03.11.1934
Efri deild: 29. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1736 í B-deild Alþingistíðinda. (2268)

67. mál, útflutningsgjald af síld til hlutaruppbótar sjómönnum

Frsm. meiri hl. (Sigurjón A. Ólafsson):

Hv. frsm. minni hl. og meiri hl. n. eru í aðalatriðunum sammála um nauðsyn þess, sem málið fjallar um. Ágreiningurinn er um fyrirkomulagsatriði, um það, hvernig eigi að úthluta þessu fé, sem hér um ræðir. Um þetta atriði hefir verið rætt mikið bæði að þessu sinni og við 1. umr. málsins, og skal ég því vera fáorður um það.

Hv. þm. N.-Ísf. sagði, að það gætu orðið fleiri, sem kæmu til greina við úthlutun uppbótar heldur en sjómennirnir einir, sem síldina veiddu. En ég hygg, að meðal almennings sé enginn ágreiningur um það, að þeir einir eigi að koma til greina, sem fengust við að veiða síld til söltunar. (JAJ: Það snertir ekkert þetta frv.). Nei, það snertir ekki þetta frv., en mér skildist á hv. þm., að hann áliti, að þessi endurgreiðsla gæti náð til einhverra þeirra manna, sem ekki hefðu stundað slíkan veiðiskap sem hér ræðir um. (JÁJ: Misskilningur).

Um hitt atriðið, sem hann minntist á, hvernig lögskráð var á Ísafirði, er það að segja, að ég skal viðurkenna, að það sé rétt hjá honum, að menn hafi ekki verið lögskráðir á skip með sömu ákvæðum á Vesturlandi og voru á Suðurlandi og víðast á Norðurlandi. Þar mun þetta ákvæði ekki hafa verið tekið inn. En ég sé samt ekki ástæðu til þess að láta ekki það sama yfir alla ganga hvað þetta snertir. Þau ein ákvæði, sem voru í samningum um þetta efni hér á Suðurlandi, voru þau, að ef tollurinn fengist endurgreiddur, þá skyldi hann fylla upp það 7.00 kr. verð, sem áttu að verða samtök um að knýja síldarkaupmenn til þess að greiða. Í þessu sambandi er vert að geta þess, að útgerðarmenn voru hjartanlega sammála sjómönnum um það, að tollurinn, sem í raun og veru væri mjög ranglátur á þessum atvinnuvegi, ætti að koma þeim til góða, sem veiddu síldina. Þetta fyrirkomulag verður vitanlega ekki nema í þetta skipti, vegna þess, að þegar tollurinn er kominn niður í það að vera verðtollur, eins og nú er ákveðið, að hann verði, þá kemur sú hækkun, sem tollmismuninum nemur, síðar meir öllum til góða. Ég skal geta þess, að það mun hafa komið til orða að afnema tollinn með öllu, m. ö. o. fella niður innheimtu hans með öllu — það munu hafa verið einstöku saltendur, sem stungu upp á þessu. — en ef svo væri, þá kæmi hann eins og hvert annað happ til þeirra, sem flytja síld út. Útgerðarmenn litu svo á, að þá mundi tollniðurfærslan koma niður á röngum stað, því að hún mundi þá eingöngu lenda í höndum þeirra manna, sem hafa verið kallaðir „leppar“, eða m. ö. o. til þeirra umboðsmanna erlendra spekúlanta, sem kaupa síld hér og flytja út. Og það þótti sem með þessu væri verið að gefa þeim fé, sem þeir á engan hátt áttu skilið að fá, og þess vegna var þessi leið valin, sem hér er verið að ræða um.

Um það atriði, hvort einhver skip hafi selt fyrir hærra verð en kr. 7.00 á tunnuna, og jafnvel upp í kr. 10.00, skal ég ekki deila við hv. þm. Ég hefi ekki átt kost á að fá í hendurnar gögn, sem hrekja það, sem hann segir um þetta, en þó þykir mér þetta mjög ótrúlegt, þar sem vitað er, að skip urðu yfirleitt að fara á síldveiðar bundin þeim samningum, að kr. 5.00 fengjust fyrir tunnuna. Að nokkurt skip hafi til jafnaðar fengið kr. 8.00 fyrir tunnuna, þykir mér mjög ótrúlegt, án þess að ég sé að rengja sögusögn hv. þm. um þetta. Það var yfirleitt svo í byrjun síldarvertíðar í sumar, að það þorði enginn að ráða sig á skipin, nema að tryggja sér með samningi kr. 5.00 fyrir tunnuna. Þetta var sá samningur, sem yfirleitt var fáanlegur við síldarkaupmenn hér á landi í sumar. Undanskildir þessu eru þeir fáu, sem eru hvorttveggja í senn, síldarsaltendur og útgerðarmenn, og sem í raun og veru þurfa ekki að selja neinum nema sjálfum sér.

Ég vil svo ekki deila frekar um þetta mál við hv. þm. V.-Ísf., en ég endurtek það, sem ég sagði í fyrri ræðu minni, að ég álít, að sú breyt., sem hann vill gera, sé til óhagræðis við málið og aðeins til að tefja fyrir því.

Þá vil ég segja nokkur orð við hv. 1. þm. Skagf. Sá er munurinn á þessum hv. þm. og hv. þm. N.-Ísf., að hjá honum virðist anda frekar köldu til þessa máls og gæta nokkurrar eftirtölu um þetta framlag af hálfu ríkissjóðs til þeirrar stéttar, sem þess á að njóta. Ég hygg, að það sé alveg óþarft í þessu sambandi að vera að tala um, að bændastéttin sé fyrir borð borin og hér sé verið að hygla annari stétt landsins , sem ef til vill eigi það ekki skilið. Og ég vil aðeins geta þess, að þau ár, sem ég hefi fylgzt með stjórnmálum hér á landi og tekið þátt í þeim sjálfur, þá hefi ég ekki orðið var við, að íslenzku sjómannastéttinni hafi verið hyglað fé úr ríkissjóði, þó að að hafi þrengt hjá henni. Það er ekki hægt að segja annað en að hún hafi á mörgum árum átt við þröngan kost að búa, þegar lágt verð hefir verið fyrir afurðirnar og þröngt um aflaföng. Ég ætla ekki að neita því, að íslenzka bændastéttin hafi átt við þröngan kost að búa, en ég veit það, að þessi hv. þm. játar það með mér, að það er ólíkt, hvað þingið hefir á undanförnum árum lagt sig meira í líma við að létta undir með íslenzku bændastéttinni heldur en sjómannastéttinni. Ég er ekki að telja það eftir, þó að ég geri samanburð á þessu. Hún hefir fengið nýja löggjöf og bæði beina og óbeina tryggingu , sem er mikils virði.

Íslenzka sjómannastéttin er undirstaða undir fjárhagslegu lífi þjóðarinnar og framtíð hennar sem sjálfstæðs ríkis. Það er öllum vitanlegt, að ríkið hefir aðaltekjur sínar af þeim sjávarföngum, sem vinnandi hendur sjómannanna færa að landi. Þá sagði hv. þm., að ég hefði ekki búið mig undir að finna í íslenzkri stjórnmálasögu hliðstétt dæmi því, sem hér er um að ræða. En ég hygg, að ef vel væri leitað, mætti finna ýms dæmi þess, að gerðar hafi verið ekki óskyldar ráðstafanir og það bundið fastmælum milli flokka áður en endanlegt samþykki Alþingis í heild kæmi til. t. d. um hagsmunamál bændanna. Ef hér er eitthvað ósæmilegt á ferðum, er víst óhætt að segja, að slík vansæmd hefir fallið á fleiri en núv. stj. og stuðningsflokka hennar. Það var almenn skoðun útgerðarmanna, að þetta væri sjálfsögð leið. Ef til vill hafa einhverjir þeirra ætlazt til að fá eitthvað í sinn hlut, en þess var álitin minni þörf. Hlutur sjómannanna getur orðið svo lítill, að þeir fái með engu móti dregið fram lífið, þó að útgerðarmennirnir geti klofið rekstrarkostnaðinn. Ég ætla ekki að svara fyrir stj., hvað hún ætlast fyrir um þetta mál næsta ár. En ég skal taka fram, hvað það er, sem sjómennirnir ætlast til. Þeir ætlast til, að það skipulag verði á haft um sölu sjávarafurðanna, að þeir fái að launum vinnu sinnar hlutfallslega réttan skerf af því, sem fyrir framleiðsluna fæst á erlendum markaði. Þeir ætlast ekki til þess, að hér fái að þrífast milliliðir og leppar, sem hirða kúfinn af arðinum. Það er nú sannast að segja, að útlitið er ekki svo glæsilegt, að sjómennirnir séu öfundsverðir. Skipunum fækkar, en sjómennirnir eru eins margir eða fleiri. Það er eigi að furða, þó að þeir líti með ugg til framtíðarinnar. Það er verkefni Alþingis að sjá um, að þessi stétt geti haldizt við störf sín. Því aðeins getur afkoma landsins orðið góð.