 í B-deild Alþingistíðinda. (2225)

67. mál, útflutningsgjald af síld til hlutaruppbótar sjómönnum

Frsm. (Finnur Jónsson):

Ég get látið hinar persónulegu aðdróttanir hv. 6. þm. Reykv. til mín liggja milli hluta. En út af þeim fullyrðingum hv. þm. Vestm. og hv. 6. þm. Reykv., að Sjálfstfl. hafi jafnan verið fylgjandi því, að útflutningsgjald á síld yrði fært niður í verðtoll, vil ég benda á þá staðreynd, að Sjálfstfl. hefir undanfarin þing verið nægilega mannmargur til að koma þessu fram, en þó ekki hreyft til þess legg eða lið. Það er fyrst þegar jafnaðarmenn eru komnir í stjórnaraðstöðu, að þessari sjálfsögðu breyt. er komið í framkvæmd. Þeir sjálfstæðismenn, sem setið hafa á undanförnum þingum, vita vel, að þetta er rétt.

Það má ef til vill líta á frv. með tvennu móti, sem styrk eða sem endurgreiðslu, og þá er það algert brot á öllum venjum um hlutaráðningu, að þeir fái mest, sem minnst afla. Og eftir þeim skoðunum, sem sjálfstæðismenn sjálfir hafa haldið fram hingað til, ætti það að verða til þess, að aflamennirnir legðu árar í bát, að þeir væru látnir bera minna úr býtum en þeim ber. Það er engin sönnun fyrir því, að hér sé ekki um endurgreiðslu að ræða, að ekkert af tollinum á að renna til útgerðarmanna. Því að samkv. samningum milli sjómanna og útgerðarmanna síðastl. vor hefðu útgerðarmenn orðið að greiða sjómönnum hlut úr 7 kr. afla, hefði tollurinn verið endurgreiddur útgerðarmönnunum sjálfum.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða meira um þetta mál. Hv. þm. haga atkv. sínu um það eftir því, hvort þeir álíta, að hér sé um styrk eða endurgreiðslu að ræða, og hvort þeir álíta, að Alþingi eigi að ganga inn á þá braut að jafna hlut milli sjómanna þvert ofan í allar hlutaskiptareglur.