22.10.1934
Neðri deild: 16. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1717 í B-deild Alþingistíðinda. (2242)

67. mál, útflutningsgjald af síld til hlutaruppbótar sjómönnum

Jakob Möller [óyfirl.]:

Hv. þm. V.-Ísf. lét í ljós, að hér væri verið að stefna að fyrirkomulagi, sem í fljótu bragði virðist þess vert, að það sé athugað nánar. Hann sagðist vera mjög fús til þess að taka þetta fyrirkomulag upp, en endaði með því að ganga frá því aftur. Það var dálítil veila í loforði þessa hv. þm.

Sannleikurinn er sá, að það er dálítið sérstakt með síldarútgerðina, því að hún er áhættusamasti atvinnurekstur, sem rekinn er hér á landi, ekki aðeins fyrir atvinnurekendur, heldur líka fyrir alla, sem við útgerðina vinna. Eins og fyrirkomulagið er nú, er það ekki neinn atvinnurekstur, þar sem afkoma þeirra, sem atvinnureksturinn stunda, verður eins ójöfn og við þennan. Það er þess vegna sérstök ástæða til þess að tryggja afkomu þessa atvinnurekstrar og þeirra, sem hann stunda. Það er áreiðanlega hugmynd, sem vert er að athuga nánar, að fella ekki niður síldartollinn, heldur að nota hann, eins og hv. þm. Ísaf. drap á, sem styrk til þeirra, sem fara sérstaklega illa út úr atvinnu við síldarútgerð.

Því er nú þannig háttað með hv. 9. landsk., að maður áttar sig bezt á honum með því að snúa öllu öfugt, sem honum við kemur. Það er ástæða til þess að koma upp kaupjöfnunarsjóði fyrir þennan atvinnuveg, en það er reyndar rangt að kalla það kaupjöfnunarsjóð, því að það ætti að heita tryggingarsjóður.

Ég vildi óska, að hv. þm. V.-Ísf. hefði ekki verið svona fljótur að falla frá uppástungu þeirri, er hann bar fram um þetta efni, því að hún var vissulega þess verð að athuga hana til hlítar. Hún var á þá leið, að í staðinn fyrir, að útflutningsgjald af síld yrði látið renna í ríkissjóð, þá skyldi það renna í tryggingarsjóð síldarútvegsins, sem síðan væri notaður til þess að jafna afkomu þeirra, sem atvinnuveginn stunda. Ég vona, að hv. þm. V.-Ísf. standi við loforð sitt, og taki þetta til nánari athugunar, en afleiðingin verði svo sú fyrir hann fyrst, að samþykkja þetta frv. og sjá hvernig það gefst, og í öðru lagi að fella frv. um afnám síldartollsins. Það verður svo að setja í lögin um þetta ákvæði um, að tekjurnar af þeim tolli skuli framvegis nota á fyrrgreindan hátt. Hitt er fullkominn misskilningur hjá hv. þm. V.-Ísf., að Alþ. sé á nokkurn hátt bundið fyrirfram um það, hvernig það vilji verja þessari fjárfúlgu, sem nú er rætt um að endurgreiða úr ríkissjóði. Það hefir engar skuldbindingar tekið á sig um að úthluta endurgreiðslunni, eins og gert er ráð fyrir í þessu frv. Það er talað um samninga, sem sjómenn og útgerðarmenn hafi gert með sér í vor um það, að ef tollurinn fengist endurgreiddur, þá skyldi nota hann til þess að hækka kaup sjómanna. Þetta væri auðvitað bindandi fyrir útgerðarmenn, ef þeir fengju síldartollinn endurgreiddan, en það er Alþ., sem ræður því, hvort hann verður endurgreiddur. Ef ákveðin væri endurgreiðsla á þann hátt að jafna kaupið, eins og lagt er til í brtt. sjútvn. Sjálfstfl., þá hefir Alþ. fullt vald til að samþ. það, og það getur engin eftirköst haft þess efnis, að sjómenn fái kröfur á útgerðarmenn út af samningum þeirra á milli.

Menn geta ekki komið sér undan því, hvorki hv. þm. V.-Ísf. eða aðrir, að ganga með opin augu til þess að greiða atkv. eftir því sem sanngjarnast er. Menn geta deilt um, hvað sé sanngjarnt, en hvort sem þeir komast að þeirri niðurstöðu, að fara eftir till. hv. þm. Ísaf. eða þá till. hv. 8. landsk., þá hafa þeir óbundnar hendur um það. Hv. þm. V.-Ísf. gerði grein fyrir því, að hann hefði engu lofað um þetta á meðan hann var í stjórnarsessi, og er þess vegna ekki bundinn af öðru en því, sem hann telur sanngjarnast. Þeir einu, sem hugsanlegt er, að séu bundnir í þessu máli, eru þá hæstv. ráðh. og sósíalistar, sem hafa lofað endurgreiðslu á ákveðinn hátt.

Ég hefi svo ekki meira um þetta mál að segja, en vil endurtaka það, að ég vænti þess, að hv. þdm. athugi þetta mál vel, áður en þeir greiða endanlega atkv. um það, og þá einkanlega með tilliti til þess, hve sérstaklega er ástatt um þennan atvinnuveg, sem hér ræðir um. Það er hvorki rétt né sanngjarnt og engin ástæða til að segja sem svo, að ef farið sé að gera slíkar tilraunir sem þessar með þennan atvinnuveg, þá sé sjálfsagt að láta það ná til allra atvinnuvega landsins, því að vitanlega er helzt þörf fyrir ráðstafanir sem þessar við þann atvinnurekstur, þar sem afkoman er misjöfnust og mest happdrætti er um að ræða.