03.11.1934
Efri deild: 29. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1736 í B-deild Alþingistíðinda. (2267)

67. mál, útflutningsgjald af síld til hlutaruppbótar sjómönnum

Forsrh. (Hermann Jónasson) [óyfirl.]:

Ég ætla ekki að blanda mér sérstaklega inn í þessar umr. um síldartollinn. En ég vildi aðeins minnast á það, í sambandi við það, sem hv. 1. þm. Skagf. var að tala um pólitíska spillingu, að ég sé ekki, hvaða spilling er fólgin í því, þó að útflutningsgjald af síld sé fært til samræmis við útflutningsgjald af öðrum sjávarafurðum. Þó svo að þessi ráðstöfun sé gerð með samningi fyrirfram, eins og þessi hv. þm. var að tala um, þá snertir sú ráðstöfun ekki á nokkurn hátt neinn þannig, að hún verði til tjóns, nema þá ríkissjóð , sem gerir þessa sanngjörnu ívilnun á tollinum. Það snertir t. d. ekki hið allra minnsta þá, sem gera út á síld. Það á sér þess vegna ekki neina staði að vera að tala um spillingu í sambandi við þetta. Það var annars einkennilegt að heyra af hans vörum talað um pólitíska spillingu, og mun ég fús til að ræða við hann um slíkt, þegar tilefni gefst.

Þá var það annað atriði, sem ég vildi minnast á. Það var viðvíkjandi því, að yfirlýsing hefði komið um það frá atvmrh., að það eina, sem gera ætti fyrir bændur, væri að koma í framkvæmd kjöt- og mjólkursölul. Þessi mál eru ekki á dagskrá hér í dag, og ég sé þess vegna ekki ástæðu til þess að ræða um þau við hv. 1. þm. Skagf. Þessi hv. þm. hefir það fyrir vana að slá hér í d. fram þeim staðhæfingum, að því hafi verið slegið föstu af stj., að ekkert ætti að gera fyrir bændur. En sem sagt, um þetta skal ég fúslega ræða við hann, þegar þessi mál eru á dagskrá, en sé ekki ástæðu til þess að ræða um í sambandi við þetta mál, sem hér liggur fyrir nú.