22.10.1934
Neðri deild: 16. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1723 í B-deild Alþingistíðinda. (2247)

67. mál, útflutningsgjald af síld til hlutaruppbótar sjómönnum

Sigurður Einarsson:

Eins og ég tók fram í fyrri ræðu minni, er ég reiðubúinn til þess að veita því fylgi mitt, að gerðar verði gagngerðar ráðstafanir til þess að jafna hlut manna og til þess að sporna við því, að það, sem menn bera úr býtum, sé í öfugu hlutfalli við það, sem þeir hafa aflað sér, eins og hv. 8. landsk. miðar að með brtt. sinni. Það er mín skoðun, að hv. 8. landsk. sé ekki þess megnugur að gera neina breytingu á þessu sviði. Þessi brtt. hv. þm. er ofurlítil prívat-bylting á móti þeirri grundvallarreglu, sem gilt hefir um eignarréttinn í landi hér, sem hv. þm. virðist gera að gamni sínu.

Um það, sem hv. þm. sagði í ræðu sinni að öðru leyti, get ég verið fáorður. Hann sagði, að ég hefði villzt á rökum í þessu máli, þar sem ég segði, að engu máli skipti, hvort hér væri um endurgreiðslu eða styrk að ræða. Fyrir mér vakti aðeins að gera það, sem réttast er í þessu efni. Þótt hv. 8. landsk. eigi ekki gott með að ímynda sér, að sú lausn málsins vekti fyrir mér, þá get ég ekki við því gert. Orð mín voru þessi: Endurgreiðsla eða styrkur skiptir nokkru máli hér, en ekki öllu. Hv. 6. þm. Reykv. talaði nokkurt mál um það, að sjómenn, sem hann virtist vera mjög fyrir brjósti, yrðu ekki hafðir fyrir spé hér á þingi. Hv. þm. virðist vera spéhræddari en almennt gerist. Það er ekkert skoplegt við þetta mál, ef frv. verður samþ. En það yrði skoplegt, ef þingið færi að praktisera jafnaðarstefnu frá hv. 6. þm. Reykv. Þá yrði spé um land allt, og menn mundu segja: „Heyr undur og firn mikil“.

Hv. þm. A.-Húnv. vék einnig að mér í þessu máli. Ræða hans var svo úti á þekju, að það var því líkast, að hann hefði fallið ofan úr einhverjum æðri sæluheimkynnum niður í þingsalinn. Ég vildi aðeins óska, að hann hefði verið kyrr í þessum sæluheimi, í stað þess að vera hér niðri, þar sem gusturinn af þessu máli er svo mikill.

Að lokum vil ég minnast á það, að ég held ekki, að mér hefði dottið í hug, enda þótt í kekki hefði kastazt milli mín og hv. 8. landsk., að núa honum því um nasir, að hann stæði mér neðra á landskjörslistanum. Mannjöfnuður af þeim orsökum er ekki hyggilegur. Hv. 8. landsk. finnst þessi eina trappa, sem á milli okkar er í landskjörsstiganum, gefa nóg tilefni til þess að vekja athygli þingsins á henni.