19.10.1934
Neðri deild: 14. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1749 í B-deild Alþingistíðinda. (2291)

44. mál, kosningar í málefnum sveita og kaupstaða

Frsm. meiri hl. (Bergur Jónsson) [óyfirl.]:

Allshn. hefir klofnað í þessu máli. Ég legg til ásamt hv. 2. þm. Reykv. og hv. 1. landsk., að frv. verði samþ. óbreytt, en hv. 8. landsk. og hv. þm. Snæf. leggja til, að frv. verði fellt.

Ég álít nú, að heppilegast hefði verið, að stj. hefði farið eftir þeirri þál., sem samþ. var á síðasta þingi, að gera almenna endurskoðun á l. Hefði það vitanlega verið heppilegast að fá allar breyt. í einu. En þessa breyt. má telja viðaukabreyt. við l., sem gerð voru í því skyni að bæta úr ófullkomnum lagaákvæðum í þeim tilfellum, sem hér um ræðir, sem sé að koma í veg fyrir það, að bæjarstjóri verði kosinn án þess að bak við hann standi meiri hl. bæjarstj., og hafi svo meiri hl. á móti sér og verði svo kannske að framkvæma margt, sem hann er algerlega mótfallinn. Það er kannske ekki vist, að úr þessu verði fullkomlega bætt með þessu frv., en þó verður það helzt gert með því að efna til nýrra kosninga, eins og frv. gerir ráð fyrir, og reyna þannig að skapa þann meiri hl., sem getur svo kosið starfhæfan bæjarstjóra. Þetta er aðeins heimild fyrir atvmrh. að ákveða, að svo skuli gert, svo að það er lítil ástæða til að halda, að það verði gert nema nauðsyn beri til, enda er svo ákveðið í frv., að þetta skuli því aðeins gert, að bæjarstjóri sé í andstöðu við meiri hl. bæjarstjórnar.

Þar að auki vil ég benda á það, eins og líka stendur í grg. frv., að það er vitanlega í fullkomnu ósamræmi við þingræði og lýðræði, ef bæjarstjóri er í andstöðu við meiri hl. bæjarstj., og það getur aldrei blessazt til lengdar, ef hann verður að ganga nauðugur að framkvæmd þeirra mála, sem framkvæma á. — Við leggjum því til, að frv. verði samþ. óbreytt.