03.11.1934
Efri deild: 29. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1741 í B-deild Alþingistíðinda. (2273)

67. mál, útflutningsgjald af síld til hlutaruppbótar sjómönnum

Frsm. meiri hl. (Sigurjón Á. Ólafsson):

Ég vil segja nokkur orð út af ræðu hv. 1. þm. Reykv. Mér finnst ekki ástæða til þess að endurtaka neitt af því, sem ég svaraði hinum hv. ræðumönnunum. Hv. þm. drap á það, að engin skýrsla lægi fyrir hjá Alþ. eða hv. n. Þetta er vitanlega alveg rétt. En ég hefi getið þess hér í þessari hv. d., að það hafi verið ýmsum örðugleikum bundið og útheimt mikla fyrirhöfn að geta náð í þessar skýrslur, svo að haldi komi. Menn eru ekki lögskyldir til þess að láta slíkar skýrslur í té, og enda þótt þeir geri það, er alls ekki víst, að þær skýrslur séu áreiðanlegar.

Viðvíkjandi því, sem hv. þm. sagði um það, að við jafnaðarmenn hefðum eiginlega hafið kröfuna um þessa hækkun verðsins, þá vil ég leiðrétta þennan misskilning. Það merkilega er í þessu máli, að verðhækkunarkrafan er runnin frá útgerðarmönnum. Það voru þeir, sem komu til sjómanna og spurðu þá, hvort þeir vildu vera með í því að gera samkomulag um verðhækkun. Þeir eiga við þetta sama skipulag að búa og geta því ekki fengið það verð fyrir síldina, sem þeir álíta, að hægt sé að greiða fyrir hana af þeim, sem kaupa hana til útflutnings. Þess vegna voru það þeir, sem báðu sjómennina að vera með sér í því að hækka verðið. En eins og ég gat um við 1. umr. þessa máls, þá skorti, þegar til átti að taka, samtök milli útgerðarmanna, sem gætu staðið eins og veggur gegn síldarkaupendum. Á þessu strandaði málið. Þeir segjast frekar vilja gera skipin út fyrir 5 kr. verð, því að annars megi búast við, að síldarkaupendur neiti að kaupa síldina. Að sjálfsögðu brustu samtök sjómann, og þá fyrst og fremst norðanlands, en þaðan var krafan fyrst komin, þegar útgerðarmenn sögðu, að þeir skyldu gera út skipin að þessu sinni fyrir þetta lága verð, ef sjómenn vildu fallast á að ráðast á þau fyrir óbreytt verð. Óánægjan er ekki minni meðal útgerðarmanna heldur en meðal sjómanna, því þeir þykjast sannfærðir um, að hægt sé að greiða meira fyrir síldina en gert hefir verið 2 síðustu ár. Þetta vildi ég leiðrétta með því að sýna fram á, hvaðan þessi samtök voru upphaflega komin.

Ég ætla ekki að fjölyrða um þá spillingu, sem hv. þm. talaði um í þessu efni. En ég hygg, að okkar þjóð — jafnt sem aðrar þjóðir — hafi fullt leyfi til þess að grípa til slíkra ráða um það að létta undir með hverri þeirri stétt, sem hjálpar þarf með, jafnvel þótt það sé gert með þeirri aðferð, sem hér á sér stað. — Ég skal ekki frekar fara út í þessa úthlutun. En það mætti miklu meira um hana segja, ef fara ætti eftir þeirri reglu, sem sjálfstæðismenn fylgja, að sá, sem meira hefir aflað, láti af mörkum til þess, sem minna hefir borið úr býtum. Það yrðu þó nokkuð margir í þjóðfélaginu, sem yrðu skyldir til að miðla af háum tekjum og miklum eignum til þeirra, sem lítið eða ekkert hafa til framfærslu sér og sínum. Þetta er regla, sem þeir vilja ekki fylgja, þegar það snertir þeirra eigin buddur. En í þessu tilfelli er sú regla ekki frambærileg og mundi vekja óánægju gagnvart fiskimannastéttinni samkv. ráðningarsamningi þeirra. (JÁJ: Hverjir útgerðarmenn græddu á síðasta ári?). Það sést ekki á lifnaðarháttum þessara manna, að rekstur þeirra beri sig ekki sæmilega. Ég hygg, að hægt væri að benda á útgerðarfélög, sem græða á útgerðarrekstri þrátt fyrir þá örðugleika, sem mjög er hampað, enda verður ekki annað séð en að menn sækist mjög eftir því að hafa þennan rekstur með höndum.