22.10.1934
Neðri deild: 16. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1722 í B-deild Alþingistíðinda. (2246)

67. mál, útflutningsgjald af síld til hlutaruppbótar sjómönnum

Frsm. (Finnur Jónsson):

Það hefir ekkert nýtt komið fram við þessar umr., sem breytir nokkru því, sem ég hefi áður sagt um þessi mál. Ég sagði áður, að hér væri að ræða um endurgreiðslu eða ekki endurgreiðslu. Eftir því greiða menn atkv. Það er ljóst af þeirri rauðu stjórnarskrá, sem farið er að tala um jafnhliða stjskr. ríkisins, að um endurgreiðslu er að ræða, sem ganga á til hlutaruppbótar sjómönnum. Ég veit, að hv. þm. Vestm. og aðrir hv. sjálfstæðismenn hér í þessari hv. deild eru ekki bundnir við hina rauðu stjskr. og hafa stundum jafnvel ekki verið bundnir við þá reglulegu stjskr. ríkisins. Aftur á móti eru útgerðarmenn bundnir við till. frv. um úthlutun með lögskráningu, sem farið hefir fram í Rvík og Hafnarfirði og auk þess á mörgum skipum um land allt, sem skrá samkv. taxta Sjómannafélags Reykjavíkur. Í lögskráningunni gefa útgerðarmenn sjómannasamningnum fullt lagagildi og lofa að greiða þeim hlut með 7 kr. á tunnu, ef tollurinn verður endurgreiddur. Og ennfremur, ef menn fá féð ekki endurgreitt samkv. lögskráningunni, geta þeir snúið sér til dómstólanna og fengið sér dæmt það, sem á vantar.

Það er skýlaust tekið fram í lögskráningunni, að sjómenn skuli ráðnir upp á 5 kr. lágmarksgjald á síld, en fáist tollurinn endurgreiddur, eru útgerðarmenn skyldir til þess að borga 7 kr. (JJós: Í l. er ekki gert ráð fyrir að skila þessu til útgerðarmanna).

Hv. þm. A.-Húnv. lýsti yfir því í síðustu ræðu sinni, að hann væri endurgreiðslunni mótfallinn. Ég býst við, að það, sem hann sagði, sé hugur sjálfstæðismanna í þessum efnum.

Ég sé nú ekki ástæðu til þess að fara í mannjöfnuð við hv. 6. þm. Reykv. Ég tel ótilhlýðilegt, að við séum að metast um, hvor okkar sé meiri eða minni maður, hér á Alþingi. Við höfum verið í sama bænum um 11 —12 ára skeið og lagt manngildi okkar og kosti þeirrar stefnu, sem við höfum fylgt, undir dóm kjósenda í kaupstaðnum. Það hefir farið svo, hvernig sem á því stendur, að ég hefi verið hlutskarpari en hv. 6. þm. Reykv. (SK: Ég hefi alltaf haft beztu mennina á mínu bandi). Það er fyrst, þegar hv. 6. þm. Reykv. kemur alveg ókunnur til höfuðstaðarins, að hann kemst í trúnaðarstöðu og til metorða. Um orðbragð hans yfirleitt skal ég ekki fjölyrða.

Þessi sami hv. þm. sagði hér í hv. deild, að persónulegir hagsmunir mínir gerðu það að verkum, að ég vildi, að endurgreiðslan hækkaði til þeirra, sem hæstan hlut hefðu haft. Ég lýsi yfir því hér með, að þetta eru tilhæfulaus ósannindi, en þetta er aðeins smásýnishorn af venjulegum málflutningi hv. þm.

Ég sé að sinni ekki ástæðu til þess að fjölyrða frekar um þessi mál. Það hefir ekkert komið fram, sem breytt getur þeirri staðreynd, að Alþýðu- og Framsfl. hafa samið um þetta með góðu samþykki bæði útgerðarmanna og sjómanna. Þeir aðilar báðir ætlast til þess, að endurgreiðsla fari fram eins og frv. gerir ráð fyrir.