10.10.1934
Neðri deild: 6. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1745 í B-deild Alþingistíðinda. (2285)

44. mál, kosningar í málefnum sveita og kaupstaða

Flm. (Finnur Jónsson):

Sá galli er á l. um kosningu bæjarstjóra í kaupstöðum, að svo getur hæglega farið, að bæjarstjóri verði kosinn með minni hl. bæjarstj. að baki sér. Með því bæjarstjórinn fer, eins og kunnugt er, með framkvæmdarvald í umboði bæjarstj., liggur í augum uppi, að það getur valdið hinu mesta öngþveiti, ef bæjarstj. er í minni hl. Bæjarstjóri, sem styðst við minni hl. bæjarstj., er í raun og veru eins settur og ráðh., sem hefir minni hl. Alþingis að baki sér og stjórnar landinu í umboði minni hl. þjóðarinnar. Nú hefir þetta komið fyrir á einum stað hér á landi, Ísafirði, þar var bæjarstjórinn kosinn af minni hl. bæjarstjórnar með hlutkesti. Það er óhætt að segja, að bæði þeir, sem töpuðu, og hinir, sem unnu hlutkestið, óska eindregið eftir því, að kostur verði gefinn á því, að á Ísafirði verði kosinn bæjarstjóri, sem fái meiri hl. bæjarstj. að baki sér. Þessu frv. er ætlað að bæta úr þessum galla á lögunum með því að láta fara fram bæjarstjórnarkosningu á ný.

Það er nú talað svo mikið um lýðræði hér í þessari hv. d., að ég býst við því, að þetta frv. fái fylgi allra flokka í þinginu. — Að svo mæltu óska ég þess, að frv. verði að lokinni umr. vísað til allshn.