03.11.1934
Efri deild: 29. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1744 í B-deild Alþingistíðinda. (2275)

67. mál, útflutningsgjald af síld til hlutaruppbótar sjómönnum

Frsm. minni hl. (Jón Auðunn Jónsson):

Ég vildi biðja hv. 4. þm. Reykv. að leiðrétta það, sem hann skaut fram í, að jafnaðarverð á síld, á meðan síldareinkasalan starfaði, hafi verið 13 kr. á hverja tunnu. Ég vil ekki, að þetta standi í Alþt., og það eftir form. þeirrar stéttar, sem á mikilla hagsmuna að gæta í þessu efni, án þess að það sé leiðrétt. Annars er þetta miklu meira en missögn. Síldareinkasalan borgaði fyrsta árið um 12 kr., síðan 7 kr., þá 3 kr., endaði með því, að síðasta árið borgaði hún 1 —2 kr., en sumum ekkert, og þó hún fengi síldina gefins, var stórtap á verzluninni. Það hefir aldrei verið eins bágborin afkoma útgerðarmanna og sjómanna eins og þegar síldareinkasalan var við lýði, fyrir utan bein og óbein töp ríkissjóðs á henni.