08.10.1934
Sameinað þing: 3. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 45 í B-deild Alþingistíðinda. (227)

1. mál, fjárlög 1935

Magnús Jónsson [óyfirl.]:

Mér finnst rétt að nota þessar mínútur, sem eftir samþykktum útvarpsins eru heimilaðar andstöðuflokkum stjórnarinnar til andsvara fjárlagaræðunni, enda þótt ég verði að játa, að það er jafnan nokkuð erfitt að svara fjárlagaræðum samstundis og þær eru fluttar. Þar er jafnan hrúgað saman margvíslegum tölum, sem enginn tími er til að skrifa upp, hvað þá að moka nokkuð sundur þeim haugum. Það verður að bíða þar til fjárlagaræðan hefir verið prentuð.

Hinsvegar tel ég ekki ástæðu til að falla frá þeim rétti að mega svara ræðu hæstv. fjmrh. nú þegar, því margt var það í ræðunni, sem minnti átakanlega á bágborinn fjárhag ríkissjóðsins. Ég get því hugsað mér, að ýmsum hafi brugðið við að heyra borið fram mitt í þessu ástandi hið hæsta fjárlagafrumvarp, sem sézt hefir á Alþingi. Það sýnir nokkuð ljóslega, hvaða viðhorf þeir menn, sem nú eru komnir að völdunum, hafa til fjármálanna.

Menn hafa sjálfsagt úti um landið nú sem fyrr gert sér vonir um það, að þingið og stjórnin leysti úr ýmsum erfiðum og nauðsynlegum málum, sem þangað hefir verið vísað. Sumir hafa jafnvel haldið, að nú væri myndað hreint göldrótt þing, sem leyst gæti hinar erfiðustu þrautir, en ég get ekki varizt því að efast nokkuð um krafta þessa Alþingis, er ég lít yfir hina fyrstu starfsviku þess. Mér dettur ósjálfrátt gömul vísa í hug, sem Björn heitinn Jónsson heimfærði eitt sinn upp á eitt óvenjulega lélegt þing. Hún er svona:

Mánudaginn, þriðjudaginn kerling sat og spann,

miðvikudaginn, fimmtudaginn bar hún verkið fram,

föstudaginn, laugardaginn hvíldi hún lúin bein,

en á sjálfan sunnudaginn tók hún út sín laun.

Þingið hófst nú einmitt á mánudag, — og hvað hefir það svo starfað í heila viku? Það hefir ekkert gert nema að skipuleggja sjálft sig. Það eru forráðamennirnir, sem ráða vinnubrögðunum. Stjórnarfrumvörpin eru fyrst lögð fram seinni hluta laugardags. Slíkt hefir aldrei heyrzt fyrr. Í 38. gr. stjskr. er þó tekið fram, að þau eigi að vera tilbúin fyrir þing. Eimskipafélagi Íslands er kennt um þennan drátt, eða „Gullfossi“, af því hann hafi orðið á eftir áætlun. Ég held nú, að það hefði verið ákaflega vandalaust að komast hjá þessum drætti. Það hefði víst verið óhætt að lofa þingmönnum að sjá þessi merkilegu plögg, þó kóngur væri ekki búinn að leggja blessun sína yfir þau. Nei, í stað þess er þingið látið vera að berjast við það alla vikuna að skipta sér í deildir. Og hvernig hefir svo þetta eina verk farið þinginu úr hendi? Þannig, að margir efast um, að efri deild sé löglega skipuð. Það virðist þó ofur einfalt mál að kjósa til efri deildar. Það átti að kjósa þangað 16 menn, en svo komu fram listar með 18 nöfnum. Það var ekkert auðveldara en að kjósa um þessa lista, eins og þingsköp mæla fyrir, — en hvað skeður? Í stað þess að láta kosningu fram fara, úrskurðar forseti þá menn til efri deildar, sem honum lízt bezt á. Margir álíta, að vafi sé á því, hvort Ed. sé nokkur til, og þá hvort Nd. sé til, eða hvort Alþingi sé til. Og þá getur líka verið vafasamt, hvort það er löglegt, sem Alþingi gerir, hvort fundir deildanna eru ekki aðeins þingmannafundir og ályktanir þeirra nokkuð meira en þingmannaályktanir. Náttúrlega er það á ábyrgð stj. allt þetta. Hún á mest á hættu með að láta sér nægja slíkt þing. Það er dálítið undarlegt samræmi í kenningum og starfi þessara flokka, sem þykjast vera svo fylgjandi lýðræðinu.

Í ræðu hæstv. ráðh. voru mörg atriði, sem gefa tilefni til athugana, þó stundum væri dálítið erfitt að fylgjast með því, hvað hann var að fara. Mér þótti þó sérstaklega vænt um eitt, sem fram kom í ræðunni, og það var það, að hann taldi nú réttara að miða afkomu ríkissjóðs við greiðslujöfnuð, en ekki rekstrarafkomu. Þetta er alveg ný kenning úr þessari átt. Ég hefi áður fyrr lent í sennu við hæstv. ráðherra og flokksmenn hans út af þessu, hvort réttara væri að miða við greiðslujöfnuð eða rekstrarafkomu, og hafa þeir þá haldið fast við rekstrarafkomuna. Árið 1930 hömpuðu þeir henni mikið og töldu, að af henni mætti sjá góða útkomu hjá ríkissjóði, þó allir vissu, að greiðslujöfnuður ríkissjóðs var þá óhagstæður svo nam fleiri millj. króna. Það er ákaflega einkennileg aðferð til þess að reyna að skyggja á raunveruleikann, að kippa í burt úr gjaldadálkinum öllum afborgunum af lánum, eins og þeir vilji hafa það sér í skúffu, til þess að geta sýnt fjárlagafrv. betra en það er.

Þá prédikar hæstv. ráðh. sína dæmalausu haftatrú, hvílíka blessun innflutningshöftin vinni þjóðinni. Ég verð nú að segja það, að mér finnst dálítið einkennilegt samræmið í því hjá hæstv. ráðh., að boða aukin höft og minnkaðan innflutning um leið og hann flytur hið hæsta fjárlagafrv., sem sézt hefir á Alþingi. Tvö næstu fjárl.frv. á undan þessu voru um 12 millj. króna, en þetta er um 13,7 millj. króna, eða 1¾ millj. hærra en áður hefir þekkzt. Hæstv. fjmrh. reyndi að draga úr þessari hækkun. Hann telur mikið af hækkuninni stafa af hækkuðum áætlunum; þó játar hann, að um 700 þús. kr. sé raunveruleg hækkun. Til þess að hafa eitthvað upp í það leggur hann til, að lækkaður verði styrkurinn til Eimskipafél. Íslands um 100 þús. kr. og felld niður dýrtíðaruppbót á launum yfir 4600 kr., er nemur samtals 70 þús. kr. En þá verða enn eftir yfir 500 þús. kr., og svo er nú Alþingi ekki búið að samþ. þessar lækkunartill. ráðh. Það má því líta svo á, að virkileg hækkun sé 700 þús. krónur.

Nú er búið að ganga frá Lr. fyrir árið 1933. Þar eru útgjöldin talin 14,5 millj. kr., og er það hærra en hæstv. fjmrh. gerir ráð fyrir að verði í fjárl. fyrir árið 1935. En er þetta þá nokkuð annað en það, að áætlunin er of lág? Fjárlögin enn ekki nógu há. Er ekki líklegt, að útgjöldin verði svipuð 1935 og þau voru 1933? Eða treystir hæstv. ráðh. sér til þess að binda hendur þingmanna svo, að engin viðbót verði samþ. við gjöldin? Hann má reiða sig á, að það er ómögulegt. Og hvaða ráð eru þá fyrir hendi til þess að jafna fjárlögin? Það er um tvær leiðir að velja. Önnur er sú, að hækka skattana enn, reyna að knýja meira út úr hinum þrautpíndu gjaldendum, skera miskunnarlaust niður atvinnurekendurna. Hin leiðin er sú, að lækka gjöldin, láta tekjumöguleikana ákveða gjöldin, ákveða tolla og skatta ekki hærri en svo, að þjóðin fái undir þeim risið, og sniða svo útgjöldin eftir tekjunum.

Í tekjuaukafrumvörpum stj. er engin áætlun um það, hvað þau muni gefa miklar tekjur, nema í einu þeirra, en hæstv. fjmrh. gerði áætlun um það í ræðu sinni. En þegar þær tekjur eru dregnar frá tekjuhalla fjárl., þá á hann þó enn eftir 400 þús. kr í pokahorninu, sem tekjur vantar á móti. Eru þó tekjur af þessum nýju frv. vel taldar. Þetta sýnir glöggt, hvert ástandið er. Þó er það annað, sem ef til vill gefur gleggst hugmynd um ástandið. Það kom fram í ræðu hæstv. ráðh., að skattana þyrfti að hækka, af því að tekjustofnarnir væru farnir að bregðast. Það er eftirtektarvert fyrirbrigði. Það er hægt að hækka skattana á pappírnum, en skattstofnarnir eru farnir að bregðast, þeir eru farnir að rýrna. Hér er gripið á kýlinu. Þetta sýnir allra bezt, hversu háskaleg skattastefna stj. er. Atvinnuvegirnir eru farnir að sligast undan sköttunum. Tuskan er að verða þurrundin. Það er hægt að vinda hana enn, en það kemur bara ekkert úr henni. Hér er hæstv. fjmrh. ekki að draga upp neina grýlu. Svona eru tekjustofnar ríkisins á árinu 1935, þegar við eigum að búa við hæstu fjárlögin, sem sézt hafa á Alþingi. Og hvernig mundi þeim svo líða, sem eiga að standa undir þessum hæstu fjárlögum? Ástandi landbúnaðarins var lýst í áliti kreppunefndarinnar á sínum tíma. Það var ekki glæsilegt, en það hefir ekki batnað síðan. Síðan hefir þessi atvinnuvegur orðið að þola eitthvert hið hörmulegasta árferði um mikinn hluta landsins, og sumstaðar fullkomið hallæri. Þar við bætist minnkandi sala á afurðum bænda, vegna minnkandi kaupgetu innanlands. Og svo til þess að kóróna allt þetta, þá fara hinar réttmætu ráðstafanir stjórnarinnar til þess að hækka kjötverðið henni þannig úr hendi, að slíkt er alveg einsdæmi. Með blaðaskömmum í stjórnarblöðunum er hafin slík herferð gegn neytendunum, að úr hófi keyrir. Það verður erfitt að trúa því, að þarna séu að verki þeir menn, sem vilja selja kjötið. Þeir hafa kannske líka mestan áhuga fyrir því að selja það ekki, til þess að geta notað kjötsölumálið sem beitu áfram. Það hafa margir glöggir menn sagt mér, að fjöldi bænda í sveitunum hangi enn við búskapinn, af því að þeir geta ekki losnað við jarðirnar.

Ég skal þá snúa mér að sjávarsíðunni. Nefnd sú, sem á að athuga fjárhag þess atvinnuvegar, er því miður ekki búin að skila áliti, en menn vita, að ástandið er ískyggilegt. Togaraflotinn eldist og gengur úr sér. Ef skip eyðileggst, kemur ekki annað í staðinn. Þessi auðlind þjóðarinnar er að þorna. Mótorútgerðin er lömuð af skuldum. Það liggur við borð, að heilar stórar verstöðvar verði að taka til svipaðrar meðferðar og landbúnaðinn. Það eru milljónir króna, sem útgerðarmenn hafa tapað á síðustu árum, og það sýnir, að sæmilegur hagur hefir verið í landinu 1929, að þessi atvinnugrein skuli hafa getað látið eins mikla peninga af hendi eins og hún hefir gert á síðustu árum. En úr því svona er komið fyrir útgerðinni, má geta nærri, hvernig fer fyrir iðnaði og verzlun. Iðnaðurinn lifir að vísu fölsku lífi í skjóli ýmissa hafta og ráðstafana, en það er sama, hann hlýtur að líða af því, að sjálf framleiðslan á sjó og landi lamast. Þessum atvinnuvegum, sem svona er komið fyrir, býður hæstv. fjmrh. fagnaðarboðskap hárra fjárlaga, af því að tekjustofnarnir eru farnir að rýrna. Ég ætla ekki að tala um, hvernig sveitar- og bæjarfélög eru stæð eftir að hæstv. fjmrh. hefir farið eins og stormvindur og sópað hvern vasa í ríkissjóð, hvernig þau eigi að ná inn sínum tekjum. Ef ég mætti leyfa mér ofurlitla líkingu í þessu sambandi þá finnst mér þetta ástand ekki ólíkt manni, sem er staddur einhesta fjarri öllum mannabyggðum. Hann á allt undir fótum þessa klárs, en hann fer að finna, að klárinn er farinn að þreytast. Hæstv. fjmrh. tekur þá aðferð að slá í klárinn, sem sagt auka skattana. Klárinn tekur sennilega kippi snöggvast, en brátt sækir í sama horfið. Þá má slá í enn, þangað til klárinn, atvinnuvegirnir, liggur og hreyfir sig ekki lengur. Nei, hér þarf að fara öðruvísi að. Hygginn maður mundi fara af baki, ganga hverja brekku og hverja þunga færð. Þó hann væri veikur og haltur, mundi hann gera það, því hann á líf sitt undir klárnum. Hann myndi ekki spyrja: hvað á að gera, hvenær er mér óhætt að ganga? Hann myndi bara segja: ég verð að ganga eins mikið og ég get.

Það er satt og það skal ég játa með hæstv. fjmrh., að það er ekkert verk til erfiðara í meðferð opinberra mála en það að rifa seglin í fjármálum. Það getur kostað þá þm., sem eru með í því, þingsætið. Þeir fá ekkert lof, bara skammir, þeir eru kallaðir þröngsýnir og afturhaldssamir. En það þýðir ekki að spyrja eins og hæstv. fjmrh. gerði: Á að skera niður landhelgina, skólana eða læknaskipunina? Það á bara að spyrja um það, hvort til séu peningar, og ef þeir eru ekki til, þá er eina leiðin að fara um allt svæðið og reyna að draga saman á öllum sviðum, og eins ef þarf að hækka skattana, þá er helzta ráðið að dreifa hækkuninni sem víðast.

Ég veit, að hæstv. ráðh. getur ekki ætlazt til þess, að ég á þessum fáu mínútum, sem ég hefi til minna umráða, geti gert ákveðnar till. um niðurfærslur. Ég álít bara, að það þurfi að fara af baki klárnum, hlífa honum; þetta er bezta skepna, — sveitirnar okkar eru ágætar. Mér er sagt, að íslenzk mold sé ein bezta í veröldinni; en tíðarfarið er erfitt. Sveitirnar gætu fóstrað stórar þjóðir. Og fiskimiðin okkar eru þau beztu og sjómennirnir ágætir. En þetta er allt lamað, þreytt eftir kreppuna, sem hefir verið undanfarið. Við verðum að hlífa atvinnuvegunum í svipinn, þá gefa þeir meiri arð.

Ég vildi óska, að fjvn. þingsins fari þá einu réttu leið, að hækka ekki gjöldin, sem á þjóðinni hvíla, en sníða þau þannig, að ekki verði halli á fjárlögunum, því ég er alveg sammála hæstv. fjmrh. um það, að þetta þing á að afgreiða hallalaus fjárlög, ekki rekstrarhallalaus, heldur eins og hann sagði sjálfur greiðsluhallalaus fjárlög.