22.10.1934
Neðri deild: 16. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1715 í B-deild Alþingistíðinda. (2241)

67. mál, útflutningsgjald af síld til hlutaruppbótar sjómönnum

Sigurður Einarsson:

Ég get sagt um þetta mál, eins og hv. þm. A.-Húnv., að ég hefi ekki verið að lengja umr. um það. Ég hefi ekki látið þetta mál til mín taka, en vil þó segja nokkur orð út af brtt. á þskj. 145. Ég hefi hugsað mér að haga svo máli mínu, að ekki verði áreitni í neins manns garð, svo að það þurfi ekki að lengja umr. til muna.

Um það hefir verið deilt undanfarið í þessu máli, hvort endurgreiðsla á útflutningsgjaldi af síld eigi að teljast endurgreiðsla á kaupi sjómanna eða styrkur til þeirra. Lögvitringar Sjálfstfl. hafa verið með falsverðar vangaveltur yfir þessu atriði, og niðurstaðan hefir orðið, eftir því sem mér hefir skilizt, nákvæmlega eins og niðurstaða Sjálfstfl. hér í d. hefir orðið í hvaða máli sem er, sem sé sú, að nokkur ótiltekinn hluti flokksins virðist taka upp þessa skoðun, og annar ótiltekinn hluti hans hina, þannig, að flokkurinn er alltaf réttu megin við þann, sem þarf að tala, með því að hann citerar í þann hluta flokksins , sem er á sama máli og hann.

Frv. fjallar, eins og kunnugt er, um það, hvernig ráðstafa skuli vissu fémæti, sem beinlínis er tiltekið — útflutningsgjaldi af síld — sem samkv. frv. á að verja til hlutaruppbótar sjómönnum. Þessi nýstárlega meðferð útflutningsgjaldsins á rætur sínar að rekja til þess, að þeir flokkar, sem standa að núv. landsstj., komu sér saman um þetta fyrir tilstilli Alþfl., þegar stj. var mynduð í sumar. Þetta geta sjálfstæðismenn séð í málefnasamningi þeim, sem þeim hefir þóknazt að kalla „rauða sáttmála“, en er samt ekki eins rauður og þeir álíta og gaman væri að geta sýnt þeim framan í.

Mér finnst, að í sambandi við brtt. á þskj. 145, sem hv. 8. landsk. ber fram, megi ekki gleyma, hvernig þessi verðmæti eru til fengin, sem hér um ræðir sem endurgreiðslu eða uppbót til sjómanna. Það, sem um er að ræða, er útflutningsgjald af síld, og frá mínu sjónarmiði hefði það verið vel verjandi að fella niður þennan toll og greiða hann til þeirra, sem eru réttir eigendur þessarar vöru. Útflutningsgjaldið er ekki annað en hluti af verðmæti vörunnar, hluti, sem hingað til hefir verið tekinn af eigendum til opinberra þarfa.

Hv. þm. Ísaf. hefir upplýst það, að tildrög þessa máls séu á þann veg, að réttlátt sé að ætla ekki útgerðarmönnum hluta af þessari endurgreiðslu, að það hafi orðið að samkomulagi, að þeir sættu sig við þá lausn málsins, að þeir kæmu ekki til greina við þessa úthlutun.

Nú má hv. 8. landsk. ekki hugsa, að sú tilhugsun, að gera hlut sjómanna sem allra jafnastan, sé mér eða mínum flokksbræðrum, eftir því sem ég þekki til, svo þungbær og andstæð, að við af þeirri ástæðu teljum okkur hljóta að vera andvíga brtt. á þskj. 145. Það væri ákaflega gaman, að hið opinbera gæti tekið í taumana og bætt úr mismuninum, þegar einhverjir menn fara sérlega illa út úr því hvað vinnu snertir, eða hlutur þeirra verður mjög misjafn. Það væri gaman að geta gert eitthvað líkt því, sem virðist vaka fyrir hv. 8. landsk. með till. hans, en ég býst ekki við, að hann geri sér það í hugarlund í alvöru, að ríkissjóður geti gengið langt á þeirri braut, að jafna hlut sjómanna á þá leið, sem fyrir honum vakir. Einkanlega ef taka ætti tillit til allra sjómanna, sem stunda hverskonar fiskveiðar sem er.

Og hvers vegna, verður manni þá á að spyrja, á að láta þennan mikla kærleika hv. 8. landsk. ná til sjómannastéttarinnar einnar? Því eru ekki gerðar ráðstafanir til þess að jafna tekjur manna yfirleitt? Hv. 8. landsk. getur nú borið því við, að hér liggi ekki annað fyrir til umr. nú en hvernig úthluta skuli útflutningsgjaldi af síld, sem sjómönnum standi næst að hljóta. En það er samt sem áður svo, að það liggur nærri að spyrja, því þetta sé látið ná aðeins til fámennrar stéttar, örlítils hóps af mönnum. Ég held, að ef hv. 8. landsk. eða flokksbræður hans vilja fara inn á þessar brautir, sem þarna eru ráðgerðar, verði sá sami flokkur að gera sér það að góðu að fara lengra. Þessi flokkur, Sjálfstfl., mun reka sig á það, um það leyti sem hann fer að gerast hofprestur í musteri sjómanna, ekki sízt jafnaðarhugsjónasinnar, að hún krefst meira en að grípa eitt einstakt tiltekið mál og ætla að fá það fram með slíkri till. eins og hér hefir komið fram nú. T. d. vil ég spyrja hv. 8. landsk. að því, hvort hann vilji gera sér það að góðu eða beita sér fyrir því, að hér verði gerð á Alþ. löggjöf, sem geri ráðstafanir til þess, að aflafé manna yfirleitt skuli þeir fyrst um sinn ekki telja eign sína, heldur aðeins sem lánsfé, og þegar komið er í ljós, hver útkoma verður hjá mönnum yfirleitt, þá skuli þeir, sem mest hafa aflað, leggja ákveðinn hluta tekna sinna í tekjujöfnunarsjóð allra landsmanna, og svo verði útbýtt úr honum í öfugu hlutfalli við aflaféð, eins og virðist koma fram við síðustu umr. hér í deildinni.

Ég skal játa það, þó að ég hafi ekki heyrt hv. 8. landsk. eða neinn mann úr hans flokki drepa á þá möguleika, að það mundi gleðja mig stórlega, ef frá þeim kæmi einhver ráðstöfun í þessa átt, en það væri alveg rökrétt afleiðing af því, sem þeir halda fram hér. Ég er alveg sannfærður um það, að þegar þessi meginregla, sem hv. 8. landsk. vill gera gildandi við úthlutun þessa fjár, yrði tekin á víðtækari grundvelli, kæmi nýtt hljóð í strokkinn. Þá kæmu aths. um, að verið væri að skerða eignarréttinn, og aths. um, að hér væri um að ræða brot á stjskr. o. s. frv. Sú ráðstöfun, sem ég hefi lýst hér, er í eðli sínu alveg hliðstæð því, sem hv. 8. landsk. vill með brtt. sinni, að taka það, sem í rann og veru er eign eins manns, og gefa öðrum.

Ég get fallizt á það, sem hv. þm. Ísaf. sagði, að hér væri í raun og veru um kaupgreiðslu að ræða til þeirra, sem hlut eiga að máli og þeim ber, ef frv. verður að l. og féð kemur til útborgunar. Allur undirbúningur málsins bendir til, að svo sé, að þetta sé kaup til sjómanna í hlutfalli við eign þeirra í afla. Það er ekkert fordæmi til fyrir því, að skila verðmæti aftur til baka eftir þeirri reglu, sem hv. 8. landsk. vill vera láta. Hinsvegar liggur ekki við, að það sé góð meginregla, að það skuli vera „hvers happ, er hlýtur“, í aflabrögðum. Hún getur verið furðu miskunnarlaus og það má margt að henni finna, en það er ekki í annað hús að venda, því að hún hefir gilt og verður ekki með réttu sett úr gildi á þessu eina sviði þjóðlífsins, svo að ekki verði jafnframt gerðar ráðstafanir til þess að gera hið sama á öðrum sviðum þess, og þá horfumst við í augu við tekjujöfnunarhugmyndina, sem ég lýsti hér áðan. Ég get svo sagt það, til þess að gleðja hv. 8. landsk., ef hann skyldi ala þá von í brjósti, að tekjujöfnun verði lögleidd í landinu, að ég mun fyrst fylgja honum í því máli, þegar hún verður látin ná til allra.

Ég get svo lokið máli mínu með því að endurtaka það, að hér er um endurgreiðslu á kaupi að ræða, og er þeirri meginreglu fylgt, að menn fái hlut af þessari endurgreiðslu í réttu hlutfalli við aflafé sitt.