10.10.1934
Neðri deild: 6. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1746 í B-deild Alþingistíðinda. (2287)

44. mál, kosningar í málefnum sveita og kaupstaða

Sigurður Kristjánsson [óyfirl.]: Ég verð að játa það, að mér kemur þetta frv. undarlega fyrir sjónir, því ég fæ ekki séð, að það geti stuðlað að því, að hreinn meiri hl. fáist fyrir bæjarstjóra. Frv. sýnist vera allt ein hugsunarvilla. Ef ekki hefir verið hægt við nýafstaðnar bæjarstjórnarkosningar að fá hreinan meiri hl., hvernig á það þá að vera hægt með því að láta aðrar kosningar fara fram strax eftir fáa daga? Það er að vísu sagt í frv., að kjósa eigi fyrir þann tíma, sem eftir sé af hinu reglulega kjörtímabili, en það hlýtur að verða sama sem allt tímabilið. Það kemur strax í ljós eftir reglulegar bæjarstjórnarkosningar, hvort bæjarstjóri verður kosinn af hreinum meiri hl. eða ekki. Ef kosið verður upp aftur hlýtur það að verða þegar í stað. Hefir hv. flm. gert sér það ljóst, að það eru sömu kjósendurnir, sem eiga að kjósa strax aftur? Það er ekki hægt að hugsa sér, að þeir breyti nokkuð sinni kosningu, og hvað er þá unnið? Hér er um tvennt að ræða; annaðhvort hefir. hv. flm. ekki hugsað málið, eða þá að hann hugsar sér að beita einhverjum sérstökum ráðum til þess að breyta skoðunum manna. Ég skal láta ósagt, hvort heldur er, en það eru þá a. m. k. einhver óvenjuleg ráð, og leiði ég hest minn frá því að ákveða nokkuð um það. Hv. þm. segir, að þetta horfi til vandræða á Ísafirði; en ég sé ekki, hvernig hv. þm. hugsar sér það, að bæjarstjóri verði kosinn á annan hátt en með hlutkesti, þegar jöfn eru atkv. Máske hv. þm. ætlist til, að afnumið verði allt hlutkesti úr kosningum, t. d. þegar þingmannaefni fá jöfn atkv. Ætlast hann til, að þá verði málinu aftur skotið til kjósendanna? Nei, hlutkestið er bezta ráðið, sem menn hafa fundið, til að skera úr kosningu þegar atkv. falla jöfn. Það er gamalt ráð og þaulhugsað, og ég get ekki annað séð en það eigi eins við um bæjarstjórakosningu og aðrar kosningar. Nú vill hv. þm. fá aftur bæjarstjórnarkosningu á Ísafirði, en ég skil ekki, hvers vegna hann vill endilega svipta öllum öðrum inn í þennan vitlausa dans. Það er hægt að hugsa sér, að Ísafjörður fengi þau sérréttindi, sem frv. felur í sér, en þrátt fyrir það eru ekki minnstu líkur til, að önnur hlutföll fengjust út úr nýrri kosningu í bæjarstjórn en þau, sem nú eru, svo að flokkaskiptingin yrði óbreytt, 4:4:1. Ef þá færi svo, að Alþfl. fengi bæjarstjórann með hlutkesti, þá má öldungis eiga það víst, að strax kæmi fram vantraust á bæjarstjóra frá andstæðingum hans. Hvað á þá að gera? Á að kjósa enn á ný? Þá gæti farið svo, að ekki gengi á öðru en hlutkesti og bæjarstjórnarkosningum alltaf á víxl. Hv. flm. hefir ekki fundið aðra leið en hlutkesti til þess að skera úr kosningu. Annars er það sérstök meinloka í frv. að láta atvmrh. úrskurða um það, hvort kosning skuli fara fram aftur eða ekki. Eftir frv. á hann að geta látið fara fram kosningu hvað eftir annað í sama kaupstaðnum, kannske 10 —12 sinnum í röð, ef honum svo sýnist, en bæjarstjórn og bæjarstjóri hafa engan rétt til þess að ráða nokkru um málið. Það sýnist þó ekki mega minna vera en að meiri hl. bæjarstj. hefði einhvern kröfurétt.

Ég held nú, af því að dæma, sem ég hefi sagt um frv., að varla sé hægt að búast við, að ég greiði því atkv. fremur en aðrir vitibornir menn.