19.10.1934
Neðri deild: 14. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1750 í B-deild Alþingistíðinda. (2292)

44. mál, kosningar í málefnum sveita og kaupstaða

Frsm. minni hl. (Garðar Þorsteinsson) [óyfirl.]:

Eins og hv. frsm. meiri hl. tók fram, hefir allshn. klofnað um þetta mál. Við hv. þm. Snæf. álítum, að þetta frv. geti alls ekki náð þeim tilgangi, sem því er ætlað, og leggjum því til, að það verði fellt.

2. gr. frv. gengur út á það, að atvmrh. sé heimilt að fyrirskipa nýjar bæjarstjórnarkosningar, ef ekki hefir náðst meiri hl. allra bæjarfulltrúa fyrir kosningu bæjarstjóra, þannig að bæjarstjóri sé í andstöðu við meiri hluta bæjarstj. Ég vil nú strax benda á það, að eins og þessi gr. er orðuð, er það alls ekki nauðsynlegt, að bæjarstjóri nái ekki kosningu með meiri hl. bæjarfulltrúa, og sá bæjarstjóri, sem ekki hefir haft á bak við sig atkv. meiri hl. bæjarfulltrúa, þarf ekki að vera í andstöðu við meiri hl. bæjarstj. Það er tekið fram í 2. gr., að það sé alveg sjálfsagt, að svo hljóti að vera, en það er misskilningur þess, sem samdi þessa gr.

Lög nr. 59 frá 1929 setja reglur um bæjarstjórnarkosningar í kaupstöðum og kauptúnum, og skipa þær svo fyrir, að hlutfallskosningu skuli viðhafa bæði um kosningu aðalmanna og varamanna. Af þessu leiðir það, að til þess að einn flokkur fái meiri hl. innan bæjarstj., þarf hann í flestum tilfellum að hafa meiri hl. kjósenda á bak við sig. Kosningalögin eru mjög rúm og heimila flokkum að koma með lista, eins og líka reyndin hefir orðið á í ýmsum kaupstöðum, og þarf þess vegna ekki mikið atkvæðamagn til þess að koma að einum manni í bæjarstj. Af þessu leiðir það, að það verður alltaf sjaldgæfara og sjaldgæfara, að einn flokkur hafi svo mikið fylgi á bak við sig, að hann fái hreinan meiri hl. fulltrúa, og því síður sem kosningalögin eru rýmri og flokkarnir fleiri.

Í l. frá 1929 er ákvæði um það, að bæjarfulltrúar skuli kjósa bæjarstjóra, og sá maður sé kosinn, sem flest atkv. fær, þó að hann fái ekki helming allra atkv. eða meira, og er af því augljóst, hve lítil líkindi eru oft og einatt fyrir því, að nokkur einn fái meiri hl. allra atkv., þar sem flokkar eru margir.

Út af því, sem hv. frsm. meiri hl. sagði, vil ég benda á, að við höfum þó dæmi úr tveimur kaupstöðum, þar sem bæjarstjóri hefir verið kosinn án þess að hann hefði meiri hl. Það er á Ísafirði og Akureyri. Löggjafinn gerir vitanlega ráð fyrir, að ef enginn flokkur innan bæjarstj. hefir meiri hl. atkv., þá verði flokkarnir að koma sér saman um kosningu bæjarstjóra, eða þá að hver flokkur gefi sínum manni atkv. sinna flokksmanna, og sá hlýtur þá kosningu, sem flest atkv. hefir fengið. Ef þetta væri ekki í flestum tilfellum aðalreglan, þá væri oftast mjög erfitt að leysa það mál og fá bæjarstjóra kosinn af meiri hl. bæjarfulltrúa.

Það, sem er þó sérstaklega áberandi í þessu frv. og væri út af fyrir sig nóg til þess, að ég gæti ekki fylgt því, er það, að bæjarstjórnirnar eiga ekki að hafa ákvörðunarvald um það, hvort efna skuli til nýrra kosninga, heldur er það atvmrh. Honum er gefin heimild til að fyrirskipa nýjar kosningar, hvort sem bæjarstj. vill eða ekki. Nú er ekki talað um það, hvernig þessi meirihlutaandstaða gegn bæjarstjóra þurfi að vera til að nýjar kosningar séu heimilar. Flokkur, sem styður bæjarstjóra, getur klofnað í einu máli og bæjarstjóri þannig orðið í minni hl. Er þá atvmrh. opin leið að fyrirskipa nýjar kosningar, því að frv. tilgreinir ekki, hvort hér þurfi að vera um flokkslega eða málefnalega andstöðu að ræða. Og það getur vel skeð, ef sá maður er atvmrh., sem vill gera sínum flokki greiða, að hann taki gefið tilefni að boða til nýrra kosninga, af því að hann héldi, að hann gæti unnið flokki sínum pólitískt gagn með því.

Hv. flm. hefir ekki barið þetta frv. fram til að vernda einhverja aðalreglu, sem eigi að gilda um bæjarstjórnarkosningar í kaupstöðum. Það er flutt aðeins til að reyna, hvort sósíalistar á Ísafirði geta ekki með nýjum kosningum fengið meiri hl. í bæjarstj. þar. Ég hefði því kunnað miklu betur við það, að þessi hv. þm. hefði kannazt við sannleikann í þessu máli og miðað þetta frv. við Ísafjörð einan, því að það kemur ekki til mála að framfylgja þessu nema aðeins á Ísafirði. T. d. á Akureyri og Siglufirði dytti mönnum ekki í hug, að neinn einn flokkur geti fengið meiri hl. í bæjarstj. Þar eru flokkarnir svo margir og svipaðir, að slíkt kæmi ekki til mála. Á Siglufirði eru 4 flokkar, sem kjósa 9 fulltrúa, 3 flokkar eiga 2 fulltrúa hver, en einn flokkurinn á 3. Á Akureyri eru 4 flokkar, í Reykjavík 4 flokkar, á Ísafirði 3 flokkar.

Ef við athugum nú atkvæðatölur frá Ísafirði að undanförnu, þá verðar skiljanlegra, hvers vegna hv. þm. ber þetta frv. fram. Við bæjarstjórnarkosningarnar í byrjun ársins 1934 voru gild atkv. 1176. Þar af fékk Sjálfstfl. 498, kommúnistar 117 og Alþfl. 561. Bæjarstj. varð því þannig skipuð, að þar áttu sæti 4 sjálfstæðismenn, 4 Alþýðuflokksmenn og einn kommúnisti. Svo komu kosningar til Alþingis í vor. Þá fékk hv. þm. Ísaf. 701 atkv. sem jafnaðarmaður, Sjálfstfl. 534 atkv. og kommúnistar 69 atkv. Það er rétt, að samkv. þessum tölum mundi Alþfl. fá 5 fulltrúa og komast þannig í meiri hl. í bæjarstj., og þess vegna er nú þetta frv. fram komið.

Ég get vel ímyndað mér, að mjög erfitt sé að stjórna bæ eins og Ísafirði, þegar bæjarstj. er skipuð eins og hún er nú. En það réttlætir ekki það, að setja það sem aðalreglu, að atvmrh. geti stofnað til nýrra kosninga hvar sem er, ef bæjarstjóri hefir ekki alltaf meiri hl. bæjarstj. með sér. Ef hv. þm. hefði komið fram með frv. um, að þetta skyldi aðeins gilda um Ísafjörð, þá hefði þetta þó verið nokkuð öðru máli að gegna, en eins og frv. er, álít ég ómögulegt að samþ. það. Það hefði þó verið annað mál, ef bæjarstjórnirnar fengju að ráða því sjálfar, hvort ætti að fyrirskipa nýjar kosningar.

Ég skil ekki, hvernig hv. þm. getur farið að setja þetta ákvæði í frv., en ég veit þó, hvers vegna hann gerir það. Það er af því, að hann veit, að fulltrúi kommúnista mundi greiða atkv. á móti nýjum kosningum nú. En nú segir hv. þm., að fulltrúar sjálfstæðismanna mundu vilja nýjar kosningar. En ef það er rétt, hvers vegna vill hann þá ekki setja það í frv., að meiri hl. skuli ráða þessu? Það er bara af því, að hann þorir ekki að treysta því, að meiri hl. samþ. þetta. Í grg. stendur, að lýðræðið eigi að gilda, en samt vill hv. þm. ekki láta meiri hl. ráða hér. Hann vill nota sér það, að sósíalisti er í stj., en þorir ekki að bera málið undir bæjarstj.

Við höfum enga vissu fyrir því, nema eins geti farið á Akureyri. Atvmrh. getur séð sér hag í því að láta nýjar kosningar fara fram, þó að meiri hl. bæjarstj. vilji það ekki. Ef bæjarstjóri á Akureyri hefir ekki meiri hl. flokksfylgi að baki sér, þá getur atvmrh. látið fara fram kosningar hvenær sem honum sýnist, og ráðh. þarf ekki að láta sér nægja með einar kosningar, heldur getur hann fyrirskipað fleiri. Og svo skyldu kosningarnar fara svo, að enginn einn flokkur fengi meiri hl. Ég sé ekki, hvar slíkt endar. Ég sé ekki, hvaða vit væri í því að veita gerræðisfullum ráðh. í ofbeldisflokki vald til þess að ákveða bæjarstjórnarkosningar hvað eftir annað, kannske mánaðarlega. Kosningar skapa í sjálfu sér engan meiri hl. Það er alveg sama, hve oft boðskapur um kosningar kemur frá ráðh.; hlutfallið milli flokkanna breytist ekki fyrir það. Það kemur af því, hve flokkarnir eða listarnir eru margir, og meðan hlutfallskosning er leyfð, má búast við því, að enginn einn listi geti fengið meiri hl. atkv.

Ef hér hefðu verið ákvæði um það, að hafa bundna kosningu milli tveggja lista, þá var það annað mál. (FJ: Var það lýðræði?). Það er aðferð, sem gildir á hinu háa Alþingi. Ég vil benda hv. þm. á það, að forseti sameinaðs þings er kosinn bundinni kosningu, þegar búið er að gera tvær tilraunir með óbundinni kosningu og enginn hefir fengið hreinan meiri hl. Það er bezt fyrir hv. þm. að vera ekki með neinn skæting. (FJ: Er það skætingur, ef minnzt er á lýðræði?). Tilgangurinn með þessu frv. er ekki lýðræði; það orð á aðeins að skreyta frv. eins og það kemur fram í grg. þess. Það er hrein og bein hugsunarvilla að halda, að ný kosning skapi meiri hl., og þó kannske væri hægt í einstaka tilfellum að leysa málið með nýrri kosningu, þá nær ekki nokkurri átt að setja þetta sem aðalreglu. Það er miklu nær, að það væri undantekningarregla fyrir þá kaupstaði, sem sérstaklega óska eftir kosningu aftur.

Ég ætla svo ekki að fara fleiri orðum um frv. Ég hefi ekki bundið mig við einstakar gr. frv., herra forseti, heldur rætt um frv. í heild. Mér fannst ég verða að ræða það almennt, af því ég var á móti málinu. Ég vil enda með því, að ég álít þetta mál fram komið vegna Ísafjarðar, og að sá, sem ber það fram, geri það af því, að hann álítur, að hann með því geti náð meiri hl. í bæjarstjórn. En ég álít, að Alþingi geti ekki gert það að meginreglu, hvenær sem bæjarstjóri á einhverjum stað lendir í andstöðu við meiri hl. bæjarstj. án tillits til flokksfylgis eða vilja meiri hl. bæjarstj. Ef lýðræði ætti að gilda, þá eru það bæjarstjórnirnar, sem eiga að ráða. Þetta frv. ber vott um þröngsýni hv. flm., sem sér ekki út fyrir Ísafjarðarkaupstað.