18.10.1934
Neðri deild: 13. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1705 í B-deild Alþingistíðinda. (2226)

67. mál, útflutningsgjald af síld til hlutaruppbótar sjómönnum

Ólafur Thors:

Ég vil taka það fram, að Sjálfstfl. hefir staðið um það næstum óskiptur í mörg ár að lækka síldartollinn niður í venjulegt útflutningsgjald. En þeir gátu ekki fengið jafnaðarmenn í lið með sér til að fá því framgengt, vegna sambands þeirra við Framsfl., því að þá var ekki enn svo komið, að sósíalistar réðu alveg yfir þeim flokki eins og nú.

Það er alveg tvímælalaust, að hér er um styrk að ræða, en ekki endurgreiðslu. Það er fullvíst, að ef útkoman hjá sjómönnum hefði ekki orðið eins bágborin eftir síldarvertíðina og raun varð á, þá hefði frv. þetta ekki komið fram, eða a. m. k. ekki náð lögfestu, svo þröngur sem fjárhagur ríkissjóðs nú er. En nú hefir útkoma sjómanna eftir sumarútgerðina reynzt svo slæm, að rétt og óhjákvæmilegt hefir þótt að bæta þeim hið lélega hlutskipti þeirra upp að einhverju leyti. Og um leið og í sambandi við þá uppbót hefir svo þótt sjálfsagt að nota tækifærið til að fella niður hinn óvinsæla og rangláta síldartoll. Hinsvegar er það alveg rétt, að það hefir jafnan verið skoðun Sjálfstfl. og er það enn, að menn eigi að bera arð úr býtum í hlutfalli við afla sinn. Með því er ætlað að hvetja til framtaks. Og sömu skoðun myndi flokkurinn hafa í þessu máli, ef hér væri um ákvarðanir að ræða, sem gilda ættu eftir á. En þessar ráðstafanir eiga að verka aftur í liðinn tíma, og það gerir allan muninn.

Ef hv. þm. Ísaf. vísar frá sér þeirri tilgátu hv. 6. þm. Reykv., að afstaða hans í þessu máli byggist á því, að bátar hans hafi aflað vel í sumar, þá bið ég hann að koma með aðra ástæðu. En eins og hér stendur á, þegar verið er að veita sjómönnum einskonar hjálp vegna atvinnubrests, er auðvitað ekkert vit né sanngirni í öðru en að hjálpin komi niður þar, sem hennar er helzt þörf. Og ég trúi því ekki fyrr en ég tek á, að hv. deild taki þá stefnu að veita hásetum hv. þm. Ísaf. stórfelld fríðindi á kostnað annara fátækra sjómanna.