08.10.1934
Sameinað þing: 3. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 33 í B-deild Alþingistíðinda. (223)

1. mál, fjárlög 1935

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Áður en ég vík að frumvarpi því til fjárlaga fyrir árið 1935, sem lagt hefir verið fyrir Alþingi, mun ég svo sem venja hefir verið undanfarið, fara nokkrum orðum um afkomu ríkissjóðs og fjármálaástandið í landinu yfirleitt. Sá inngangur er alveg nauðsynlegur, til þess að menn geti áttað sig til fulls á þeim grundvelli, sem fjárlagafrumvarpið fyrir árið 1935 hlaut að byggjast á.

Nú stendur svo sérstaklega á, að Alþingi er háð að hausti, og að fyrrverandi fjármálaráðherra hefir í sérstöku útvarpserindi, 6. marz síðastl., gert grein fyrir afkomu ársins 1933, að svo miklu leyti, sem þá var um hana vitað. Erindi þetta hefir og komið fyrir almenningssjónir, og sé ég því ekki ástæðu til að gefa skýrslu um einstök atriði í afkomu þess árs. Hinsvegar tel ég mjög vel viðeigandi að rifja hér upp höfuðatriðin í fjárhagsafkomu vorri undanfarin kreppuár. Með því móti fæst áreiðanlega gleggst mynd af þeim erfiðleikum, sem við hefir verið að stríða og þjóðin á óneitanlega enn í höggi við.

Þótt þetta yfirlit sé gefið í sambandi við fjárlagaumræður og umræður um afkomu ríkissjóðs, hlýtur það að verða tvíþætt. Afkoma þjóðarinnar út á við, út- og innflutningur og greiðslujöfnuður við útlönd hefir svo gagngerð áhrif á afkomu allra landsmanna og afkomu ríkissjóðs sérstaklega, að hún hlýtur að mynda annan þáttinn í því yfirliti, sem gefa á hugmynd um grundvöllinn, sem aðgerðir þings og stjórnar í fjármálum verða að byggjast á.

Árið 1931 hefir verið talið fyrsta kreppuárið hér. Á því ári voru tekjur ríkissjóðs miklu lægri en undanfarin ár, eða um 15,3 millj. Höfðu verið áætlaðar í fjárlögum 12,8 millj. Útgjöldin voru þá, að viðbættum afborgunum fastra lána og öðrum eignahreyfingum, um 18,2 millj., en samkv. fjárlögum voru þau 12,8 millj. Greiðsluhalli ársins 1931 var því um 2,9 millj. Bið ég menn að gæta þess sérstaklega, að þegar um greiðsluhalla er að ræða, eru taldar með útgjöldum afborganir af föstum lánum ríkissjóðs. Yfirlitið miða ég við greiðslujöfnuð, en ekki rekstrarhalla eða rekstrarafgang ríkissjóðs, sökum þess, að ekki er vel komið um rekstur ríkissjóðs fyrr en afborganir fastra lána eru af höndum inntar án nýrra lántaka.

Útflutningur íslenzkra afurða 1931 var um 48 millj., en innflutningur um 48,1. Var því verzlunarjöfnuður lítið eitt óhagstæður, en greiðslujöfnuður við útlönd hefir verið mjög óhagstæður það ár. Eftir því, sem næst verður komizt um upphæðir þeirra greiðslna, annara en fyrir vörur, sem mynda greiðslujöfnuðinn, er talið, að útborganir þjóðarinnar séu eigi minna en 8 milljónum hærri en innborganir. Þýðir það, að til þess að greiðslujöfnuðurinn sé hagstæður, þyrfti útflutningur vara að nema um 8 millj. meira en innflutningur. Með vissu verður þetta ekki vitað, en nálægt hinu rétta verður komizt.

Árið 1931 hefir því verið greiðsluhalli á rekstri ríkissjóðs og skuldir safnazt við útlönd. Ástæðurnar ber vitanlega fyrst og fremst að rekja til hins mikla verðfalls á afurðum landsmanna.

Árið 1932, annað kreppuárið, reyndust tekjur ríkissjóðs 11,1 millj., en voru í fjárlögum áætlaðar 11,4 millj. Greiðslur ríkissjóðs taldar á sama hátt og 1931 reyndust um 13,9 millj. Voru samkv. fjárl. 11,5 millj. Greiðsluhalli ríkissjóðs var um 2,8 millj. Vörur voru þá útfluttar fyrir 47,8 millj., en innfluttar fyrir 37,3 millj. Verzlunarjöfnuður því hagstæður, um 10,4 millj., og greiðslujöfnuður við útlönd hagstæður. Gætti hér áhrifa innflutningshaftanna. Jafnhliða því, sem innflutningshöftin björguðu greiðslujöfnuðinum við útlönd 1932, vegna þess hve mjög dró úr innflutningnum þeirra vegna, gætti áhrifa þeirra á afkomu ríkissjóðs í því, að tolltekjurnar hröpuðu niður og komust langt niður fyrir það, sem þær hafa verið um mörg ár, fyrr og síðar. Varð því mikill greiðsluhalli hjá ríkissjóði, enda þótt útgjöld ríkissjóðs væru lægri en þau höfðu verið um langt skeið, og lægri en þau hafa verið síðan. Þessi afkoma ársins 1932 sýnir mjög glöggt sambandið á milli tekna ríkissjóðs og vöruinnflutningsins. Hún sýnir, að semja verður fjárlög og skattalög með nákvæmu tilliti til þess, sem framundan virðist um möguleika fyrir vöruinnkaupum til landsins.

Árið 1933 er síðasta árið, sem nokkurnveginn fullnaðarskýrslur eru til um. Tekjur ríkissjóðs á því ári voru um 13,7 millj., en voru áætlaðar um 11 millj. Greiðslurnar reyndust um 15 millj., en áætlaðar í fjárl. um 12 millj. Greiðsluhalli ríkissjóðs árið 1933 var um 1,3 millj. Samkv. bráðabirgðaskýrslum hagstofunnar fyrir árið 1933 voru fluttar út vörur fyrir um 49,8 millj. króna, en inn vörur fyrir um 417,4 millj. 1933. Má búast við, að tölur þessar hækki nokkuð við endanlega skýrslugerð, en ekki ástæða til að ætla annað en að þær sýni nokkurnveginn réttan mismun út- og innflutnings. Hefir verzlunarjöfnuðurinn því verið hagstæður um ca. 2,4 millj., en greiðslujöfnuðurinn við útlönd óhagstæður, vegna þess hve greiðslur, aðrar en fyrir vörur, eru okkur í óhag, svo sem áðan var drepið á. Heildarsvipurinn á afkomu ársins 1933 var því sá, að hagur þjóðarinnar út á við versnaði töluvert og greiðsluhalli ríkissjóðs var nokkuð á 2. millj. var hann þó miklu lægri en undanfarin ár. Ríkisskuldir í árslok voru 39996 þús. kr. og höfðu hækkað um 916 þús. kr. á árinu. Sjóður hækkaði hinsvegar um 535 þús. kr. á árinu. Um einstök atriði viðvíkjandi afkomu ríkissjóðs á árinu 1933 tel ég fullnægjandi að vísa til opinberrar greinargerðar fyrrverandi fjármálaráðherra, sem áður er minnzt. Þó vil ég gefa stutta skýrslu um breytingu enska lánsins frá 1921.

Eins og fyrrv. fjármálaráðherra gat um í opinberri skýrslu sinni, hafði fyrrv. stjórn samið um það, að enska láninu frá 1921 yrði á þessu ári breytt úr 7% láni í 5% lán. Fór breyting þessi þannig fram, að öllu láninu var sagt upp til innlausnar 1. sept., en skuldabréfaeigendum jafnframt gefinn kostur á að fá skuldabréfunum breytt í 5% bréf og um leið greidd 3 £ af hverju 100 í bréfi, eins og áskilið var í upphaflega lánssamningnum. Þá vafi ennfremur gengið frá því, að hægt væri að innleysa bréfin, ef skuldabréfaeigendur vildu fá þau greidd fremur en taka vaxtalækkuninni. Þegar fyrrv. fjmrh. gaf skýrslu sína, var vitanlega ekki vitað, hve mikið af bréfum kæmi til innlausnar. Vil ég því skýra frá því nú, að öllu láninu hefir verið breytt í 5% lán, að undanskildum 1350 £, sem innleyst voru með hver 100 £ 103 f, eins og upphaflega var áskilið.

Um afkomu ríkissjóðs á yfirstandandi ári er eigi hægt að segja með neinni vissu eins og sakir standa. Líklegt má þó telja, að tekjur verði svipaðar og í fyrra, ef þær bregðast eigi síðari hluta ársins. Um endanleg útgjöld er nokkuð í óvissu, m. a. vegna þess, hve margháttaðar greiðslur verða samkv. sérstökum ráðstöfunum Alþingis utan fjárlaga. En engar líkur virðast vera til þess, að hægt verði að komast hjá greiðsluhalla á þessu ári, enda gera gildandi fjárlög ráð fyrir greiðsluhalla. Þann 1. júlímánaðar þ. á. hafði lausaskuld ríkissjóðs í Barclay's Bank hækkað um kr. 839812 frá áramótum og var þá orðin um kr. 2160000. Síðan hefir hún staðið óbreytt. Samkv. samningi við bankann má skuld þessi vera hæst 100000 sterlingspund. Skuldir innanlands hafa á árinu hækkað um ca. 266000 kr. Þessar tölur gefa ekki hugmynd um endanlega niðurstöðu ársins, en þykir þó rétt að geta þeirra hér.

Bráðabirgðaskýrslur um út- og innflutning á þessu ári, sem fyrir liggja til 1. sept., sýna mjög óhagstæðan verzlunarjöfnuð. Samkv. þeim er útflutningur ca. 24,9 millj., en innflutningur ca. 31,9 millj. Verzlunarjöfnuðurinn samkv. því óhagstæður um ca. 7 millj. Að vísu er vonandi, að niðurstaða ársins verði ekki svona slæm, en engar líkur virðast til þess, að hún verði hagstæð.

Þegar athugað er það yfirlit, sem nú hefir verið gefið í mjög stórum dráttum um afkomuna 1931—1933 og horfurnar á þessu ári, eru það nokkur höfuðatriði, sem mér finnst mest ástæða til þess að gefa gaum.

Öll árin, að undanteknu árinu 1932, eru keyptar til landsins vörur fyrir hærri upphæðir en þjóðin hefir getað greitt með ársframleiðslu sinni.

Öll árin er greiðsluhalli á rekstri ríkissjóðs, enda þótt útgjöldin í heild hafi farið lækkandi. Greiðsluhallinn er yfirleitt jafnaður með lántökum, og 1933 og væntanlega í ár að mestu leyti með lántökum erlendis. En það, sem er þó ískyggilegra og mestum erfiðleikum mun valda við leiðréttingar, er sú staðreynd, að þessi greiðsluhallaár, að undanskildu árinu 1932, hafa tolltekjur ríkissjóðs verið hærri en eðlilegt var, vegna þess hve innflutningurinn hefir verið óeðlilega mikill. Hefði innflutningurinn ekki farið fram úr því, sem þjóðin gat borgað árlega, hefði greiðsluhalli þessara ára orðið ennþá meiri, nema ríkissjóði hefði þá verið séð fyrir nýjum tekjustofnum.

Öll árin eru útgjöldin samkv. landsreikningnum miklu hærri en útgjöldin samkv. fjárlögum. Er það gamalt og alkunnugt fyrirbrigði og stafar sumpart af þeirri hættulegu reglu, að samþykkt eru allskonar útgjöld á Alþingi önnur en þau, sem eru í fjárlögum, og sumpart af því, að upphæðir eru áætlaðar of lágt í fjárlögum. Stundum virðast áætlanir svo fjarri reynslu, að eigi verður annað álitið en þær séu vísvitandi of lágt settar í fjárlögum. Er slíkt ekki til þess fallið að auka traust Alþingis og þarf að hverfa með öllu. Verður nánar að þessu vikið í sambandi við fjárlagafrv. fyrir 1935. Eins og yfirlit þetta um afkomu undanfarinna ára ber með sér, hlutu miklir erfiðleikar að verða á vegi stjórnarinnar við undirbúning fjárlaga fyrir 1935.

Stjórninni var það ljóst, að til lengdar getur ekki gengið, að ríkissjóður þurfi á ári hverju að taka lán erlendis til þess að nota til afborgana fastra lána, og því síður til óarðgæfra framkvæmda. Greiðsluhallann varð að stöðva — helzt þegar á næsta ári.

Ennfremur lá það fyrir, að atvinnuhorfur og ástand atvinnuveganna var þannig, að framlög til verklegra fyrirtækja og til atvinnuveganna þurfti að auka frá því, sem ákveðið var í fjárlögum 1934.

Við samning fjárlagafrv. hafði stjórnin til hliðsjónar gildandi fjárlög og landsreikninga undanfarinna ára. Var vitanlega fyrst svipazt eftir leiðum til sparnaðar á beinum kostnaði við rekstur ríkisins. Eins og kunnugt er, verður ekki mjög miklu um þokað í þeim efnum nema með róttækum breytingum á fyrirkomulagi ríkisrekstrarins. — Langmestur hluti útgjalda ríkissjóðs er ýmist bundinn með lögum eða við fyrirkomulag, sem ekki verður breytt nema á löngum tíma. Þó hefir stj. gert ýmsar lækkanir á útgjöldum, og verður þeirra helztu getið í sambandi við hækkanir framlaga til verklegra framkvæmda.

Við athugun á útgjöldum og samanburði við fjárlög yfirstandandi árs kom það hinsvegar í ljós, að ýmsar áætlunarupphæðir voru allt of lágt settar í þeim fjárlögum, með tilliti til reynslunnar, og þurftu að leiðréttast. Ennfremur, að ýms óumflýjanleg útgjöld, þar af ýms lögbundin, sem ekki voru í fjárlögum þessa árs, þurfti að taka í fjárlög. Sumpart var hér um ný útgjöld að ræða, sem ákveðin höfðu verið síðan fjárl. fyrir 1934 voru samin, og sumpart útgjöld, sem af einhverjum ástæðum hafa ekki verið talin með fyrr í fjárlögum, þótt greidd hafi verið. Þessar bundnu hækkanir og leiðréttingar nema nálægt 1½ millj. króna, og eru þessar helztar:

1. Tillag til Kreppulánasjóðs kr. 250000,00. Er þetta nýr liður samkv. lögum um Kreppulánasjóð frá 1933.

2. Viðhald þjóðvega kr. 100000,00. Í frumvarpinu er viðhaldið alls hækkað um 150 þús. kr. Af þeirri hækkun tel ég þessar 100 þús. kr. beina leiðréttingu á þessum lið fjárlaganna, sem undanfarið hefir farið mjög fram úr áætlun.

3. Landhelgisgæzla kr. 180000,00. Þessi hækkun er sumpart vegna þess, að undanfarið hefir heildarkostnaður við gæzluna verið of lágt settur í fjárlög samanborið við reynsluna, en sumpart vegna þess, að reynslan hefir sýnt, að undanfarið hefir verið gert ráð fyrir hærra tillagi úr landhelgissjóði til gæzlunnar en honum er unnt að leggja fram. Sjóðurinn er því nær þorrinn og getur því aðeins lagt fram árlegar tekjur sínar, sem eru sektir og björgunarlaun.

4. Afborganir lána kr. 142000,00. Hækkunin á þessum lið stafar af afborgunum af hinum nýrri lánum. Má þar sérstaklega benda á lán ríkissjóðs til vega- og brúargerða.

5. Vextir kr. 90800,00. Hækkun á þessum lið, þrátt fyrir sparnað vegna breytingar enska lánsins frá 1921, stafar sumpart af skuldahækkun 1933 og að sumu leyti af því, að nú er nákvæmar áætlað fyrir vaxtagreiðslum af ósamningsbundnum skuldum en áður hefir verið í fjárlögum.

6. Tillag til sveitarfélaga vegna fátækraframfæris yfir meðallag kr. 100000.00. Er hér um leiðréttingu að ræða, samkvæmt því sem reynslan sýnir, að útgjöld þessi muni reynast. Í núgildandi fjárl. er áætlað, að greiðslur til sveitarfélaga vegna fátækraframfæris, sem er 15% yfir meðallag, muni nema kr. 100000,00, en fyrirsjáanlegt er, að þau muni nema 170 þús. kr. á þessu ári.

7. Jarðræktarstyrkur kr. 75000.00. Þessi hækkun á áætlunarupphæð er einnig gerð til leiðréttingar. Þessi liður hefir undanfarið verið áætlaður töluvert lægra en hann hefir orðið í reyndinni.

8. Kostnaður við barnafræðslu kr. 60000,00. Þessi hækkun er leiðrétting, aðallega vegna þess, að laun kennara eru í gildandi fjárl. sett lægri en þau reynast.

9. Strandferðir kr. 70000,00. Hækkun þessi er gerð til samræmis við þá reynslu, sem fæst í ár. Úr strandferðum þykir sízt fært að draga.

10. Kostnaður við spítala kr. 76800,00. Mestur hluti upphæðarinnar eru hækkanir til leiðréttingar til samræmis við reynsluna um kostnað við sjúkrahúsin, er nokkur hluti nýr liður vegna laga frá 1932 um breyting á lögum um varnir gegn kynsjúkdómum.

11. Malbikun þjóðvega kr. 77000,00. Þessi liður er nýr og settur í fjárlög samkv. breyt. á lögum um bifreiðaskatt, sem samþ. var á Alþingi 1933. Renna samkv. henni 15% af bifreiðaskatti til malbikunar á þjóðvegum.

12. Kostnaður við gjaldeyrisráðstafanir kr. 30000.00. Í fjárl. hefir eigi fyrr verið gert ráð fyrir kostnaði við framkvæmd innflutningshafta né gjaldeyrisráðstafana. Hefir þó slíkur kostnaður verið greiddur undanfarin ár. Þótti sjálfsagt að ætla fyrir þessum kostnaði í fjárlögum, þar sem alkunnugt er, að hjá því verður alls ekki komizt að hafa sterk tök á innflutningi vara og sölu erlends gjaldeyris.

13. Toll- og löggæzla kr. 50000,00. Þessi hækkun á liðnum er beinlínis til leiðréttingar samkv. reynslu um þennan kostnað. Er síður en svo, að tollgæzla megi minnka frá því, sem nú er. Er full þörf á, að hún verði bætt viða á landinu, og getur því ekki til mála komið að setja þennan lið lægra en hann hefir reynzt undanfarið.

14. Kostnaður við Alþingi kr. 25000,00. Hækkun þessi á áætluðum kostnaði við Alþingi er sett í samræmi við reynslu undanfarinna ára. Hinsvegar hefir þess verið vænzt, að kostnaður við fjölgun þingmanna myndi vegast upp með styttra þinghaldi, þar sem fjárlög eru nú afgreidd í sameinuðu þingi.

15. Kostnaður við milliríkjasamninga kr. 18500,00. Þetta er nýr liður í fjárlögum, en þó aðeins leiðrétting, því að undanfarið hafa árlega verið greiddar háar upphæðir í kostnað við slíka samninga, og vafalaust verður einhver kostnaður árlega vegna samninga við önnur ríki. Get ég þess hér til dæmis, að 1932 voru greiddar tæpar 30 þús. kr. í slíkan kostnað og 1933 um 36 þús. kr.

16. Framlag til ellistyrktarsjóða kr. 25000,00. Hækkun þessi er leiðrétting vegna ákvarðana Alþingis um að hækka tillagið til sjóða þessara.

17. Framlag til sjúkrasamlaga kr. 18000,00. Um hækkun á þessum lið er hið sama að segja. 18. Sakamálskostnaður kr. 20000,00. Á þessum lið er um leiðréttingarhækkun að ræða samkv. reynslu undanfarinna ára.

19. Kostnaður við vinnuhælið á Litla-Hrauni kr. 15000,00. Hækkunin er gerð einungis til leiðréttingar. Reynslan hefir sýnt, að of lágt hefir verið áætlaður kostnaður við stofnun þessa.

20. Kostnaður við skattanefndir kr. 15000,00. kostnaður þessi hefir verið of lágt áætlaður undanfarið, og er liðurinn hækkaður um þessa upphæð til leiðréttingar.

Aðrar hækkanir af þessu tægi og nýir liðir óhjákvæmilegir nema lægri upphæðum og því ekki talið sérstaklega hér með. Samkv. því, sem nú hefir verið rakið, var stjórnin bundin við að hækka útgjöld fjárl. um nálægt 1½ millj. kr., eða að öðrum kosti áætla vísvitandi of lágar upphæðir fyrir þessum útgjöldum og blekkja með því bæði sig og Alþingi.

Þá kem ég að hækkun stjórnarinnar á framlögum til verklegra framkvæmda og til atvinnuveganna. Eru þessar helztar:

1. Aukið framlag til nýrra vega kr. 43000,00.

2. Til bygginga og endurbóta á skólum kr. 80000,00.

3. Framlag til verkfærakaupasjóðs kr. 65000,00.

4. Aukið framlag til byggingar verkamannabústaða kr. 100000,00.

5. Aukið framlag til Byggingar- og landnámssjóðs kr. 100000,00.

6. Aukið framlag til hafnargerða kr. 40000,00.

7. Aukið framlag til vitabygginga kr. 16000,00.

8. Aukið framlag til nýrra símalína kr. 30000,00.

9. Aukið framlag til atvinnubóta kr. 200000,00. Þar af kr. 100000,00 til stofnunar nýbýla.

10. Kostnaður við skipulagningu afurðasölunnar kr. 20000,00.

Helztu lækkanir stjórnarinnar, sem koma hér á móti, eru þessar:

Lækkun á styrk til Eimskipafélagsins kr. 100000,00.

Launalækkanir vegna dýrtíðaruppbótar á laun yfir 4000 kr. og burtfelling uppbótarinnar á laun yfir 4600 krónur kr. 70000,00.

Þannig leggur stjórnin til, að framlög til verklegra framkvæmda hækki um sem næst 700000 kr., en hækkanir stjórnarinnar að frádregnum lækkunum hennar nema sem næst 500000 kr. Er rétt að taka það fram í þessu sambandi, að í fjárlagafrv. eru um 110000 kr. ætlaðar til greiðslu vaxta og afborgana af lánum til vega- og brúargerða, sem tekin hafa verið undanfarin ár, og er geta ríkissjóðs til framlaga til verklegra framkvæmda 1935 vitanlega minni en ella sem því nemur. Rétt þykir að benda á það alveg sérstaklega í sambandi við framlög til verklegra framkvæmda, að í frv. eru sett þau skilyrði fyrir framlagi til atvinnubóta, að ríkisstj. geti krafizt þess, að unnið verði að framkvæmdum fyrir ríkissjóð sem framlagi ríkisins nemur. Ennfremur er það mikilsverða nýmæli í frumvarpinu, að 100000 kr. af framlagi til atvinnubóta skuli verja til stofnunar nýbýla. Er hér um algerða stefnubreytingu að ræða frá því, sem verið hefir, og gengur hún í þá átt, að framlög ríkisins til atvinnubóta renni til nauðsynlegra framkvæmda ríkissjóðs og til þess að skapa varanlega atvinnuaukningu, m. a. með fjölgun býla í landinu.

Greiðslur ríkissjóðs á árinu 1935 eru samkv. frv. um 13,7 millj. kr. Eru þá meðtaldar afborganir fastra lána, sem nema um 976 þús. króna, en hinsvegar ekki fyrningar. Tel ég upphæðina þannig til samræmis við greiðslur áranna 1931—1933, sem ég hefi gert að umtalsefni, og sökum þess að ég álít, að takmarkið hljóti að vera það, að ganga frá fjárl. greiðsluhallalausum. En vel skulu menn gæta þess, að í greiðsluhallalausum fjárl. er gert ráð fyrir nál. 1 millj. kr. lækkun á ríkisskuldum. Beri menn heildargreiðslurnar samkv. frv. saman við fjárlög undanfarinna ára og yfirstandandi, kemur það í ljós, að þær eru hærri samkv. því en verið hefir, liðlega 2 millj. kr. hærri en í fjárl. þessa árs. Nú þegar hefir verið gerð grein fyrir þessari 2 millj. kr. hækkun. ¾ (1½ millj.) hlutar hennar eru leiðréttingar og ný lögboðin útgjöld, ¼ hluti (um ½ millj.) eru aukin framlög til verklegra framkvæmda, að frádregnum lækkunum stjórnarinnar.

Séu greiðslur ríkissjóðs samkv. frv. hinsvegar bornar saman við greiðslur ríkissjóðs þau 3 ár, sem ég hefi drepið á, kemur það í ljós, að greiðslurnar samkv. frv. eru lægri en samkv. reikningunum, jafnvel lítið eitt lægri en 1932, en þá voru útborganir ríkissjóðs lægri en þær hafa orðið um mörg ár, fyrr og síðar. Þannig voru greiðslurnar, eins og áður er vikið að, 1931 um 18,2 millj., 1932 um 13,9 millj. og 1933 um 15 millj. kr., en í frv. fyrir 1935 13,7 millj. kr. Kemur hér enn í ljós það, sem ég hefi drepið á fyrr í ræðu minni, að bundin útgjöld hafa yfirleitt verið of lágt áætluð í fjárlögum. Með því að hafa áætlanir sínar lægri gat stjórnin vitanlega lagt fyrir þingið frv., sem sýndi lægri heildarútgjöld en frv. það, sem hér liggur fyrir. En stj. tók þann kost að áætla bundin útgjöld, sem hún ekki treystist til þess að breyta, svo nærri sanni sem unnt var, til þess að tryggja það sem bezt, að útgjöld færu ekki fram úr áætlun. Við það hækkuðu útgjöldin í frv. eins og rakið hefir verið, en jafnframt jukust líkurnar fyrir því, að frv. stæðist í framkvæmd, og er slíkt fyrir miklu. Nái þetta frv. samþykki Alþingis og takist vel um framkvæmd þess, ættu endanleg útgjöld ársins 1935 sízt að verða hærri en útgjöld undanfarinna ára, þótt þau séu hærri samkv. frv. en í fjárl. fyrir þessi ár. Í þessu sambandi tel ég alveg sérstaka ástæðu til þess að benda á, að ef vel á að fara um afkomu ríkissjóðs framvegis, verður að hætta því að samþykkja á Alþingi útgjöld utan fjárlaga, nema alveg óhjákvæmilegt sé, enda sé þá jafnhliða séð fyrir nýjum tekjum til þess að standast þau útgjöld.

Mun ég þá þessu næst víkja að tekjuhlið frumvarpsins. Ég vék áðan að því, að undanfarin ár hefðu tekjur ríkissjóðs ekki hrokkið fyrir greiðslunum. Benti ég á í því sambandi, að undanfarin ár, að undanteknu árinu 1932, hefði ríkissjóður þó orðið aðnjótandi meiri tolltekna en verið hefði, ef vörukaup frá útlöndum hefðu verið miðuð við greiðslugetu landsmanna. Jafnframt sýndi ég fram á hið nána samband, sem er á milli vöruviðskipta við útlönd og tekna ríkissjóðsins. Af þessu er ljóst, að þegar stjórnin hlaut að gera sér grein fyrir því, hvaða tekna hún mætti eiga von á næsta ári af tekjustofnum ríkissjóðs, varð hún að byrja á því að gera sér grein fyrir horfunum um út- og innflutning vara á árinu 1935. Varð þá fyrst fyrir að slá því föstu, að innflutningur vara hlýtur að miðast við það, sem þjóðin getur borgið með andvirði þess hluta ársframleiðslu sinnar, sem seldur er til útlanda og ekki rennur til greiðslna af lánum og annara óumflýjanlegra útgjalda. Til lengdar er ekki hægt að halda áfram að stofna til skulda erlendis vegna of mikilla vörukaupa. Nú verður ekki sagt, að útlitið með sölu á afurðum okkar á erlendum markaði sé glæsilegt. En undir sölu þeirra er vöruinnflutningurinn til landsins kominn og þar með tekjur ríkissjóðsins að verulegu leyti, eins og nú er háttað álagningu tolla. Þegar hér við bætist svo, að innflutningur vara 1933 og væntanlega í ár verður meiri en hægt er að greiða með þeim erlenda gjaldeyri, sem væntanlega verður fyrir hendi, er niðurstaða stjórnarinnar sú, að búast verði við því, að innflutningur til landsins verði að vera til muna minni 1935 en hann var 1933 og verður væntanlega í ár, og þýðir það, að búast megi við minni tekjum í ríkissjóð 1935 en verið hafa, að óbreyttum tekjustofnum. Eru tekjurnar í frv. að verulegu leyti áætlaðar með hliðsjón af reynslu ársins 1932. Er það álit stj., að mjög sé óvarlegt að gera ráð fyrir hærri tekjum næsta ár, með tilliti til þess, sem að framan er sagt um horfur fyrir inn- og útflutningi.

Í frumvarpinu eins og það liggur fyrir er reiknað með þeim tekjustofnum, sem ríkissjóður nú hefir, að undanskildum gengisviðauka á kaffi- og sykurtolli, sem stjórnin leggur til, að verði felldur niður. Ekki er heldur reiknað með 40% álagi á tekju- og eignarskatt, sem innheimt var 1933, og yfirleitt er gengið út frá að verði framlengt fyrir yfirstandandi ár, þótt dregizt hafi sökum þess, hve þinghaldið er nú seint á árinu.

Tekjurnar eru samkv. frv. áætlaðar kr. 11950 þús. Til þess að gera sér grein fyrir frumvarpinu og breytingum þess frá því, sem verið hefir, er rétt að athuga, hver tekjuáætlunin hefði orðið, ef miðað er við núverandi tekjustofna óbreytta og gengið út frá framlengingu 40% álags á tekju- og eignarskattinn. Við tekjuáætlunina mætti þá bæta: Gengisviðauka á kaffi- og sykurtolli kr. 225000,00 og 40% álag tekju- og eignarskatts ca. kr. 375000,00, eða samtals 600 þús. kr. Að óbreyttum öllum tollum og sköttum hefði þá tekjuáætlunin orðið um 12550 þús. og greiðsluhalli í frumv. um 1,2 millj. kr. Er það nokkuð í samræmi við afkomu ársins 1933. Þessi upphæð hefði þá orðið að fást eftir nýjum tekjuöflunarleiðum, ef eldri skattalöggjöf hefði átt að standa óbreytt. Nú er það hinsvegar svo, að stjórnin lítur á það sem eitt af sínum hlutverkum, að færa skatta- og tollabyrðina í réttlátara horf. Í samræmi við það leggur hún nú til þær breytingar á skattalöggjöfinni til lækkunar, að gengisviðauki á kaffi og sykri falli niður og ennfremur að útflutningsgjald af síld lækki stórlega og útflutningsgjald af landbúnaðarafurðum falli niður.

Eftir fjárlagafrv. eru tekjur ríkissjóðs áætlaðar um 11950 þús. kr., eins og áður er sagt, og er þá eins og venja er til reiknað með núgildandi skattalöggjöf og tollum þeim, sem stj. leggur til, að verði framlengdir. Greiðslurnar eru hinsvegar um 13750 þús. kr. Er því greiðsluhalli í frv. sem nemur 1800000 kr. Hér við bætist tekjurýrnun samkv. frv. um útflutningsgjald, ef að lögum verður, áætlað um kr. 200000,00. Verður mismunurinn þá kr. 2000000,00.

Upphæð sú, sem vegast verður alveg upp með nýrri tekjuöflun, til þess að fullur greiðslujöfnuður fáist, finnst síðan með því að draga hér frá áætlað 40% álag á tekju- og eignarskatt, sem er raunverulega aðeins framlenging og innifalin í frv. stj. um hækkun tekju- og eignarskatts og ætla má, að nemi um kr. 375000,00. Verða það þá um kr. 1625000,00, sem nýju tekjuöflunarfrumvörpin þurfa að gefa í ríkissjóð. Þar af um 425 þús. kr. vegna lækkunar stjórnarinnar á útflutningsgjaldi og kaffi- og sykurtolli, og um 1200000 króna vegna þess að innflutningur vara hlýtur að lækka frá því, sem nú er, og tolltekjur ríkissjóðs að lækka. Stj. mun leggja fram frumvörp um öflun nýrra tekna, til þess að jafna greiðsluhalla fjárlaganna. Fjárlagafrv. eitt út af fyrir sig gefur því ekki hugmynd um fjármálatillögur stj. Þegar rætt er um tillögur hennar, verður að taka tekjuöflunarfrumvörpin til greina, þótt tekjur þær, sem þeim er ætlað að afla, séu ekki færðar í fjárlögin fyrr en tekjuöflunarfrumv. eru samþykkt. Tekjuöflunarfrumvörp þau, sem nú þegar hafa verið lögð fyrir Alþingi, eru þessi:

1. Frv. um hækkun á tekjuskatti og eignarskatti. Er ætlazt til, að samkv. þessu frv. hækki skatturinn upp í ca. 1925000 kr. Tekjuauki samkv. því, miðað við skattinn eins og hann var innheimtur 1933 og verður vafalaust í ár (með 40% álagi), ætti að vera um 450000 kr.

2. Frv. um hækkun á tóbakstolli og tolli á brjóstsykri og átsúkkulaði. Tekjuhækkun samkv. því ætti að nema um 250000 kr.

3. Frv. um hækkun benzínskatts. Tekjuauki samkv. því frv. er áætlaður um 240000,00.

4. Frv. um afnám undanþágu frá gjaldi af innlendum tollvörum, er þau fyrirtæki hafa notið, sem stofnsett voru fyrir 1. jan. 1927. Er þess vænzt, að tekjur ríkissjóðs aukist um nál. 150000 kr., verði þetta frv. að lögum.

5. Frv. um einkasölu á eldspýtum og frv. um að áfengisverzlun ríkisins hafi einkasölu á ilmvötnum, hárvötnum, andlitsvötnum, bökunardropum, kjörnum til iðnaðar og pressugeri. Þykir mega vænta þess, að tekjur samkv. þessum frv. nemi um 100000 kr.

Tekjuaukar þessir eru því áætlaðir samtals um 1190 þús. kr., og vantar þá rúml. 400 þús. kr. til þess að fjárlögin verði alveg greiðsluhallalaus. Verða að tilhlutun stj. flutt frumvörp til þess að jafna greiðsluhalla fjárl. að fullu.

Nú hefi ég gefið yfirlit í stórum dráttum um fjárlagafrv. og meðfylgjandi skattafrumvörp. Eins og menn munu nú hafa áttað sig á til hlítar, átti stjórnin um tvennt að velja, þegar hún samdi fjármálatillögur sínar fyrir þingið. Annaðhvort varð hún að taka þann kost að létta ekkert tolla á neyzlu- og framleiðsluvörum og minnka jafnhliða framlög til verklegra framkvæmda vegna fyrirsjáanlegrar rýrnunar á tolltekjunum, eða hinn, að létta neyzlu- og framleiðsluvörutolla svo sem unnt var, auka verklegar framkvæmdir og afla síðan nýrra tekna í ríkissjóð. Síðari leiðin var valin, í fullu samræmi við stefnu flokka þeirra, sem að stj. standa, og þarfir almennings á þessum tímum. En ég vil leyfa mér að vekja sérstaka athygli á því, að með fjármálatillögum sínum, fjárlagafrv. og meðfylgjandi tekjuöflunarfrumvörpum fer stj. ekki fram á, að heildartekjur ríkissjóðs verði hækkaðar. Frumvörpin ganga í þá átt að færa skattabyrðina í réttlátara horf en áður hefir verið og að bæta ríkissjóði upp þá tekjurýrnun, sem hann hlýtur að verða fyrir við minnkaðan vöruinnflutning til landsins.

Ég þykist viss um, að háttvirtir stjórnarandstæðingar muni telja sig hafa eitthvað út á fjármálatillögur stj. að setja. Má vel vera, að með réttu megi að finna og að eitthvað standi til leiðréttingar. En ég sé alveg sérstaka ástæðu til þess að taka það fram, að á þeim, sem gagnrýna þessar tillögur, hvílir tvímælalaust sú skylda, að benda glöggt á það, hvaða leiðir þeir álitu réttari en þær, sem stj. leggur til að farnar séu. Sé það eigi gert, fellur gagnrýnin um sjálfa sig, en sé komið fram með ákveðnar tillögur í aðrar áttir, leiða þær vitanlega til rökræðna um málið.

Eigum við að breyta dómaskipuninni eða fyrirkomulagi lögreglumálanna? Eða eigum við að minnka tillagið til landhelgisgæzlunnar? Eigum við að lækka framlög til læknaskipunarinnar og heilbrigðismála? Eigum við að lækka framlag til samgangna, og þá hverra? Eigum við að draga úr framlagi til kennslumála, og þá hverra? Eða eigum við að draga úr verklegum framkvæmdum eða minnka framlög til atvinnuveganna? Eigum við að draga úr almennri styrktarstarfsemi, breyta berklavarnalögunum eða fátækralögunum — draga úr styrk til þeirra sveitarfélaga, sem hafa fátækrakostnað fram yfir meðallag.

Þeir hv. þingdm., sem gagnrýna frv., verða að benda á það, hvar þeir vilja láta spara, ef þeir halda því fram, að gjöldin sé hægt að lækka. Þeir verða að henda á leiðir til bóta; neikvæð gagnrýni er einskisverð.

Þá vil ég minnast nokkrum orðum á gjaldeyrisverzlunina sérstaklega og viðskiptin við útlönd. Ég hefi nú drepið á þau mál í sambandi við afkomu ríkissjóðs og horfurnar um tekjur hans. Eins og ég gat um, þá er útlitið hið ískyggilegasta um greiðslujöfnuð við útlönd á yfirstandandi ári. 1. sept. er innflutningur um 7 millj. kr. hærri en útflutningur, en þyrfti í árslok að verða, eftir því sem næst verður komizt, um 8 millj. kr. lægri en útflutningurinn, til þess að hagur þjóðarinnar versni ekki út á við á árinu. Virðast engar líkur til annars en að niðurstaða ársins verði í þessum efnum mjög óhagstæð.

Ástæðan til þess, að svona er komið á þessu ári, er í fyrsta lagi sú, að of mikil bjartsýni hefir ráðið gerðum manna um ákvörðun innflutnings framan af árinu. Ennfremur veldur hér miklu um, að þeir, sem starfað hafa að úthlutun innflutnings- og gjaldeyrisleyfa, hafa eigi haft nægilega stoð í gildandi lögum og reglum um innflutnings- og gjaldeyrishömlur til þess að gera fullnægjandi ráðstafanir til verndar greiðslujöfnuðinum. Samkv. núgildandi lagaákvæðum er eigi unnt að gera allan vöruinnflutning til landsins háðan leyfisveitingum. Hefir mér virzt, að allir þeir, sem að þessum málum vinna, séu sammála um það, að til þess að hægt sé að ráðstafa þeim gjaldeyri til vörukaupa, sem fyrir hendi er, á fullnægjandi hátt, þurfi hlutaðeigendur að hafa aðstöðu til að ráðstafa öllum vöruinnflutningi til landsins. Þá eru ennfremur í gildandi lögum um sjálfa gjaldeyrisverzlunina ýms ákvæði, sem valda því, að hvorki bankarnir né gjaldeyrisnefndin hafa náð nægilega sterkum tökum á gjaldeyrisverzluninni. Með reglugerð, sem fjármálaráðuneytið setti nú fyrir nokkrum dögum, er gjaldeyrisnefndinni fengin aðstaða til frekari íhlutunar um innflutning vara en áður.

Stj. leggur nú fyrir Alþingi frv. um gjaldeyrisverzlunina og innflutninginn, sem á að bæta úr þeim göllum, sem nú eru á lagafyrirmælum um þau efni. Miða þau að því, að hægt sé að ná fastari tökum á gjaldeyris- og innflutningsmálunum en unnt er nú. Er þess að vænta, að Alþingi viðurkenni hina brýnn þörf til leiðréttinga á greiðslujöfnuði landsins, sem á hefir verið bent, og taki frv. þessu vel.

Þess skal og getið hér, að stj. gerði ráðstafanir rétt eftir að hún tók við völdum til þess að dregið yrði úr innflutningi síðari hluta þessa árs svo sem frekast væri fært.

Um horfur á næsta ári um gjaldeyrisverzlunina og um sölu íslenzkra afurða er ekki hægt að segja neitt með vissu og jafnvel ekki um sölu afurða á þessu ári til hlítar. Eigi virðist um neina breytingu að ræða í heiminum nú í áttina til meiri rýmkunar í viðskiptum milli landa. Virðist meira að segja miða heldur í áttina til frekari hindrana. Kröfurnar um vöruskipti ríkja á milli eru sí og æ að verða háværari, og því er sízt að leyna, að þær eru utanríkisverzlun okkar mjög hættulegar, vegna þess hve útflutningsvörur okkar eru einhæfar og markaður fyrir þær óvíða. Nú er svo komið, að innflutningshömlur eru á flestum aðalútflutningsvörum okkar í aðalmarkaðslöndunum, og keppinautar okkar á mörkuðum hafa víða betri aðstöðu en við. Geta boðið meiri vörukaup en við o. s. frv. Svo er það t. d. um Norðmenn á Spánarmarkaði og Portúgalsmarkaði. Hafa þeir fengið bætta aðstöðu sína á þessum mörkuðum, og fer ekki hjá því, að það gengur að einhverju leyti út yfir sölu á okkar afurðum. Verður því ekki annað sagt en að margt sé í óvissu um sölu afurðanna framvegis og þar með um afkomuna út á við. Er vonandi, að betur rætist úr því en á horfist. Er sýnilegt, að keppa verður að því mjög eindregið að gera útflutningsvörur okkar fjölbreyttari en þær eru nú, til þess að tryggja afkomu þjóðarinnar.

Ennfremur verður að vinna að aukningu iðnaðar af alefli, til þess að auka atvinnu í landinu og spara erlendan gjaldeyri.

Fjárlagafrv. stjórnarinnar, skattafrumvörpin og frumvarpið um gjaldeyrisverzlunina mynda í raun og veru eina heild og hafa því öll hlotið að blandast inn í þá greinargerð um fjárlögin, sem hér hefir verið flutt. Vildi ég leyfa mér að æskja þess, að þetta yrði sérstaklega haft í huga við afgreiðslu og umræður um fjármálin hér á Alþingi. Að lokum vil ég svo leggja áherslu á það, að fjárlögin verði afgr. greiðsluhallalaus að þessu sinni. Til þess að svo megi verða hlýtur Alþingi að gera ráðstafanir til þess að lækka útgjöld eða hækka tekjur ríkissjóðs frá því, sem ráð er fyrir gert í frumvörpum stjórnarinnar, ef breytinga reynist þörf til hækkunar útgjöldum. Sérhverri skynsamlegri tillögu til lækkunar á beinum kostnaði við ríkisreksturinn mun stjórnin taka vel. Hinsvegar ætlast ég hiklaust til svo mikillar ábyrgðartilfinningar hjá hv. stjórnarandstæðingum, ef þeir bera fram tillögur, sem fela í sér hækkun á gjöldum ríkissjóðs, að þá flytji þeir líka skynsamlegar till. um hækkun á tekjunum, sem því svarar. Annars er það svo, að hver sá hv. þm., sem ber fram till. um hækkun á gjöldum ríkissjóðs án þess að finna leið til tekjuöflunar á móti, er að bera fram till. um það að láta ríkið taka nýtt lán.

Að svo mæltu óska ég, að frv. verði vísað til fjvn., er umr. verður frestað.