03.11.1934
Efri deild: 29. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1734 í B-deild Alþingistíðinda. (2265)

67. mál, útflutningsgjald af síld til hlutaruppbótar sjómönnum

Atvmrh. (Haraldur Guðmundason) [óyfirl.]:

Ég skil ekki í því, hvernig þetta frv. getur orðið hér sú hneykslunarhella, sem ætla má af ræðu hv. 1. þm. Skagf. Hann talar um pólitíska spillingu í sambandi við það, og blæs sig upp af „indignation“ yfir þessu háttalagi. Mér virðist, að hv. þm. ætti frekar að koma svona tali að, þegar einhver þau mál kunna að vera til umr., sem frekar gefa tilefni til slíks en þetta mál.

Við 1. umr. þessa máls hér í þessari hv. d. gerði ég grein fyrir því, að á undanförnum þingum, ár eftir ár, hefðu verið gerðar tilraunir til þess af Alþfl. að lækka þetta útflutningsgjald af síld. Sumir úr flokki hv. 1. þm. Skagf., eins og t. d. hv. 1. þm. Reykv., hafa tjáð sig þessu meðmælta og talið, að gjaldið væri allt of hátt. Þessi skattur, sem ætlazt er til að greiddur sé af útfluttri síld, nemur fullkomlega af verði því, sem allir skipverjar fá í sinn hlut. Flestir sjómenn eru ráðnir upp á þriðja part, og sé verðið kr. 5.00 á tunnuna, þá verða það kr. 1.67, sem skiptast á milli skipverja, en útflutningsgjaldið er kr. 1.00 af tunnu. Við þetta má svo bæta innflutningstolli af umbúðum, salti o. fl., sem dregur líka frá söluverði síldar.

Það, sem hv. 1. þm. Reykv. að öðru leyti finnur frv. til foráttu, er það, að hlutur þeirra eigi að verða mestur, sem mestar hafa haft tekjurnar. Hann er hér fullur af umhyggju fyrir þeim, sem minnstar tekjur hafa haft, og vill rétta þeirra hlut með því að láta mest ganga til þeirra, að hann segir, og í svipaða átt gengur brtt. á þskj. 297. Um þetta vil ég bara segja það, að ef þessir hv. þm. ætla að fara að jafna tekjur manna, eins og nú virðist vaka fyrir þeim, þá er vitaskuld ekki snefill af heilbrigðri skynsemi í því að taka aðeins 2 mánuði ársins út úr. Ef nokkur skynsemi væri í þessu, þá yrðu þeir að heimta skýrslur yfir atvinnutekjur sjómanna í ár og taka svo jafnframt tillit til þeirra. (MG: Það sagði ég líka). Ekki er það að sjá af till., því að þar er eingöngu miðað við síldveiðitímann. En hinsvegar hafa ef til vill margir sjómenn fiskað ágætlega á vetrar- og vorvertíð, sem höfðu lítið um síldveiðitímann, og svo aftur á móti hafa aðrir aflað lítið á vetrar- og vorvertíð, en vel yfir síldveiðitímann, svo að það getur farið svo, að samanlagðar tekjur þeirra fyrrnefndu verði meiri en hinna síðarnefndu. Þó að það hafi vakað fyrir flm. till. að jafna þannig tekjur manna, þá er það gert af hreinasta handahófi, miðað við till., þar sem hér eru aðeins teknir út úr 2 mán. ársins, síldveiðitíminn, og auk þess verð ég að segja það, að mér virðist ekki í þessu tilfelli ástæða til slíks. Þegar menn ráða sig upp á hlut, þá verða þeir að taka þeirri ábyrgð, sem því fylgir.

Það, sem gert er með þessu frv., ef að l. verður, er, að það, sem kaupendur síldarinnar hafa greitt meira fyrir hana til seljenda, þ. e. a. s. sjómanna, heldur en þeir hefðu gert, ef lækkunin á tollinum hefði verið ákveðin áður en síldin var seld, gengur nú til endurgreiðslu til sjómanna.

Hv. 1. þm. Skagf. spyr hvað stj. ætli að gera fyrir sjómennina. ef þeir á næsta sumri hafi rýrar tekjur. Þessu er stj. búin að svara. Það hefir verið lagt fram frv., sem útlit er fyrir að verði samþ., um það, að sú leið, sem komið er inn á með þessu frv., verði farin framvegis. Eftirleiðis á þess vegna ekki að greiða hærra útflutningsgjald af síld en öðrum sjávarafurðum. Þ. e. a. s., að sú hjálp, sem veitt er í ár með lækkun síldartollsins, verður tryggð með l. framvegis. Um það, hvernig fara eigi að að hjálpa bændum, þegar svo freklega sé farið í að hjálpa sjómönnum, eins og hv. 1. þm. Skagf. álítur að gert hafi verið, er það að segja, að þessi hv. þm. veit það eins vel og ég, að það hefir býsna mikill fimi af þessu þingi farið í að reyna að hjálpa bændum. Má nefna t. d. kjötsölul., sem hafa leitt til verðhækkunar á kjöti, og því verður ekki neitað, að einmitt þau hafa óhjákvæmilega orðið til þess að gera kjötið dýrara fyrir neytendur en það ella hefði orðið.