10.10.1934
Neðri deild: 6. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1747 í B-deild Alþingistíðinda. (2288)

44. mál, kosningar í málefnum sveita og kaupstaða

Flm. (Finnur Jónsson):

Þó þetta frv. sé stutt, þá er það samt ofvaxið skilningi hv. 6. þm. Reykv. Hann talar um, að atvmrh. geti látið kjósa 10 —20 sinnum í röð, en í frv. stendur, að ráðh. geti ákveðið, að bæjarstjórnarkosningar skuli fara fram á ný fyrir þann tíma, sem eftir er af kjörtímabilinu. Vill ekki hv. þm. lesa frv. aftur? Ég held, að hann hefði gott af því að reyna að átta sig á málinu.

Það er sjálfsagt og eðlilegt, að úrskurður í þessu efni heyri undir atvmrh. Til hans kasta kemur að ráða fram úr þeim vandræðum, sem af því hljótast, ef bæjarstj. verður svo skipuð, að meiri hl. fæst ekki fyrir kosningu bæjarstjóra. Báðir hv. þm., sem töluðu gegn frv., vildu halda því fram, að engar líkur væru til þess, að málskot á ný til kjósenda færi öðruvísi en nýafstaðnar kosningar. Ég veit ekki betur en að það sé ákaflega algengt að skjóta málum aftur til kjósenda með breyttum árangri, og vil ég í því sambandi minna hv. þm. á það, sem hér er hendi næst, að oft er leitað atkv. hér í hv. d. tvisvar til þrisvar sinnum við sömu atkvgr.

Þá var hv. 6. þm. Reykv. að tala um það, hvort ætti að hætta við hlutkesti, ef jöfn væru atkv. tveggja þingmannaefna, en hér er ekki um hliðstætt dæmi að ræða. Ég vil benda á það, að ef þingmenn koma sér ekki saman um að mynda stjórn, þá fer fram þingrof og kosningar á ný. Hið sama á að gilda um skipun bæjarmálanna eftir þessu frv. Það er farið fram á að lögleiða einskonar þingrofsvald í bæjarmálum, ef það kemur fyrir, að meiri hl. bæjarstj. fæst ekki um kosningu bæjarstjóra. Mér er það ljóst, að frv. felur í sér talsverða breyt., en sú breyt. er í lýðræðis- og þingræðisátt, og tilgangurinn er sá, að tryggja það, að stjórn bæjarmálanna sé í höndum meiri hl. bæjarstj.

Hv. 3. þm. Reykv. talaði um það, að líkur um árangur af málskoti til bæjarbúa væru sáralitlar, en það eru sömu líkur og þegar máli er skotið aftur til þjóðarinnar með þingrofi og kosningum.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða um frv. og treysti því, að hv. d. afgr. frv. til 2. umr. og n., hvað sem þessir hv. tveir þm. segja. Þeir eru á móti frv. aðallega fyrir það, að þeir hafa ekki lesið frv.